Björk Þórarinsdóttir: Eiginfjárstaða bankanna sterk

Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Arion banka, segir eiginfjárstöðu íslensku bankanna sterka. Margt hafi áunnist á síðastliðnum þremur árum og fljótt ættu að geta skapast forsendur fyrir fjármálakerfið til að styðja við framgang og fjárfestingu fyrirtækja hér á landi.  "Útlánageta er til staðar og sé rétt á málum haldið getur hagkvæmt og skilvirkt fjármálakerfi lagt sitt af mörkum við að rjúfa kyrrstöðu og stuðlað að uppbyggingu blómlegs atvinnulífs."

Þetta kom m.a. fram á opnum fundi SA um atvinnu- og efnahagsmál sl. föstudag þar sem kynnt var ný skýrsla SA, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Björk ræddi á fundinum um málið út frá sjónarhóli fjármálageirans.

Björk Þórarinsdóttir

Erindi Bjarkar má lesa í heild hér að neðan :

"Ég hjó eftir því að framkvæmdastjóri  AGS  Christine Lagarde er nú sögð óttast "glataðan áratug" og vísar til skuldakreppunnar í Evrópu og þróun efnahagsástands í heiminum - enda berast nú fréttir um að hagvöxtur á evrusvæðinu sé einungis 0,5% í stað 1,8% sem áður hafði verið spáð.

Nú liðlega þremur árum frá bankahruni á Íslandi stöndum við frammi fyrir því að vera lengra komin í endurskipulagningu bankanna  en mörg önnur lönd á Evrusvæðinu þótt enn séu mörg verkefni óleyst hér heima fyrir.

Fljótt ættu því að geta skapast forsendur fyrir fjármálakerfið til að styðja við framgang  og fjárfestingar fyrirtækja hér á landi - auðvitað að því gefnu að rétt sé haldið á spilunum.

Efnahagsbatinn hér á landi er hafinn þótt hagvöxtur mælist ekki mikill.  Fjárfestingar sem hlutfall af landsframleiðslu eru hins vegar í sögulegu lágmarki frá stofnun lýðveldisins sbr. meðfylgjandi mynd. 

Langtímatvinnuleysi er sívaxandi vandamál hér á landi og gangi spár um atvinnuþróun eftir mun það verða um og yfir 5%  næstu árin sem er hátt í sögulegu samhengi. Sú tala ein og sér segir okkur e.t.v. lítið og í alþjóðlegum samanburði er það ágætis árangur út af fyrir sig. Hins vegar má ekki gleyma því að frá hruni hafa 7000 þúsund manns flutt úr landi og hefur það dregið úr sýnilegu atvinnuleysi.

Ljóst er af þessu að forsenda hagvaxtar og atvinnusköpunar er að fjárfesting eigi sér stað og það er tímabært að skapa stöðugt efnahagsumhverfi sem hvetur til fjárfestingar, innlendra sem erlendra aðila. Eyða þarf óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja:

1. Óvissa ríkir um skattaumgjörð hér á landi. Hækkun skatta á fyrirtæki og fjármálastofnanir eykur ekki á samkeppnishæfni þeirra. Auknar álögur eru lagðar á fjármálafyrirtæki t.d. í formi launaskatts til viðbótar við tryggingargjald (allt að 20%).

2. Á meðan fjármálakerfið hefur dregist saman þá eru aukin umsvif eftirlitsaðila boðuð. Hér er síst verið að draga úr mikilvægi eftirlits og gæði regluverks en tekið undir orð forstjóra FME sem féllu á ársfundi stofnunarinnar í vikunni, um mikilvægi þess að eftirlitsaðilar séu " í kjörstærð með tilliti til þeirra verkefna sem ber að sinna og umfangs fjármálamarkaðarins."

3. Óvissa um afstöðu hins opinbera til fjárfestinga erlendra aðila. Er vilji til að liðka fyrir erlendri fjárfestingu og gera Ísland að aðlaðandi fjárfestingarkosti? Nýjustu dæmin sýna að fjárfestingarverkefni enda inni á borði hjá stjórnvöldum sem segja af eða á. Sennilega hefur aldrei verið jafnt brýnt að leikreglurnar séu ljósar þegar sest er að borði.

4. Óvissa ríkir í sjávarútvegi - einni af undirstöðuútflutningsgreinum landsins. Frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu - sem búið er að vera alllengi í smíðum - hindra nýfjárfestingar í sjávarútvegi a.m.k. þau ár sem óvissan varir. Eins og alþjóð þekkir eru umtalsverðar breytingar boðaðar, nýtingarréttur auðlindar takmarkaður í styttri tíma en t.d. endingartíma flotans, hömlur á framsali aflaheimilda, hækkun veiðigjalds, og hugmyndir um úthlutun í byggðapotta ef aflaheimildir verða auknar frá því sem nú er.

5. Afnám hafta gengur hægt. Boðaðar tilslakanir Seðlabankans geta þýtt tækifæri og auknar fjárfestingar á Íslandi, einkum ef þau atriði sem nefnd eru hér að framan eru í lagi. Þar væri fjármagnseigendum gefið tækifæri til að nýta sér gengismun af- og álandskróna til fjárfestinga hérlendis.

Höftin eru íþyngjandi í rekstri fyrirtækja og koma fram m.a. í því að nokkur af öflugustu iðnfyrirtækjum landsins sem starfa á alþjóðamörkuðum hafa fært bankaviðskipti - og jafnvel kauphallarviðskipti - sín út fyrir landsteinana. Regluverk hefur gert fyrirtækjum og fjárfestum erfitt fyrir:

  • Flókið, ógagnsætt og síbreytilegt regluverk um gjaldeyrismál

  • Skriffinnska er mikil og viðskipti gjarnan háð undanþágum frá Seðlabanka Íslands.

  • Sökum þessa eru öll gjaldeyrisviðskipti mjög svifasein og erfitt hefur verið að koma með peninga til landsins í nýfjárfestingar.

  • Lífeyrissjóðir geta ekki fjárfest erlendis og fjármagn hleðst upp í skjóli hafta. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf gæti leitt til eignabólu á Íslandi. Til að draga úr þeim þrýstingi er því er mikilvægt að skapa ný arðsöm fjárfestingartækifæri. Þess má geta að heildareignir lífeyrissjóða í árslok 2010 námu um 2.000 milljörðum króna eða um 132% af VLF og jukust um 5% að raunvirði milli ára.

Eftir að hafa stiklað á stóru varðandi starfsumhverfi fyrirtækja - þá er ég komin að kjarna málsins. Vísast þá til myndarinnar hér á skjánum og samanburði alþjóðlegra banka:

Eiginfjárhlutfall íslenskra banka er hátt og glögglega sést að óefnislegar eignir þeirra eru töluvert lægri en hinna bankanna, m.ö.o. eigið fé er nokkuð hreint.

Ennfremur er laust fé til útlána til staðar - að vísu í skjóli hafta - en geta íslensku bankanna til útlána er töluverð.

Við það tækifæri vil ég  nefna að eftirspurn eftir lánum til fjárfestinga eða nýrra verkefna (af stærðargráðunni hálfur milljarður eða meira)  er takmörkuð:

  • Dæmi eru um beiðni um ný lán í ferðaþjónustu.

  • Eftirspurn fyrirtækja í sjávarútvegi eftir lánsfé takmarkast við lánalínur til að mæta sveiflum í rekstri - enda liggja fjárfestingar í sjávarútvegi í dvala.

  • Svipað má segja um eftirspurn annarra atvinnugreina s.s. verslun og þjónustu.

  • Verkefnafjármögnun er í algjöru lágmarki ef frá eru talin byggingarverkefni sem hafa verið í vinnslu við hrun og verið er að klára og undirbúa fyrir sölu.

Hvað fjármögnun atvinnuhúsnæðis varðar þá keppa bankarnir við  lífeyrissjóði sem eru bundnir af 3,5% ávöxtunarkröfu á eigið fé og þurfa ekki að kosta jafnmiklu til við áhættustýringu og eftirlit.

----------

Gild rök eru fyrir því að íslensku bankarnir hafi ríkulegt eigið fé til að mæta áföllum í framtíðinni, en þegar til lengri tíma er litið, hvernig á að nýta eiginfjárstyrkinn?

Ef við nýtum ekki þessa sterku eiginfjárstöðu og þrengjum að arðsemi og hagkvæmni þeirra t.d. með því að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, dreifist þá lánastarfsemin af meiri þunga til fleiri aðila - svo sem fjársterkra lífeyrissjóða?

Eru eftirlitsaðilar og lífeyrissjóðirnir tilbúnir til þess að takast á við slíka þróun? Hvert yrði hagræðið við það?

Að lokum. Bregðast þarf við af áræðni og aðilar markaðarins þurfa að  vinna saman til að forðast fjármálalegan óstöðugleika og óvissu, með tilheyrandi hruni á eftirspurnarhlið.

Ekki má gleyma því að margt hefur áunnist á þremur árum. Úrlausnarverkefnum bankanna er að ljúka, eiginfjárstaða þeirra er sterk og eigið fé tiltölulega hreint í samanburði við aðra evrópska banka. Útlánageta er til staðar og sé rétt á málum haldið getur hagkvæmt og skilvirkt fjármálakerfi lagt sitt af mörkum við að rjúfa kyrrstöðu og stuðlað að uppbyggingu blómlegs atvinnulífs."

Glærur Bjarkar (PDF)

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)

Úr fjölmiðlum:

vb.is: Fyrirtækin sækja í yfirdráttarlán