Beiting öryggisráðstafana EES samningsins fullkomlega óraunhæf

Ef Ísland vill takmarka fjölda erlendra starfsmanna hér á landi með beitingu öryggisráðstafana EES samningsins verða þær ráðstafanir að beinast gegn öllum 27 aðildarríkjum EES samningsins samtímis. Það eitt gerir notkun þessara ákvæða fullkomlega óraunhæfa. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ragnars Árnasonar, forstöðumanns vinnumarkaðssviðs SA, á morgunverðarfundi SA um erlent starfsfólk á Íslandi. Beiting öryggisráðstafana EES samningsins gæti jafnframt kallað á gagnaðgerðir ESB sem gætu skaðað hagsmuni Íslands verulega. Ef stöðva á eða takmarka með lögmætum hætti frjálsa för launafólks frá aðildarríkjum EES til Íslands þarf að koma til uppsagnar EES samningsins.

Heimildir til öryggisráðstafana

Við gerð EES samningsins árið 1993 var samið um sérstakar heimildir til að grípa til öryggisráðstafana ef upp koma "alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi ..." eins og segir í 112. gr. samningsins. Skilyrði fyrir beitingu þessa ákvæðis er að öryggisráðstafanir gildi gagnvart öllum samningsaðilum, þ.e. ríki getur ekki valið að beita þessum ráðstöfunum gegn einu ríki eða nokkrum.

Góðir Íslendingar - Ragnar Árnason

Uppsögn EES samningsins?

Við stækkun EES árið 2004 var fallist á víðtækari heimild til að beita verndaraðgerðum ef upp koma "alvarlegir erfiðleikar... sem sennilegt er að verði viðvarandi innan einhverrar greinar atvinnulífsins eða geti valdið alvarlegri, efnahagslegri afturför á tilteknu svæði", eins og segir í 37. gr. aðildarlaga ESB. Grípa má til verndaraðgerða gegn einu eða fleiri nýju aðildarríki EES. Heimildin gildir einungis í þrjú ár, þ.e. frá 1. maí 2004 til 1. maí 2007. Frá 1. maí nk. er Íslandi óheimilt að grípa til sérstakra aðgerða gegn nýju ríkjunum einum og sér. Öryggisráðstöfunum verður einungis beitt gegn öllum aðildarríkum EES samtímis, þ.m.t. Norðurlöndunum. Ef Ísland vill stöðva eða takmarka með lögmætum hætti frjálsa för launafólks frá aðildarríkjum EES þá er einungis ein leið fær: Uppsögn EES samningsins.

Viðbrögð ESB

Ef Ísland mun beita öryggisráðstöfunum gegn öllum aðildarríkjum EES samningsins mun það kalla á gagnaðgerðir ESB sem gætu allt eins beinst að viðskiptum með fiskafurðir eða vöruflutningum. Í þeim slag er alveg ljóst að Ísland verður ekki sigurvegari.

Góðir Íslendingar - úr sal

Glærur Ragnars Árnasonar frá morgunverðarfundi SA, 25. apríl