Best fyrir Ísland að gjaldeyrishöftum verði aflétt - gögn frá opnum fundi SA

Stundarglas

Samtök atvinnulífsins efndu til opins fundar 16. maí um mikilvægi þess að gjaldeyrishöft verði afnumin sem fyrst. Mikill áhugi er á málinu innan íslensks atvinnulífs og var salurinn á Hótel Nordica fullskipaður. Samtök atvinnulífsins telja það brýnasta hagsmunamál Íslendinga, að höftin verði afnumin sem fyrst þar sem þau valda þjóðinni sífellt meiri skaða. Áætlun SA, sem hefur verið birt á vef samtakanna, gerir ráð fyrir að gjaldeyrishöftin falli niður í árslok og ráðist verði strax í sérstakar mótvægisaðgerðir til að takmarka tjón skuldsettra heimila af hugsanlegu gengisfalli krónunnar. Kynningar frummælenda frá fundinum hafa nú verið birtar á vef SA ásamt stuttri samantekt.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, stýrði fundinum en hún sagði formann SA, Vilmund Jósefsson, hafa greint frá nýrri áætlun SA um afnám gjaldeyrishafta á aðalfundi samtakanna nýverið og hafi það vakið mikla athygli. Birna sagði í lok fundar ljóst af erindum frummælenda og umræðum á fundinum að hljómgrunnur væri fyrir því að ráðasta í víðtækt sameiginlegt átak um afnám haftanna þó svo að á þessu stigi greini menn eitthvað á um leiðir.

Vilhjálmur Egilsson:

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í sínu erindi að SA hafi lagt fram trúverðuga áætlun um afnám haftanna sem væri brýnasta hagsmunamál atvinnulífsins. Gengistöðugleiki náist ekki við núverandi aðstæður, verðbólga sé að festast í kringum 5% og sókn fyrirtækja á erlenda markaði sé takmörkuð. Vilhjálmur sagði höftin hafa staðið mun lengur en til hafi verið ætlast undir lok árs 2008 en þá hafi verið almennur skilningur á því að höftin myndu vara í um þrjá mánuði. Nú sé ekki eftir neinu að bíða, skapa verði aðstæður þannig að hægt sé að aflétta höftunum bæði fyrirtækjum og heimilum í landinu til góða. Vilhjálmur sagði nútíma atvinnulíf ekki þrífast við gjaldeyrishöft og Íslendingar verði að hafa metnað og þor til að koma Íslandi í fremstu röð.

Kynning Vilhjálms Egilssonar (PDF)

Árni Páll Árnason:

Árni Páll Árnason, alþingismaður, sem hefur fjallað töluvert um mikilvægi þess að afnema gjaldeyrishöftin, sagði útfærslu SA á afléttingu haftanna mikilvæga og lofsverða. Hins vegar greini menn nokkuð á um leiðina út úr höftunum og stór hætta sé á því að þau festist í sessi. Árni sagði tillögur SA góðan grunn sem mætti byggja á og það væri lykilatriði að verja heimilin fyrir mögulegu tjóni. Árni sagði það sitt mat að of fljótt væri að aflétta höftunum í árslok, eða fyrr en að afloknum alþingiskosningum, en spurði hvort þjóðin gæti ekki sameinast um það sameiginlega verkefni að aflétta höftunum? Í því samhengi sagði hann ríkisfjármálin skipta öllu máli, og  grundvallarforsenda væri að almenn samstaða væri um að reka ríkissjóð með afgangi og greiða niður skuldir.

Árni sagði verkefni sumarsins felast í að ná skuldbindingu allra flokka á Alþingi og aðila vinnumarkaðarins um að standa við markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum ekki seinna en 2014 og að Maastricht-skilyrðum verði náð sem allra fyrst jafnframt því sem sömu aðilar skuldbindi sig til að hefja afnámsferli haftanna í kjölfar þingkosninga á næsta vori. Flokkapólitík verði að víkja í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.

Kynning Árna Páls Árnasonar (PDF)

Ólöf Nordal:

Ólöf Nordal, alþingismaður, tók undir að mikilvægt væri fyrir Íslendinga að afnema gjaldeyrishöftin. Hún ræddi um ábyrgð Alþingis á því að höftin væru enn við lýði en sagði litla umræðu fara fram á þingi um skaðsemi haftanna og leiðir til að brjótast út úr þeim. Það væri hins vegar skylda Alþingis að ná breiðri samstöðu um afnám haftanna - miklu meira þurfi til að koma málinu farsællega í höfn en einfaldan þingmeirihluta - víðtækt samráð sé nauðsynlegt.  Ólöf ræddi höftin út frá ýmsum sjónarhornum en erindi hennar má nálgast í heild hér að neðan.

Erindi Ólafar Nordal (PDF)

Friðrik Már Baldursson:

Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR, tók undir með Vilhjálmi Egilssyni um að höftin væru búin að vera allt of lengi. Friðrik kom að viðræðum við AGS um höftin á sínum tíma fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og sagðist hafa staðið í þeirri trú að byggja ætti upp öflugan gjaldeyrisforða til að afnema höftin sem fyrst.  Áætlun um afnám haftanna hafi hins vegar undið hægt fram af ýmsum orsökum.

Friðrik ræddi um atriði sem standa í vegi fyrir afnámi haftanna, nefndi t.d. 1000 milljarða íslenskra króna sem eru lokaðar inni í kerfinu  og að of lítill hvati væri fyrir einstaka aðila til að taka þátt í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands. Hann sagði mörg atriði í áætlun SA um afnám hafta vera þegar í áætlun Seðlabankans en munurinn væri sá að áhættumat væri ólíkt og áætlun SA væri tímasett.  Friðrik sagði að til að tímasettar aðgerðir séu raunhæfar þurfi að vera óhagstætt fyrir krónueigendur að bíða. Hafa verði í huga að slíkar aðgerðir feli ekki  í sér of mikla áhættu fyrir Ísland. Hann benti á að nauðsynlegt sé að hafa trúverðuga hótun um íþyngjandi aðgerðir að loknu tímabili þar sem viðskipti með aflandskrónur fari fram. Hugsanlegt væri að binda aflandskrónur í langan tíma, 15-20 ár, eftir að ákveðinn frestur væri liðinn. Búa verði þannig um hnútana að líkur á áhlaupi á krónuna við afnám séu óverulegar.

Kynning Friðriks Más Baldurssonar (PDF)

Tengt efni:


Áætlun SA um afnám gjaldeyrishafta - íslensk útgáfa (PDF)


Áætlun SA um afnám gjaldeyrishafta - ensk útgáfa (PDF)

Umfjöllun fjölmiðla:

Sameinast þarf um afnámsáætlun hafta

Í landi hafta

Blekkingin um höftin

Vill sátt um afnám gjaldeyrishafta

Aðhalds er þörf til að afnema höft  

Árni Páll: Fjármálakerfið byggt á guðspekilegum grunni

Gulrætur og lurkar notuð við afnám hafta