Fréttir - 

29. Mars 2017

Björgólfur Jóhannsson formaður SA 2013-2017 á Ársfundi atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Björgólfur Jóhannsson formaður SA 2013-2017 á Ársfundi atvinnulífsins

"Raungengi á mælikvarða launa er góður mælikvarði á samkeppnisstöðu atvinnulífsins en það sýnir hvernig launakostnaður hér á landi þróast miðað við samkeppnislönd í sama gjaldmiðli. Frá síðasta ársfjórðungi 2014 til jafnlengdar 2016 hækkaði raungengi á þennan mælikvarða um 43% og ef litið er til fjögurra ára er hækkunin 64%. Samkeppnisstaðan hefur því tekið stakkaskiptum til hins verra á skömmum tíma og fer þeim vörum og þjónustuþáttum ört fækkandi sem borgar sig að framleiða hér á landi." Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA 2013-2017 m.a. í kveðjuræðu sinni á Ársfundi atvinnulífsins sem nú stendur yfir. Ávarpið má lesa í heild á vef SA.

"Raungengi á mælikvarða launa er góður mælikvarði á samkeppnisstöðu atvinnulífsins en það sýnir hvernig launakostnaður hér á landi þróast miðað við samkeppnislönd í sama gjaldmiðli. Frá síðasta ársfjórðungi 2014 til jafnlengdar 2016 hækkaði raungengi á þennan mælikvarða um 43% og ef litið er til fjögurra ára er hækkunin 64%. Samkeppnisstaðan hefur því tekið stakkaskiptum til hins verra á skömmum tíma og fer þeim vörum og þjónustuþáttum ört fækkandi sem borgar sig að framleiða hér á landi." Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA 2013-2017 m.a. í kveðjuræðu sinni á Ársfundi atvinnulífsins sem nú stendur yfir. Ávarpið má lesa í heild á vef SA.

Forsætisráðherra, félagar og góðir gestir

Árið 1939 hóf Verslunarmannafélag Reykjavíkur útgáfu tímaritsins Frjálsrar verslunar. Ætlunin var að gera það að „öflugu málgagni í baráttunni fyrir bættum viðskiptaháttum og fullkomnara efnalegu sjálfstæði Íslendinga“ eins og segir í yfirlýsingu stjórnar félagsins. Formaður VR var þá Friðþjófur O. Johnsen, forstjóri O. Johnson & Kaaber, sem talinn er hafa markað djúp spor í sögu Verslunarmannafélagsins. Ritstjóri Frjálsrar verslunar fyrstu árin var Einar Ásmundsson, hæstaréttarlögmaður, og síðar ritstjóri Morgunblaðsins um hríð.

Forystumenn Verslunarmannafélagsins á þessum tíma voru sannfærðir um að frjáls og haftalaus viðskipti gögnuðust best til að efla samkeppni og bæta hag fólks. Sem betur fer hafa forystumönnum þjóðarinnar einnig verið ljós þessi sannindi og smám saman tóku Íslendingar að létta höftum af alþjóðlegum viðskiptum. Stórir áfangar náðust á tímum viðreisnarstjórnarinnar, með inngöngu í EFTA og síðar með samningunum um Evrópska efnahagssvæðið. Þótt nauðsynlegt hafi reynst í kjölfar efnahagshrunsins 2008 að koma höftum á viðskipti með íslensku krónuna þá hafa þau nú loks verið afnumin að mestu. Nú má víða um heim sjá pólitíska lukkuriddara sem telja hag þjóða sinna best borgið með afnámi viðskiptasamninga, einangrunarstefnu og tollamúrum. Samtök atvinnulífsins verða hér eftir sem hingað til talsmaður frjálsra viðskipta enda hefur velmegun aukist hér á landi í stórum stökkum eftir því sem frelsi til athafna og alþjóðaviðskipta hefur aukist. Íslendingar bjuggu við einokun og viðskiptahöft um aldir og þekkja því vel til afleiðinga slíkrar stefnu og einangrunar.

Brexit
Í dag sögðu Bretar sig úr Evrópusambandinu. Íslendingar eiga mikið undir því að ná, annað hvort einir eða með öðrum, samningum við Breta um viðskipti og gagnkvæm réttindi á vinnumarkaði. Það er erfitt að sjá fyrir hvernig viðræðum Breta og ESB muni ljúka. En langmikilvægasta verkefni utanríkisþjónustunnar á næstunni er að tryggja frelsi í viðskiptum milli Íslands og Bretlands og viðhalda fjölbreyttum og mikilvægum samskiptum þjóðanna meðal annars á sviði rannsókna og menningar. Atvinnulífið er boðið og búið til samstarfs og aðstoðar við að tryggja íslenska hagsmuni.

Ný aðferð við kjarasamninga
Að undanförnu hafa Samtök atvinnulífsins ásamt viðsemjendum á almenna vinnumarkaðnum freistað þess að ná fram breytingum á aðferðum, sem hér hafa tíðkast, við gerð kjarasamninga. Í stað höfrungahlaups, þar sem hver hópur reynir að tryggja sér meiri hækkun launa en þeir sem á undan fóru, verði samið um hóflegar hækkanir í samræmi við getu fyrirtækja í útflutningi og alþjóðlegri samkeppni. Reynslan á Norðurlöndum og víðar styður að hóflegar launahækkanir leiði af sér betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði beint og óbeint, með lægri vöxtum og raunhæfari gengisskráningu. Þetta tryggi aukna atvinnuþátttöku og minna atvinnuleysi auk þess sem hagur alls almennings verður betri en ella. Þannig megi komast hjá endurteknum sveiflum í efnahagslífinu þar sem skiptast á ofþensluskeið og kreppur, sem bæði koma fyrirtækjunum afar illa, og reynast ekki síður heimilum landsins afar erfiðar.

Verkalýðshreyfingin er sterk og veik
Verkefnið er ekki einfalt og rekst á ýmsa veggi. Í Fjármálatíðindum janúar til júlí 1974 fjallar Jón Sigurðsson, hagfræðingur, um verðbólgu eftirstríðsáranna á Íslandi. Jón varð síðar ráðherra iðnaðarmála fyrir Alþýðuflokkinn, bankastjóri Norræna fjárfestingabankans og er nú forseti Hins íslenska bókmenntafélags. Jón sagði verðbólguna meðal annars stafa því að Alþingi hafi, hvernig sem áraði, litið á framkvæmdir sem dyggð og hafi meiri afskipti af fjárveitingum til einstakra þarfa en í flestum löndum öðrum.

 

Síðan segir Jón: „…verkalýðshreyfingin [hefur] reynst í senn sterk og veik. Sterk í þeim skilningi, að hún getur ráðið flestu, sem hún vill í kaupgjaldsmálum, en veik í þeim skilningi, að sundrung innan hennar og skipulagsbrestir hafa valdið því, að hún hefur enn ekki reynst þess megnug að móta skynsamlega samræmda stefnu í kjara- og efnahagsmálum og fylgja henni eftir. Á þessum vettvangi eru mörg verkefni óleyst, sem verkalýðshreyfingin þyrfti að einbeita sér að á næstu árum.“ Frá þessu eru liðnir drjúgir fjórir áratugir og óhætt að segja að verkefnin sem Jón nefnir eru enn jafn óleyst og þá.

Átakahefð á vinnumarkaði og í stjórnmálum
Á söguþingi árið 2012 fjallaði Guðmundur Jónsson, sagnfræðingur og prófessor, um það sem hann kallaði Átakahefðin í íslenskum stjórnmálum og norrænt samráðslýðræði. Í greininni færir Guðmundur sterk rök fyrir því að samráðslýðræði, sem einkennir stjórnmál og vinnumarkað á Norðurlöndum, eigi ekki við hér á landi. Þvert á móti hafi viðleitni til þýðingarmikilla málamiðlana og samhæfing ólíkra hagsmuna á vinnumarkaði átt hér erfitt uppdráttar. Hann telur orsakirnar liggja í stjórnmálamenningunni, hugsun, venjum og framgöngu manna en nái einnig til stofnanaskipulags í stjórnmálum og á vinnumarkaði. Hann bendir á að fylgni er milli samráðsstefnu á vinnumarkaði og í stjórnmálum. Ísland sé á gagnstæðum pól miðað við Norðurlöndin, því stjórnmálin beri sterk einkenni átakalýðræðis og á vinnumarkaði hafi samráðsstefna ekki verið ríkjandi samskiptaform.

Ný vinnubrögð hafa mætt andstöðu
Samtök atvinnulífsins ásamt Alþýðusambandi Íslands hafa í nokkurn tíma viljað brjótast út úr þessari átakahefð og voru kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum í ársbyrjun 2014 fyrsta skref til þess. Stefnan var hins vegar brotin niður með samningum stéttarfélaga háskólagenginna starfsmanna sveitarfélaga og ríkisins skömmu síðar. Enn á ný freistuðu samningsaðilar á almennum vinnumarkaði þess 2015 að móta kjarastefnu sem gæti orðið fyrirmynd annarra.  Gerðardómur sem batt enda á kjaradeilur BHM og hjúkrunarfræðinga og ríkisins gerði þá tilraun að engu.

Í október 2015 urðu þau tímamót að SA, ASÍ, BSRB, ríkið, Samband sveitarfélaga og Reykjavikurborg gerðu með sér rammasamkomulag um breytt og betri vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Samkomulagið fól í sér sameiginlega launastefnu til ársloka 2018, meginatriði nýs samningalíkans til framtíðar og virkt samstarf aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Samkomulaginu má jafna við þjóðarsáttina svokölluðu árið 1990. Það fól í sér að umsamdar launabreytingar í kjarasamningum skyldu að hámarki nema 32% á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018. Bandalag háskólamanna og Kennarasambandið ákváðu að eiga ekki aðild að samkomulaginu.

Kjarasamningar í opinbera geiranum hafa iðulega farið gegn forsendum samninga á almennum vinnumarkaði og kjararáð hefur úrskurðað þvert á almenna launastefnu um laun kjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna og forstjóra ríkisfyrirtækja. Að sjálfsögðu átti ráðið að leggja launastefnu rammasamkomulagsins til grundvallar úrskurði sínum. 

Í nýliðnum febrúar ákváðu SA og ASÍ að kjarasamningar aðila haldi gildi sínu að minnsta kosti til loka febrúar 2018. Ástæðan er sú að á árinu kemur fjöldi kjarasamninga til endurnýjunar og við vonumst til að þeir muni rúmast innan launastefnu rammasamkomulagsins.

Lífeyrissjóðir eru tryggingafélög
Lífeyrissjóðir eru í eðli sínu tryggingafélög sjóðfélaga og veita tryggingu fyrir ævilöngum ellilífeyri og vernd gegn ýmsum áföllum. Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda vegna þeirra eru því tryggingariðgjöld en ekki fjáreign þeirra. Í frumvörpum sem lögð hafa verið fyrir Alþingi hefur verið kallað eftir breytingu á skipan stjórna lífeyrissjóða og í stað fulltrúa stéttarfélaga og atvinnurekenda verði stjórnarmenn kosnir í beinni kosningu sjóðfélaga. Atkvæðisréttur sjóðfélaga fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra. Einnig eru uppi tillögur um að sjóðfélagar geti valið sér lífeyrissjóð í stað núgildandi skylduaðildar.

Lífeyrissjóðir og iðgjöld til þeirra hafa verið viðfangsefni kjarasamninga í nær hálfa öld og eru þeir fyrirmynd laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lögin voru sett til að þeir sem starfa utan kjarasamninga nytu sambærilegra réttinda og aðrir, en reiddu sig ekki einungis á lífeyri Tryggingastofnunar ríkisins.

Samtök atvinnulífsins telja aðild sína  að stjórnum lífeyrissjóða hafa verið mjög til góðs og skipt sköpum við uppbyggingu sjóðanna. Samtökin leggja áherslu á að skipa hæfileikaríkt fólk til starfa í stjórnum þeirra og hafa nýlega fengið umsóknir fjölda fólks með fjölþætta reynslu og bakgrunn til þeirra starfa. Fulltrúar SA gæta einungis hagsmuna sjóðanna sjálfra og vinna af heilindum fyrir þá sem réttinda njóta. 

Samtökin telja að verði umræddar tillögur samþykktar muni það leiða til ófarnaðar og að með því ljúki hlutverki aðila vinnumarkaðarins í rekstri og uppbyggingu lífeyrisjóðanna. Framlög í lífeyrissjóði muni  smám saman fá einkenni skatts og ábyrgð á þróun og rekstri allra lífeyrissjóða færast til ríkisins. Þá er gott að hafa í huga að ríkið hefur ekki sýnt ábyrgð við uppbyggingu lífeyriskerfis starfsmanna sinna þar sem skuldbindingum er velt á framtíðina. Því verður ekki trúað að Alþingi vilji ráðast gegn rótum íslenska lífeyriskerfisins sem um hefur ríkt góð sátt og víða verið horft til sem fyrirmyndar.

Hugmyndafræðileg þröngsýni í heilbrigðismálum
Reglulega heyrum við fréttir af alvarlegu ástandi á Landspítalanum og að sjúklingar þurfi að hýrast ýmist á þröngum göngum sjúkrahússins eða í skýlum fyrir vélbúnað. Þetta veldur meðal annars því að bið sjúklinga eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og nýjum augasteinum lengist með tilheyrandi óþægindum. Það blasir því við að finna leiðir til að stytta bið sjúklinga eða að þeir nýti rétt sinn til að fara til útlanda í aðgerðir. Það er því makalaust að hugmyndafræðileg afstaða skuli koma í veg fyrir að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta hjálpað til við að stytta biðlista eftir ýmsum aðgerðum. Þá virðist heilbrigðisráðherra ekki hafa hag sjúklinga í fyrirrúmi þegar hann kannar ekki hvort unnt sé að gefa þeim, sem eiga rétt á aðgerðum erlendis, kost á að fá þær hér á landi en með því mætti stytta biðlistana og auka lífsgæði sjúklinganna. Í nágrannalöndunum tíðkast að leita  hagkvæmustu leiða til að veita þjónustuna. Þar er viðurkennt að hagkvæmur rekstur er undirstaða velferðarinnar óháð því hver veitir þjónustuna.

Landspítalinn hefur fengið milljarða króna í auknar fjárveitingar á síðustu árum. Ríkið og viðsemjendur þess hafa ákveðið að langstærstur hluti þessa fjár skuli renna í vasa starfsfólks en ekki til þess að bæta þjónustu við sjúklinga.

Húsnæðismarkaður í kreppu
Það er ástæða til að hafa áhyggjur af húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu þar sem í ljós hefur komið mikill skortur og að nýbyggingar undanfarinna ára hafa ekki haldið í við þörfina. Í greiningu frá síðastliðnu hausti kom fram að yfir fimm þúsund íbúðir skorti til að uppfylla þörfina á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir markvissa stefnu Reykjavíkurborgar til að þétta byggð vestan Elliðaáa hefur íbúum þar fjölgað lítið. Á síðasta ári fjölgaði á þessu svæði um tuttugu manns eða sem svarar 0,0003%. Á svæðinu búa um 65 þúsund manns en að meðaltali fjölgaði þar innan við 300 manns á ári síðastliðin fimm ár. Ástæður íbúðaskortsins blasa við. Það er of lítið byggt og of fáum lóðum úthlutað.

Aukið framboð lóða ásamt því að draga úr kröfum í reglugerðum til lítilla íbúða getur hjálpað til við að ná niður kostnaði. Tveggja herbergja íbúðir hafa stækkað jafnt og þétt undanfarna áratugi. Frá 1980 til hafa þær stækkað úr 66 í 78 fermetra eða um 20% án þess að stærðin hafi verið til vandræða fyrir 30 árum eða svo. 

Einnig verður að gæta þess að skilyrði við greiðslumat geri ekki ungu fólki nánast ókleift að leggja meira á sig og komast þannig yfir erfiðasta hjallann við að eignast sína fyrstu íbúð. Það er ekki skortur á fjármagni sem veldur íbúðaskorti; þar starfa bæði bankar og lífeyrissjóðir auk Íbúðalánasjóðs og annarra.

Skortur á húsnæði veldur því að fasteignaverð rýkur upp og húsaleigan sömuleiðis. Hækkandi húsnæðisverð heggur skarð í ráðstöfunartekjur fólks og í kjölfarið koma óhjákvæmilega fram kröfur um hærri bætur og hærri laun. Þetta hefur verið hluti af óstöðugleika, sem glímt hefur verið við í íslenskum efnahagsmálum um langa hríð. Almennt er unnt að spá um húsnæðisþörf með löngum fyrirvara. Það ætti að vera hlutverk stjórnmálamanna að sjá til þess að á hverjum tíma sé framboð á lóðum nægjanlegt til að svara þörfinni. Landrýmið er nægjanlegt hér allt um kring.

Góð frammistaða stjórnvalda
Það hefur árað vel að undanförnu og flest gengið okkur í hag. Ytri skilyrði þjóðarbúsins eru hagstæð. Ríkissjóður hefur verið að rétta úr kútnum og greiða niður skuldir með tekjum frá slitabúum föllnu bankanna. Höft á gjaldeyrisviðskipti hafa verið felld niður. Sett hafa verið lög um opinber fjármál sem gera að verkum að nú má betur sjá fyrir en áður hvert stefnir í ríkisrekstrinum. Uppgjör vegna efnahagshrunsins er komið á lokastig og er ástæða til að þakka stjórnmálamönnum okkar hvernig að því hefur verið staðið. 

Samkeppnisstaðan hefur versnað hratt
Samtök atvinnulífsins fagna því ríkisstjórnin undirbúi aðgerðir til að draga úr sveiflum á gengi íslensku krónunnar og að forsendur peninga‐ og gjaldmiðilsstefnu Íslands verði endurmetnar. Vonast er til að unnt verði að halda gengishækkun krónunnar í skefjum meðal annars með auknum fjárfestingum Íslendinga erlendis. Lækkun vaxta Seðlabankans yrði einnig mikilvægur þáttur í því skyni og gæti auk þess liðkað fyrir aukinni fjárfestingu á íbúðamarkaði. Enginn vafi er á að hátt gengi krónunnar veldur fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni verulegum vanda um þessar mundir. Öflugar  útflutningsgreinar tryggja efnahagslegar framfarir og leggja grunn að batnandi lífskjörum. Því er það svo brýnt að sem fyrst líti dagsins ljós aðgerðir til að sporna gegn gengishækkuninni.

Raungengi á mælikvarða launa er góður mælikvarði á samkeppnisstöðu atvinnulífsins en það sýnir hvernig launakostnaður hér á landi þróast miðað við samkeppnislönd í sama gjaldmiðli. Frá síðasta ársfjórðungi 2014 til jafnlengdar 2016 hækkaði raungengi á þennan mælikvarða um 43% og ef litið er til fjögurra ára er hækkunin 64%. Samkeppnisstaðan hefur því tekið stakkaskiptum til hins verra á skömmum tíma og fer þeim vörum og þjónustuþáttum ört fækkandi sem borgar sig að framleiða hér á landi.

Tryggingagjaldið lækki
Það hafa streymt miklir fjármunir í ríkissjóð vegna hagvaxtar undanfarinna ára og ekkert lát virðist þar á. En í stað þess að leggja til hliðar og undirbúa bakslagið sem óhjákvæmilega kemur hefur ríkið sýnt of lítið aðhald. Á sama tíma er of litlum hluta af þessum tekjum varið til uppbyggingar í heilbrigðiskerfinu eða fjárfestingar í öðrum innviðum.

Samtök atvinnulífsins hafa undanfarið ítrekað kallað eftir lækkun tryggingagjalds sem rennur til ríkisins og leggst ofan á allar launagreiðslur. Samtökin telja sig einnig hafa fengið vilyrði fyrir lækkuninni frá stjórnvöldum.

Að lokum
Þeir gerðu sér glögga grein fyrir því forystumenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur í grein í Frjálsri verslun árið 1940 hvernig fjármunum er best fyrir komið: „Því meiri skattar því minna auðmagn. Því minna auðmagn því meira atvinnuleysi og örbyrgð. …Ef spariskildingar einstaklinganna eru teknir frá þeim af skattheimtumönnunum getur ekkert fjármagn skapast. Hann hefir þá ekkert afgangs, getur ekki fært út kvíarnar í starfsemi sinni, ekki fjölgað starfsmönnum eða aukið inneign sína í bönkunum. Skattarnir eru nú svo háir, að þeir ekki aðeins gleypa allt sparifé, heldur og líka það sem lagt hefir verið fyrir.“

Rétt er að lokaorð mín á þessum vettvangi eigi Einar Ásmundsson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, sem segir í sömu grein og áður er á minnst og fela í sér sannindi sem þeir sem reka fyrirtæki mega gjarnan hafa í huga: „Kaupsýslumaðurinn vinnur þjóð sinni vel. Hann framfleytir sér ekki á kjaftæði og loforðum. Hann greiðir gjald fyrir hvern skilding, sem honum áskotnast.  Hann vinnur. Enginn vinnur meira en hann. Hann veit að ef atvinnurekstur hans á að vera heilbrigður og traustur þarf hann að njóta velvildar fjöldans.“

Horfðu á Björgólf á Ársfundi atvinnulífsins 2017:

 

Samtök atvinnulífsins