Veistu hver áhrif þíns fyrirtækis eru? Reiknaðu dæmið

Bjóðum þau velkomin

Tugir þúsunda fólks af erlendum uppruna hafa flutt hingað undanfarinn áratug. Það er skylda okkar allra að taka vel á móti þeim. Ekki bara með vinsemd og opnum huga heldur er það lágmarkskrafa að við gætum vel að aðbúnaði þeirra og virðum réttindi þeirra í hvívetna. Hluti af því er að þeim standi til boða gott og öruggt húsnæði. Þetta á ekki bara við um verkafólk af erlendum uppruna, heldur líka verkafólk sem fæddist hér, námsmenn, öryrkja, eldri borgara og fleiri.

Ástand íbúðarhúsnæðis er fyrst og fremst á ábyrgð eigenda þess. En eftirlitsaðilar, einkum sveitarfélög með sína byggingarfulltrúa og brunavarnir á vegum slökkviliðs, þurfa að standa í lappirnar. Það er fleira sem við getum gert. Það þarf að einfalda regluverk og ferla í tengslum við byggingarframkvæmdir, án þess að slá af öryggiskröfum, til þess að gera það auðveldara að byggja og innrétta húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir þau sem hafa lægstu tekjurnar. Auk þess þarf að láta af tortryggni í garð leigufélaga. Innkoma þeirra á leigumarkað hefur aukið fagmennsku á markaðnum, gæði húsnæðis og skapað meira húsnæðisöryggi fyrir margt fólk.

Innflytjendur auðga ekki bara menningu okkar og líf heldur bæta þeir lífsgæði sín og allra okkar sem fyrir erum. Góðæri síðustu ára hefði ekki verið jafn gott ef fjöldi þeirra hefði ekki komið hingað til starfa á síðustu árum. Við værum þá heldur ekki jafn vel búin undir kreppuna sem nú blasir við okkur. Ég væri líka nokkrum vinum fátækari.

Davíð Þorláksson forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA. Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 1. júlí.

Flokkar

Leita eftir tímabilum

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu SA.