Besta þjónustufyrirtæki ársins verðlaunað

Föstudaginn 25. mars efna Samtök atvinnulífsins og  SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu  til ráðstefnu á Grand Hótel Reykjavík um framúrskarandi þjónustu í tengslum við átakið "Spilum saman".  Á ráðstefnunni verður besta þjónustufyrirtæki ársins á Íslandi verðlaunað en fjórði hver Íslendingur á hinum almenna vinnumarkaði starfar við verslun og þjónustu. Mikill áhugi er á ráðstefnunni og munu stjórnendur og starfsmenn fjölmargra framsækinna íslenskra þjónustufyrirtækja fjölmenna á ráðstefnuna. Enn er hægt að bætast í hópinn en skráningu lýkur í dag á vef SA og SVÞ.

Á ráðstefnunni mun André Wiringa frá ráðgjafafyrirtækinu Performance Solutions fjalla um hvernig stjórnendur geti með FISH! hugmyndafræðinni gert vinnustaðinn áhugaverðari, skemmtilegri, arðsamari og árangursríkari um leið og viðskiptavinirnir eru hafðir í öndvegi.

FISH! hefur orðið mörgum innblástur til að auka vinnugleði og bæta starfsárangur. Hugmyndafræðin varð til hjá fisksölunum í Pike Place Fish í Seattle í Bandaríkjunum sem eru nú orðnir heimsfrægir fyrir rekstur sinn og jákvætt viðhorf til lífsins.  

Margrét Kristmannsdóttir setur ráðstefnuna en fundarstjóri er Dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir. 

SKRÁNING HÉR

Ráðstefnan fer fram á Grand Hótel Reykjavík - Gullteig, föstudaginn 25. mars kl. 8.30-10.00. Skráning og morgunverður frá kl. 8.00.  Verð aðeins kr. 3.500 með morgunverði.