Efnahagsmál - 

26. október 2009

Beðið eftir ríkisstjórninni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Beðið eftir ríkisstjórninni

Samtök atvinnulífsins áttu í gær fund með ríkisstjórninni og Alþýðusambandi Íslands um stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar frá 25. júní 2009. Með stöðugleikasáttmálanum var leitast við að skapa skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti, nýrri sókn í atvinnumálum og að grunnur yrði lagður að bættum lífskjörum til framtíðar.

Samtök atvinnulífsins áttu í gær fund með ríkisstjórninni og Alþýðusambandi Íslands um stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar frá 25. júní 2009. Með stöðugleikasáttmálanum var leitast við að skapa skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti, nýrri sókn í atvinnumálum og að grunnur yrði lagður að bættum lífskjörum til framtíðar.

Á fundinum lögðu SA og ASÍ fram sameiginlegt minnisblað um framgang stöðugleikasáttmálans  og um stöðu mála við framlengingu kjarasamninga SA og ASÍ 1. nóvember 2009. Í minnisblaðinu er m.a. fjallað um fyrirliggjandi aðgerðir í ríkisfjármálum. Þar segir að það sé mat SA og ASÍ að umfang áætlaðra skattahækkana sé of mikið, bæði umfram þá viðmiðun sem sett var fram í stöðugleikasáttmálanum og umfram getu heimila og fyrirtækja. Í viðræðum aðila og við AGS hafi komið fram að miklar líkur séu á að aðlögunarþörfin í ríkisfjármálunum sé ofmetin í frumvarpi til fjárlaga.

Því leggja SA og ASÍ til að á næstu vikum muni fjármálaráðherra í samstafi við aðila vinnumarkaðarins vinna að endurskoðun á þeim forsendum sem liggja að baki fjárlagafrumvarpinu. Ennfremur að áform um nýja orku-, umhverfis- og auðlindaskatta verði dregin til baka en sömu tekjum náð með öðrum hætti - fyrst og fremst með hækkun tryggingagjalds samhliða aukinni ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á atvinnuleysistryggingum.

Í minnisblaði SA og ASÍ er fjallað um framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu en ekki hefur tekist að koma úr vegi hindrunum vegna stórra fjárfestinga í atvinnulífinu fyrir 1. nóvember eins og kveðið er á um í sáttmálanum. Þetta á fyrst og fremst við um Suðvesturlínu en óvissa og tafir vegna hennar hafa haft neikvæð áhrif á framkvæmdir við álver í Helguvík, gagnaver og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir. Nauðsynlegt er að eyða allri óvissu og tryggja framgang þessara fjárfestinga sem hafa lykilþýðingu fyrir hagþróun á næsta ári.

Þá er í minnisblaðinu undirstrikað mikilvægi þess að standa við áform um að hefja afnám gjaldeyrishafta 1. nóvember. Ennfremur að allar forsendur séu nú fyrir verulegri lækkun stýrivaxta og annarra vaxta Seðlabankans  og því eigi markmið stöðugleikasáttmálans um lækkun vaxta að nást fyrir árslok og að vaxtamunur milli Íslands og evrusvæðisins verði innan við 4% í árslok 2010.

Samtök atvinnulífsins hafa kallað skýrt eftir því að stjórnvöld gefi út yfirlýsingu til að skapa starfsfrið í sjávarútvegi en áform stjórnarsáttmálans um innköllun aflaheimilda frá 1. september 2010 hafa valdið mikilli óvissu hjá sjávarútvegsfyrirtækjum.

Niðurstaða fundarins í gær var sú að ríkisstjórnin ætlar að leggja fram drög að yfirlýsingu vegna stöðugleikasáttmálans. Verkefnið í dag og á morgun verður að fjalla um þessi yfirlýsingardrög en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar verður að taka á ágreiningsmálum með fullnægjandi hætti.

Samtök atvinnulífsins