Bjarnargreiði við neytendur

Eitt af mikilvægustu verkefnunum í þeim kerfisbreytingum sem ganga yfir íslenskt efnahagslíf er að auka samkeppni á öllum sviðum. Samkeppnismálin hafa að undanförnu verið mjög í sviðsljósinu, m.a. vegna álitsgerða samkeppnisyfirvalda um áformaðan samruna ríkisviðskiptabankanna og vegna kaupa Prentsmiðjunnar Odda á Steindórsprenti-Gutenberg. Löggjöf um samkeppnismál og starfsemi Samkeppnisstofnunar er afskaplega þýðingarmikil en þar ætti meginmarkmiðið að vera virk samkeppni í þágu neytenda. Samkeppnin tryggir þeim góða þjónustu og lágt vöruverð. Hins vegar er margs að gæta til þess að endanleg niðurstaða verði í samræmi við þau markmið, sem sett eru af góðum hug. Menn skilja nú að starfsemi og úrræði forvera Samkeppnisstofnunar, þ.e. Verðlagsstofnunar, gátu stuðlað að hækkun vöruverðs til neytenda, t.d. vegna þess að reglur um álagningarprósentur ýttu undir óhagstæð innkaup. Breytingin úr því umhverfi hafta og miðstýringar þarf að fela meira í sér en breytt nafn Verðlagsstofnunar. Það er ekki hlutverk Samkeppnisstofnunar að stýra uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Hún ræðst á frjálsum markaði. Stofnunin á fyrst og fremst að einbeita sér gegn ólögmætu atferli.
Athugasemdir atvinnulífsins hundsaðar 
Það sem skiptir mestu máli er að bregðast við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, ekki að banna markaðsráðandi stöðu í sjálfri sér. Þetta var kjarninn í athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og flestra annarra samtaka í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi við frumvarp til laga að breyttum samkeppnislögum. Í umsögn sinni til Alþingis bentu SA á að hafa yrði í huga þær aðstæður hér á landi að víða starfa fá fyrirtæki á hverju sviði. Því geti ógilding samruna á grundvelli markaðsráðandi stöðu án þess að um misbeitingu sé að ræða hæglega orðið til þess að hamla gegn aukinni framleiðni og bættum lífskjörum. Því miður kusu viðskiptaráðherra og alþingismenn að hundsa þessar athugasemdir algerlega. Reyndar er athyglisvert að viðskiptaráðherra skyldi óska eftir fyrirfram áliti samkeppnisráðs í bankamálinu í ljósi þess að möguleikinn til slíkrar málsmeðferðar var eitt af því sem ráðherra kaus að afnema úr samkeppnislögum, þrátt fyrir gagnstæð sjónarmið úr atvinnulífinu.


Markaðir skilgreindir þröngt 
Íslensk samkeppnisyfirvöld hafa sýnt mikla tilhneigingu til að skilgreina markaði mun þrengra en eðlilegt getur talist. Í áliti samkeppnisráðs um áformaðan samruna Landsbankans og Búnaðarbankans er án nægilegs rökstuðnings vísað á bug sjónarmiðum bankanna um að eðlilegt sé að horfa til náskyldra þátta í fjármálastarfsemi er markaðshlutdeild er metin. Þess í stað fer Samkeppnisstofnun eins og stundum áður þá leið að skilgreina markaði þröngt eftir t.d. tegundum sparnaðar, þegar rætt er um hefðbundin innlán, hlutabréfasjóði og frjálsan lífeyrissparnað. Samkvæmt skýrslu, sem unnin var fyrir Samband viðskiptabanka í desember sl., er hlutdeild bankakerfisins alls í innlendum sparnaði aðeins um 29%. Sú skýrsla dregur upp allt aðra mynd af starfsumhverfi og stöðu bankakerfisins en álit samkeppnisráðs.


Spor Samkeppnisstofnunar hræða í þessu efni. Umfjöllun stofnunarinnar um samruna Myllunnar-Brauðs og Samsölubakarís fyrir tveimur árum ætti að vera mönnum í fersku minni og víti til varnaðar. Engir af spádómum stofnunarinnar um afleiðingar þeirrar sameiningar fyrir markaðinn og neytendur hafa ræst.


Alþjóðlegri markaður - harðnandi samkeppni 
Menn geta haft ýmsar skoðanir á þeirri leið, sem fara átti við bankasameininguna. Þó liggur ljóst fyrir að það er afar eðlilegt að fyrirtæki á þessum markaði leitist við að nýta augljós tækifæri til að ná fram samlegðaráhrifum, auka hagræðingu og framleiðni og nýta betur krafta starfsmanna sinna. Slíkar breytingar eru auðvitað í þágu viðskiptavina bankanna. Jafnframt verður fjármálamarkaðurinn æ alþjóðlegri og sameining fyrirtækja innanlands er til þess fallin að styrkja íslenskt fjármálalíf í síharðnandi alþjóðlegri samkeppni við margfalt stærri fyrirtæki. Lega Íslands felur núorðið í sér litla vernd gagnvart erlendri samkeppni, einkum í starfsemi þar sem upplýsinga- og fjarskiptatæknin leikur æ stærra hlutverk og gerir nýjum aðilum auðveldara fyrir að gera strandhögg á markaðnum.


Ýmis fyrirtæki hafa sótt fram á erlendum markaði sem er m.a. til þess fallið að jafna sveiflur í rekstri þeirra og þau hafa verið að stækka og sameinast í viðleitni til að hagræða. Mikilvægt er að atvinnulífið fái að gera slíkt áfram. Það væri mikil skammsýni ef við takmörkuðum þessa eðlilegu viðleitni til að hagræða og styrkja atvinnureksturinn. Það hlýtur að vera algert neyðarúrræði að samruni fyrirtækja sé bannaður, en eftir því sem næst verður komist gæti Ísland tekið forystu á þessu sviði í heiminum. Það kemur líklega flestum á óvart sem þekkja til íslensks atvinnulífs. Þessu úrræði hefur 13 sinnum verið beitt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á síðustu 10 árum. Í Svíþjóð hafa samkeppnisyfirvöld þrisvar sinnum leitað eftir banni við samruna fyrir dómstólum á síðustu fimm árum og hefur það verið samþykkt í tveimur tilvikum.


Ósigur fyrir lífskjörin? 
Samkeppnisyfirvöld á Íslandi virðast ekki átta sig á síbreytilegu eðli markaðarins sem gerir það að verkum að yfirvofandi samkeppni getur verið allt eins mikilvæg og sú sem þegar er fyrir hendi. Það er fyrirtækjum dýrt að misstíga sig gagnvart neytendum. "Samkeppni læðist alltaf aftan að mönnum þó að samkeppnisráð sjái hana ekki," var haft eftir Margeiri Péturssyni í Viðskiptablaðinu, og eru það orð að sönnu.


Að framan var vikið að því að niðurstöður kunni oft að verða aðrar en að er stefnt af góðum hug. Þegar álit samkeppnisráðs í bankamálinu kom fram í síðasta mánuði urðu sumir til að tala um sigur en aðrir töluðu um þröngsýni.


Því miður virðist veruleg hætta vera á því að þegar upp verður staðið muni óbreyttar áherslur Samkeppnisstofnunar fyrst og fremst verða ósigur fyrir framleiðniþróun og bætt lífskjör á Íslandi.


Ari Edwald