Betri lífskjör með auknum hagvexti og kaupmætti

Lífskjör batna ekki á Íslandi nema hagvöxtur aukist segja forystumenn á vinnumarkaði. Auka verður fjárfestingu og ráðast í mannaflsfrek verkefni. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttastofu RÚV. Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, segist vongóður um að atvinnurekendur og launþegar geti átt samræðu um hóflega hækkun launa í kjaraviðræðum síðar á árinu. Kveða verði verðbólguna niður í hagkerfinu og tryggja kaupmáttinn.

Þörf á auknum fjárfestingum

Á ruv.is segir að hagvöxtur í fyrra hafi verið langt undir væntingum:

"Flestir höfðu spáð nærri þriggja prósenta hagvexti en niðurstaðan varð 1,6 prósent. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir þetta mikil vonbrigði. Það sé alveg ljóst að endurskoða þurfi spár, bæði fyrir þetta ár og næsta. Vegna þess að sú deyfð sem hvílt hafi yfir atvinnulífinu, sé ennþá í gangi.

Þetta geri verkefnin framundan erfiðari en annars hefði orðið. Fyrir þá sem eru án atvinnu, séu þetta mjög vondar fréttir. Ekki sé líklegt að störfum fjölgi við þessar aðstæður. Einnig þyngi þetta róðurinn varðandi undirbúning næstu kjarasamninga. Úr minna sé að spila. Gylfi ítrekar að ráðast þurfi í þær stærri framkvæmdir sem lengi hafi verið áform um.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það mikið áhyggjuefni hversu lítil fjárfestingin sé: "Við þyrftum að vera með að minnsta kosti 50 milljarða í viðbót í fjárfestingu í atvinnulífinu bara til að það endurnýi sig með eðlilegum hætti og síðan ennþá meira ef við ætlum að sjá hér hagvöxt til lengri tíma".

Fjárfesta þurfi á öllum sviðum atvinnulífsins en einkum í útflutningsgreinum. Vilhjálmur segir kjarasamninga byggja á væntingum um framtíðina frekar en tölum síðasta árs: "En hins vegar snýst þetta allt um að ná þessu upp og þá fyrst og fremst fjárfestingunni í útflutningsgreinunum. Ef við sjáum fram á að geta gert það þá breytir það að einhverju leyti þeim væntingum sem við getum haft um hagvöxt og kaupmátt og lífskjör á næstu árum".

Kjarasamningarnir mikilvægir
Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, undirstrikar að stærsta einstaka hagsmunamálið sé að kveða niður verðbólguna í hagkerfinu. Allir, sama í hvaða flokki þeir standi, þurfi að leggjast á eitt við það. Niðurstaða kjaraviðræðna á þessu ári verði mjög mikilvæg og unnið verði að því með Alþýðusambandinu að halda verðlagi niðri.

Á vef RÚV segir ennfremur:

"En síðan að sjálfsögðu koma til áhrif frá ríkisvaldinu eða hinu opinbera sem hafa áhrif á það. Menn geta nefnt þar skatta og tolla og innflutningsgjöld og slíkt," segir Björgólfur.

Aðspurður að því hvort hann haldi að auðvelt verði að sannfæra launþega um að hóflegar launahækkanir séu lausnin segist Björgólfur trúa því að hægt sé að eiga þá samræðu þannig að skynsamleg niðurstaða náist. "Það er algerlega ljóst að það er hvorki hagur atvinnurekenda, og allra síður launþega, að við hefjum þann leik að hækka laun umfram getuna, sem kemur þá fram í verðbólgu sem étur upp þær launahækkanir, eins og hætta er á eins og staðan er allavegana núna," segir Björgólfur.

- En þurfa atvinnurekendur ekki um leið að taka sig á til að reyna að koma hjólum atvinnulífsins betur af stað? "Að sjálfsögðu þurfa þeir að gera það og við höfum reyndar verið að tala um að það vantar innspýtingu í hagkerfið," segir Björgólfur."