BHM velur verðbólguna

Undanfarið ár hafa allir stærstu aðilar vinnumarkaðar staðið sameiginlega að greiningu á því hvernig bæta megi vinnubrögð við gerð og framkvæmd kjarasamninga með aukinn stöðugleika í íslensku efnahagslífi að meginmarkmiði. Að þessari vinnu hafa öll stærstu samtök á almennum og opinberum vinnumarkaði komið. Megininntak þessarar vinnu hefur verið að færa vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi til samræmis við þau sem tíðkast hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum, sem náð hafa eftirtektarverðum árangri í auknum kaupmætti samhliða lágri verðbólgu á undanförnum tveimur áratugum.

Í kjarasamningum SA og ASÍ fyrir áramót var stigið fyrsta skrefið í átt að breyttum vinnubrögðum að norrænni fyrirmynd þar sem áherslan var lögð á kaupmáttaraukningu á grundvelli lágrar verðbólgu.

Bandalag háskólamanna (BHM) hélt opinn fund í gær þar sem í bakgrunni var risaskilti þar sem strikað var með rauðu yfir töluna 2,8%. Það þýðir að bandalagið hafnar þeirri launastefnu sem mótast hefur í samningum Samtaka atvinnulífsins og viðsemjenda þeirra.

Samkvæmt ræðu formanns BHM á fundinum krefst bandalagið afgerandi launaleiðréttingar. Að sögn formannsins er að baki langt tímabil stöðnunar í launum háskólamenntaðra, sem hafi verið verðfelld og það þurfi að leiðrétta. Vandi félagsmanna BHM liggi í þeirri launastefnu sem fylgt hefur verið síðustu ár og einkennist af hækkunum lægstu launa en kyrrstöðu millitekjuhópa.

BHM hefur frá árinu 2011 tekið fullan þátt í fyrrnefndu samstarfi heildarsamtaka á almennum og opinberum vinnumarkaði um breytt og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. BHM hefur tekið tekið þátt í sameiginlegri vinnu samtakanna við öflun þekkingar á fyrirkomulagi kjarasamninga á Norðurlöndum og gerð skýrslu norræna samningalíkanið í maí á síðasta ári og skýrslunnar "Í aðdraganda kjarasamninga - efnahagsumhverfi og launaþróun" í október síðastlinum.

Í síðarnefndu skýrslunni var m.a. fjallað um launaþróun frá árinu 2006. Flokkað var eftir heildarsamtökunum ASÍ, BSRB, BHM og KÍ og eftir því hvort vinnuveitandi væri fyrirtæki, ríki eða sveitarfélag. Niðurstaðan var sú að laun starfsmanna á almennum vinnumarkaði hefðu hækkað um 51,7% að meðaltali á tímabilinu nóvember 2006 til maí 2013 sem er nákvæmlega sama hækkun og á launavísitölu Hagstofunnar. Laun félagsmanna BHM sem starfa hjá ríkinu hækkuðu um 50,0% á sama tímabili. Félagsmenn ASÍ á almennum markaði hækkuðu þannig að meðaltali um 1,7% umfram félagsmenn BHM á þessu sex og hálfa ári. Í ljósi launastefnu undangenginna ára, sem falist hefur í sérstakri hækkun lægstu launa, og hafði veruleg áhrif á þessa 51,7% hækkun hjá ASÍ félagsmönnum, liggur ljóst fyrir að félagsmenn BHM hafi hækkað meira en þeir sem eru á svipuðum launum og þeir á almennum vinnumarkaði. Framangreindar tölur hrekja þannig fullkomlega ranga staðhæfingu formanns BHM um langvarandi stöðnun í launum félagsmanna BHM og verðfellingu launa þeirra.

Í skýrslunni um norræna samningalíkanið er því þannig lýst: "Á Norðurlöndum ríkir almenn samstaða á vinnumarkaðnum um að útflutningsgreinar í alþjóðlegri samkeppni séu leiðandi (undanfarar) í launamyndun og gerð kjarasamninga í hverri lotu og skapi fordæmi fyrir aðra. Kjarasamningar í öðrum greinum eru nánast undantekningarlaust innan ramma sem settur er af útflutningsgreinum. Almenn samstaða er um að launahækkanir allra kjarasamninga verði að vera innan þess ramma sem iðnaðurinn ræður við. Ákveðið svigrúm er fyrir sveigjanleika í útfærslum en ekki til kostnaðarfrávika."

Norræna samningalíkanið hefur undanfarna áratugi tryggt stöðugt verðlag og gengi og skilað launamönnum í viðkomandi ríkjum hægfara en öruggum kjarabótum. Áratugirnir þar á undan, áttundi og níundi áratugur síðustu aldar, einkenndust hins vegar af miklum launabreytingum og mikilli verðbólgu og stöðugum gengislækkunum.

Íslenska samningalíkanið, sem oft er líkt við höfrungahlaup stéttarfélaga, hefur skilað miklum launahækkunum, mikilli verðbólgu og miklum gengisfellingum krónunnar á undanförnum áratugum. Það hefur einnig skilað auknum kaupmætti launa en fullyrða má að sú kaupmáttaraukning hafi fremur orðið þrátt fyrir þetta ómögulega íslenska samningalíkan en vegna þess. Á móti hefur samfélagið borið mikinn kostnað vegna hárrar verðbólgu og vaxta. Norræna líkanið með hófsamlegum launahækkunum skilar minni verðbólgu og meiri kaupmáttaraukningu.

BHM hefur nú hafnað norræna líkaninu, sem og breyttum, bættum og faglegum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Með öðrum orðum hefur BHM valið gömlu en ekki góðu verðbólguleiðina.

Tengt efni:

Í aðdraganda kjarasamninga.Efnahagsumhverfi og launaþróun