Barnvænt samfélag - vel heppnað málþing

Nýverið fór fram fjölsótt málþing um barnvænt samfélag. Þar kom m.a. fram að ótal leiðir eru til að auka sveigjanleika í vinnu svo starfsmenn geti betur sinnt þörfum barna. Þar getur komið til breytt starfshlutfall til lengri eða skemmri tíma, möguleiki á að færa vinnu heim að hluta eða öllu leyti, tilfærsla á orlofi eða launalaust orlof og tilfærsla á vinnutíma. Þetta byggir þó á gagnkvæmu trausti milli starfsmanna og vinnuveitenda og aðstæður leyfi slíkar breytingar.

Þriðjudaginn 10. nóvember stóðu Samtök atvinnulífsins, Heimili og skóli og Félag leiksólakennara fyrir málþingi undir yfirskriftinni "Barnvænt samfélag". Málþingið sóttu um 160 manns og hlýddu fróðleg erindi og ásamt því að taka þátt í umræðum um efni þeirra.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setti málþingið og sagði samvinnu margra aðila lykil að barnvænu samfélagi. Hún minnti á þingsályktun frá 2007 þar sem gert er ráð fyrir almennum aðgerðum og samráði til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna.

Sæunn Kjartansdóttir, höfundur bókarinnar "Árin sem enginn man", fjallaði um mikilvægi foreldra á fyrstu árum barnsins. Hún sagði örlög barna geta ráðist á allra fyrstu árunum og að heilinn þroskist ekki af sjálfu sér heldur sé hann háður aðstæðum og reynslu. Bregðast verði sem fyrst við vanlíðan og streitu barna en álag hafi áhrif á getu og hæfileika barnanna. Mikilvægt sé að leggja áherslu á nánd á fyrstu þremur árum ævinnar, sterk og örugg tengsl.

Ragnhildur Sverrisdóttir, tvíburamóðir, lýsti reynslu sinni af leikskólanum og bar aðstæður í samfélaginu nú saman við þær sem ríktu þegar hún var að alast upp. Hún fór afar jákvæðum orðum um veru dætra sinna á leikskólanum Sólhlíð og sagði m.a.: "Leikskólinn var  bráðnauðsynlegur okkur mæðrunum, sem gátum haldið áfram að stunda vinnu okkar og verið þannig mikilvægar fyrirmyndir dætrum okkar. Hann var ómetanlegur fyrir dæturnar.  Þjóðfélagið er miklu flóknara og litríkara en áður og vonlaust að ætla heimavinnandi foreldrum að kynna börn sín þeirri miklu flóru."

Arnar Yngvason, leikskólakennari, sagði mikilvægt að í samfélaginu taki allir ábyrgð á börnunum. Hann sagði börn hafa ótrúlega aðlögunarhæfni, þau kunni að vinna úr því sem þau hafa og bíði ekki eftir því sem við ætlum að gera. Börn elski ævintýri og upplifanir og nauðsynlegt sé að gera þeim kleift að upplifa náttúruna, vísindi, söfn og sögu. Að lokum sagði Arnar: "  Það er á tímum eins og núna þegar herða þarf sultarólina örlítið og maður hefur smáséns á að komast niður í kjörþyngd sem sköpunarkrafturinn leysist úr læðingi. Ekki aðeins hjá börnunum heldur einnig hinum fullorðnu. Verum ekki eftirbátar barnanna, tökum þátt og búum þeim kjöraðstæður til að dafna."

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs Reykjavíkur, sagði Íslendinga standa sig vel við að skapa barnvænt samfélag og nefndi háa fæðingartíðni ásamt því að hingað flytti fólk búsett erlendis til að eignast börn og ala þau upp. Umhverfi barna er frjálsara en í nálægum samfélögum og skólakerfið er sterkt. Einnig skipti stórfjölskyldan miklu máli en víða er hún ekki til staðar í sama mæli og hér. Hún sagði faglegt og framsýnt starf fara fram í leikskólunum og að mikilvægt sé að atvinnulífið taki þátt í að skapa barnvænt samfélag. Nú fái barnaverndarnefndir til sín aukinn fjölda mála og fátækt hafi aukist. Hún sagði nú mikilvægara en áður að vernda börnin og lagði þunga áherslu á þessi orð.

Svali Björgvinsson, starfsmannastjóri Icelandair, sagði lífið snúast allt of mikið um að "millifæra börn" í þeim skilningi að þeysast með þau á bílum milli ólíkra staða.Hann sagði grundvallaratriði að jafnvægi ríki milli þarfa barna og atvinnulífs. Það jafnvægi snerti flest það sem okkur finnist mikilvægt, s.s. jafnrétti, heilbrigði samfélags, umhverfi barna, líðan starfsmanns og almenna vellíðan. Mikilvægt sé að fyrirtæki hafi stefnu í fjölskyldumálum þar sem til dæmis er unnt að fjalla um stuðning við fjölskyldur starfsmanna vegna sveigjanleika, veikinda, fjarveru, skemmtana og ýmissa atvika. Svali sagði ótal leiðir til að auka sveigjanleika starfsmanna s.s. breytt starfshlutfall til lengri eða skemmri tíma, möguleika á að færa vinnu t.d. heim að hluta eða öllu leyti, færa til orlof eða bjóða launalaust orlof og möguleika á að færa til vinnutíma. Hann sagði skilning fyrirtækja og þekkingu á sveigjanleika hafa aukist mikið og að þau geri sér grein fyrir að þessum þörfum verði að mæta. Það byggi þó á trausti milli starfsmanna og vinnuveitenda.

Sjá nánar:

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra

Glærur Sæunnar Kjartansdóttur

Erindi Sæunnar Kjartansdóttur

Erindi Ragnhildar Sverrisdóttur

Erindi Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur

Glærur Svala Björgvinssonar