Batnandi starfsumhverfi á Íslandi – en gera má betur

Samkvæmt nýrri úttekt Alþjóðabankans er Ísland í 10. sæti á lista yfir þær þjóðir heims þar sem best er að eiga viðskipti. Ísland hækkar um tvö sæti á milli ára og stekkur upp fyrir Noreg en í kjölfarið fylgja Japan, Finnland og Svíþóð. Best þykir að eiga viðskipti í Singapúr, en Nýja Sjáland, Bandaríkin, Hong Kong og Danmörk raða sér í efstu sæti listans. Niðurstöðurnar eru birtar í riti Alþjóðabankans Doing Business 2008 sem kynnt var í morgun á kynningarfundi Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Melissa Johns, sérfræðingur hjá Alþjóðabankanum, kynnti helstu niðurstöður úttektarinnar. Sagði hún að ef Ísland ætlaði sér ofar á listann þyrfti að bæta hér vernd fjárfesta sem fælist ekki síst í því að auka gagnsæi í viðskiptum með hlutabréf. Viðskiptaumhverfið er metið út frá tíu höfuðþáttum sem greinast í undirþætti. Fyrsti mælikvarðinn er hversu auðvelt er að stofna fyrirtæki. Benti hún á að það væri auðveldast í Ástralíu, tæki aðeins einn og hálfan dag og hægt væri að gang frá því á netinu. Í máli hennar kom skýrt fram að opið og einfalt viðskiptaumhverfi veitti fólki flest tækifæri, m.a. konum en það hafi sýnt sig að þar sem reglubyrði er lág stofna konur fleiri fyrirtæki og taka aukinn þátt í atvinnulífi.

Carmen Niethammer sérfræðingur hjá Alþjóðabankanum greindi frá verkefnum bankans á sviði jafnréttismála. Væri nú unnið að undirbúningi þess að taka upp mælikvarða um stöðu jafnréttismála í skýrslu bankans um viðskiptaumhverfið.

Úttekt Alþjóðabankans má nálgast hér: www.doingbusiness.org