Besta leiðin er fær

Á fjölmennum félagsfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór fyrr í dag ríkti mikill einhugur um að fara þá leið sem aðilar vinnumarkaðarins hafa bent á að sé farsælust fyrir Ísland. Leiðin felst í gerð kjarasamninga sem tryggi efnahagslegan stöðugleika, lægri vexti og verðbólgu, aukna atvinnu og meiri kaupmátt atvinnutekna í stað áherslu á miklar launahækkanir. Fundurinn fór fram fyrir fullum sal í Hörpu en hann var auk þess sendur út beint til félagsmanna  um land allt.

Glærukynningar frummælenda má nálgast hér að neðan ásamt stuttri samantekt og þremur sjónvarpsinnslögum um meginefni fundarins.

Nýtt upphaf
Formaður Samtaka atvinnulífsins, Björgólfur Jóhannsson, setti fundinn en í máli hans kom m.a. fram að Samtök atvinnulífsins leggi áherslu á að gerðir verðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði til eins árs og að í þeim felist upphaf nýs stöðugleikatímabils þar sem áhersla verði lögð á að stilla saman strengi og væntingar allra aðila.

Í kjölfarið fylgi svo samningar til lengri tíma þar sem kjarabætur og kaupmáttaraukning byggi á aukinni verðmætasköpun atvinnulífsins, auknum útflutningstekjum, betri samkeppnishæfni og stöðugleika í efnahagsmálum. Því fylgi aukin fjárfesting í atvinnulífinu, hagvöxtur og smám saman batni lífskjör almennings og nálgist að nýju þau sem best gerast í samkeppnislöndunum.

Á fundinum kom fram að almenningur styður þessa leið. 2/3 aðspurðra í nýrri Capacent-könnun styðja gerð þjóðarsáttar - að í komandi kjarasamningum verði lögð áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en minni áhersla á launahækkanir. Jafn stór hluti þjóðarinnar hefur miklar áhyggjur af verðbólgu. Kjarasamningarnir nú verða að taka mið af þessu sagði Björgólfur.

Miklar launahækkanir minnka ráðstöfunartekjur heimilanna
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, kynnti á fundinum helstu niðurstöður nýrrar skýrslu aðila vinnumarkaðarins um efnahagsumhverfi og launaþróun í aðdraganda kjarasamninga.

Í máli hans kom fram að kjarasamningarnir 2011, bæði vinnubrögð og niðurstaða þeirra, hefðu sætt gagnrýni úr öllum áttum; frá atvinnurekendum, verkalýðshreyfingunni, stjórnvöldum, Seðlabankanum og greiningaraðilum. Undirbúningur hefði verið ómarkviss og viðræður óskilvirkar og langdregnar. Mikil óvissa hefði skapast á fyrri hluta ársins 2011 og launahækkanir samkvæmt þeim hefðu verið langt umfram getu atvinnulífsins sem hafi dregið úr efnahagsbata, kynt undir verðbólgu og valdið miklu launaskriði. Skýrslan væri liður í þeirri viðleitni að bæta

vinnubrögðin og kæmi í kjölfar skýrslu um norræna kjarasamningalíkanið sem út kom síðastliðið vor.

Í fyrri hluta skýrslunnar um launamál kemur m.a. fram að  þrátt fyrir að laun félagsmanna innan ASÍ hafi hækkað að jafnaði um 59% frá árinu 2006 þá sé kaupmáttur launa þeirra sá sami og þá. Laun hækki ekki aðeins með kjarasamningum því launaskrið hafi verið mikið, og sem dæmi um það þá hefðu laun hækkað meira hér á landi en í nágrannalöndunum þótt engar almennar hækkanir hefðu orðið samkvæmt kjarasamningum frá árinu 2006. Launastefna undanfarinna ára með miklum krónutöluhækkunum taxta hefði þjappað saman launum, þ.e. minnkað verulega bil á milli hæstu og lægstu launa. Laun kvenna hefðu hækkað um 5% meira en laun karla undanfarin ár.

Um skuldavanda heimila og fyrirtækja sagði hann það sameiginlega hagsmuni heimila og fyrirtækja að verðbólga og vextir lækkuðu. Það skilaði heimilunum mestum ábata því þau skulduðu tvö þúsund milljarða króna, þ.a. væru 1.700 milljarðar verðtryggðar skuldir. Hver prósenta í verðbólgu legði 20 milljarða króna byrði á heimilin í formi vaxta og verðbóta. Til samanburðar næmu heildarlaun landsmanna ríflega 800 milljörðum króna og því hækkuðu tekjur heimilanna um 8 milljarða króna þegar laun hækkuðu um eina prósentu og um 5 milljarða króna eftir greiðslu tekjuskatts. Ávinningur heimilanna af 1% hjöðnun verðbólgu væri því að minnsta kosti fjórfalt meiri en af 1% launahækkun.

Íslensk fyrirtæki væru líka mjög skuldug. Skuldir fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu væru hvergi hærri en hér á landi, eða sem næmi einni og hálfri landsframleiðslu. Ávinningur fyrirtækja af lækkun vaxta væri því líka mikill og heimilin myndu njóta þess í lægra vöruverði. 

Í síðara hluta skýrslunnar, um efnahagsumhverfið og svigrúm til launahækkana, sagði Hannes að lakari viðskiptakjör hefðu gert ávinning þjóðarinnar af hagvexti síðastliðinna ára að engu. Lakari viðskiptakjör þýddu að Íslendingar hefðu orðið fyrir áfalli, hefðu orðið fátækari. Spáð væri áfrahaldandi versnandi viðskiptakjörum. Á Íslandi skiptust reglulega á tímabil versnandi samkeppnisstöðu, vegna mikilla kostnaðarhækkana, og batnandi samkeppnisstöðu um stundarsakir með gengisfellingum. Við öllum blasti þvílíkur ófarnaður þessi stefna væri.

Uppskeran væri mikil verðbólga sem grafið hefði undan lífskjörum almennings og rekstrarstöðu atvinnulífsins. Til lengri tíma réðist kaupmáttur launa fyrst og fremst af framleiðni vinnuafls og fjármagns í atvinnulífinu.

Sameiginleg markmið aðila vinnumarkaðarins hljóti að vera bætt lífskjör sem hvíli á efnahagslegum stöðugleika, samkeppnishæfu atvinnulífi og sem næst fullri atvinnu. Slík  sameiginleg sýn samningsaðila væri grundvallarþáttur við gerð kjarasamninga á Norðurlöndum. Mikilvægt væri að aðilar íslensks vinnumarkaðar fetuðu þessa braut og aðlagi norræna kjarasamningalíkanið að íslenskum staðháttum.

Staða og horfur út frá nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, fór yfir stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi út frá nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var í gær. Jafnframt fór Ásdís yfir aðhald peningastefnunnar. Hún sagði að þrátt fyrir að Seðlabankinn spái áframhaldandi hagvexti á komandi árum þá séu óvissuþættirnir margir og batinn brothættur. Talsverð óvissa ríki um hversu mikill framleiðsluslakinn sé í íslensku efnahagslífi, í grunnspá bankans sé gert ráð fyrir því að enn sé nokkur slaki í þjóðarbúskapnum en aftur á móti bendi mat bankans á jafnvægisatvinnuleysi til þess að slakinn hafi jafnvel verið horfinn á árunum 2011-2012.

Vilji til þjóðarsáttar

Hörður Vilberg, verkefnastjóri hjá SA, kynnti á fundinum nýja könnun Capacent Gallup fyrir SA um viðhorf almennings til kjarasamninga, kaupmáttar og verðbólgu en hún sýnir að  66,3% landsmanna, eða tveir af hverjum þremur eru hlynntir því að gerð verði þjóðarsátt á vinnumarkaði, þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir.

Könnunin sýnir jafnframt að nærri sjö af hverjum tíu Íslendingum hafa miklar áhyggjur af verðbólgu og hafa þær áhyggjur farið vaxandi frá árinu 2005. Flestir vilja að í komandi kjarasamningum verði mest áhersla lögð á að stuðla að lágri verðbólgu með hófsömum launahækkunum.

Einnig var spurt um skuldamál heimilanna og sýnir könnunin að tæp 74% skulda heimilanna eru verðtryggðar og að meðalstalsskuld heimilis sé um 17,8 milljónir króna.

Betri lífskjört til lengri tíma
Þorsteinn Víglundsson fjallaði um samningsmarkmið Samtaka atvinnulífsins á fundinum. Hann sagði SA vilja gera eins árs samning þar sem verði lagður grunnur að nýjum vinnubrögðum í kjaraviðræðum eins og aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að á árinu. Liður í því er t.d. að ráðast í sameiginlega úttekt á efnahagsumhverfi og launaþróun í upphafi viðræðna eins og gert hefur verið og kynnt var á fundinum.

Þorsteinn segir meginmarkmið í kjarasamningunum framundan að ná þjóðarsátt um bætt lífskjör með lækkun verðbólgu og vaxta. Þar skipti náin samvinna aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda miklu máli. Helstu markmið SA í gerð slíkra samninga séu m.a. að launabreytingar verði í samræmi við markmið um stöðugt verðlag, bætt efnahagsumgjörð leiði til aukinnar fjárfestingar fyrirtækja og kröftugri hagvaxtar og aukin fjárfesting skili 10-15 þúsund nýjum störfum á næstu 4 árum.

Þorsteinn segir mikilvægt að næstu samningar á almennum vinnumarkaði verði fyrsta skrefið í átt að nýjum vinnubrögðum við gerð og framkvæmd kjarasamninga, en á liðnum árum hafi kjarasamningar aukið verðbólgu og takmarkað vöxt atvinnulífsins. Mikilvægt sé að kjarasamningar skapi störf í stað verðbólgu - á því muni allir hagnast.

Glærur frummælenda:

Hannes G. Sigurðsson

Ásdís Kristjánsdóttir

Hörður Vilberg

Þorsteinn Víglundsson

Skýrsla aðila vinnumarkaðarins: Efnahagsumhverfi og launaþróun

Sjónvarpsinnslög: