Birtir yfir atvinnulífinu

"Það eru jákvæð teikn á lofti á Íslandi. Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins telja ástandið í atvinnulífinu nokkuð gott eftir margra ára svartnætti og sjá fram á enn bjartari tíma. Neytendur eru sömuleiðis bjartsýnni en áður. Mörg brýn verkefni á sviði efnahagsstjórnar þarf að leysa á næstu árum. Þær leiðir sem verða fyrir valinu munu skipta sköpum um þróun lífskjara á næstu árum.

Ísland hefur fallið niður í 14 sæti í samanburði Efnahags- og þróunarstofnunarinnar (OECD) yfir ríkustu aðildarþjóðir stofnunarinnar, en áratugina tvo fyrir efnahagskreppuna var landið jafnan meðal þeirra 10 efstu. Ísland er í dag í 29. sæti yfir 60 samkeppnishæfustu þjóðir heims skv. mati IMD í Sviss - rannsóknarstofnunar um samkeppnishæfni þjóða. Á sjö árum hefur Ísland fallið niður lista IMD um 25 sæti sem ekki boðar gott um þróunina framundan. Á vissum sviðum skrapar Ísland botninn. Efnahagsleg frammistaða Íslendinga fær til dæmis falleinkunn, eru í 45. sæti. Ekki verður hægt að bæta lífskjör Íslendinga svo neinu nemur fyrr en efnahagsmál þjóðarinnar verða tekin traustum tökum.

Sú mynd sem við blasir er ekki falleg. Það er lokað fyrir beina erlenda fjárfestingu Íslendinga erlendis, gjaldeyrishöft takmarka vöxt íslenskra fyrirtækja en höftin bjóða upp á spillingu og mismunun. Aðgengi að mörkuðum er takmarkað og vextir eru himinháir. Reikningurinn sem skuldug fyrirtæki og heimili greiða árlega vegna hærri raunvaxta en í viðskiptalöndunum er 150 milljarðar króna. Íslendingar fá falleinkunn fyrir háar skuldir hins opinbera, hagkerfið er fábreytt og verðlag er óstöðugt. Þá eru neysluskattar óvenju háir sem og verndartollar til að verja innlenda framleiðendur fyrir erlendri samkeppni. Neytendur tapa.

Er ástæða til bjartsýni þegar þessi mynd er dregin upp af stöðu mála?

Já, vegna þess að það er unnt að breyta hlutunum til hins betra. Á Íslandi er öflugur vinnumarkaður, duglegt og skapandi fólk, ríkar auðlindir til lands og sjávar og sterkir innviðir. En samstöðu þarf um leiðina til betri lífskjara.

Leið kennara og Bandalags háskólamanna er ekki vænleg til árangurs. Það er ávísun á verðbólgu og verri lífskjör að hækka laun hjá ákveðnum stéttum um tugi prósenta - langt umfram það sem fólk á almennum vinnumarkaði hefur samið um. Það ætti að vera þeim og öllum öðrum ljóst að einstök stéttarfélög geta ekki knúið fram meiri launahækkanir fyrir sína félagsmenn án þess að önnur stéttarfélög krefjist sömu hækkana. Slíkar hækkanir eru óhugsandi nema samstaða sé í gjörvallri verkalýðshreyfingunni um að félagsmenn tiltekins stéttarfélags skuli hækka umfram aðra. Sú samstaða er ekki fyrir hendi og stéttarfélög sem fara fram með miklar launakröfur hafa ekki gert tilraun til að mynda slíka samstöðu. Þau vaða blint áfram með ítrustu kröfur sínar og beita verkfallsvopninu án tillits til skaðlegra afleiðinga aðgerða þeirra á vinnumarkaðinn og efnahag þjóðarinnar.

Fimmtudaginn 3. apríl efna Samtök atvinnulífsins til Ársfundar atvinnulífsins en þar verður samkeppnishæfni Íslands á dagskrá. Kynnt verður stefnumörkun SA sem miðar að því að bæta lífskjör og koma Íslandi í fremstu röð á næstu 10 árum. Til að svo geti orðið þarf samstillt átak fólks í landinu, atvinnulífs, verkalýðshreyfingar, stjórnmálamanna á Alþingi og í sveitarstjórnum til að leggja sitt af mörkum að gera Ísland að betri stað til að búa á.

Það er óskandi að vel takist að stilla saman strengi þessara aðila á næstu misserum svo atvinnulífið geti eflst og landsmenn haft það betra. Íslendingum hefur jafnan gengið betur að hafa stjórn á efnahags- og launamálum sínum í hallæri en góðæri. Á erfiðum tímum hefur oftast tekist að mynda víðtæka samstöðu, en þegar betur árar brestur samstaðan. Framundan eru betri tímar en undanfarin ár og þá mun reyna á hvort landsmenn hafi lært af biturri reynslu undanfarinna ára og áratuga af miklum heimatilbúnum efnahagssveiflum og takist að höndla góðærið betur en áður."

Þorsteinn Víglundsson

Af vettvangi í mars 2014