Baráttuár framundan í atvinnulífinu

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja frá 2. desember síðastliðnum var að flestu leyti í takt við óskir Samtaka atvinnulífsins og á undanförum vikum og dögum hefur verið unnið að framgangi ýmissa þeirra mála sem þar er fjallað um. Má þar t.d. nefna vinnubrögð bankanna vegna uppstokkunar fyrirtækja og heimildir til fyrirtækja til að færa ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum miðað við ársbyrjun 2008.

Tvö stór mál í yfirlýsingunni þurfa sérstaka athygli ríkisstjórnarinnar, en það eru annars vegar uppgjör við kröfuhafa, eignarhald þeirra á bönkunum og þar með aðgangur atvinnulífsins að erlendu lánsfé og hins vegar aflétting gjaldeyrishaftanna sem illu heilli voru lögð á.

Atvinnulífið hefur á undanförnum vikum fundið áþreifanlega fyrir afleiðingunum af því að aðgangur að erlendu lánsfé er verulega takmarkaður eða ekki fyrir hendi.  Venjulegur rekstur getur almennt ekki staðið undir þeim vöxtum sem krafist er á innlendum lánamarkaði og því ekki annað til ráða en að pakka í vörn í atvinnulífinu eftir því sem unnt er. Þetta er mjög bagalegt og hefur í för með sér dýpri samdrátt og atvinnuleysi en yrði ef hægt væri að fá aðgang að erlendu lánsfé og innlent lánsfé á eðlilegum kjörum.

Það er því algjört forgangsmál fyrir atvinnulífið að leysa úr þeim ógöngum sem bankamálin hafa komist í. Ríkisbankaleiðin er ófær og það verður að bjóða erlendum kröfuhöfum bankanna að borðinu og gera þá hluta af lausninni í stað þess að reyna eingöngu að leysa vandamálin á þeirra kostnað.

Hinar slæmu afleiðingar gjaldeyrishaftanna koma sífellt betur í ljós. Íslensk fyrirtæki sem hafa verið að reyna að laða til sín erlenda fjárfesta rekast á hvern vegginn eftir annan. Það gengur ekki að vísa til undanþága og sérstakrar túlkunar á reglunum. Höftin verður að afmá.

Það er ekki eingöngu stjórnvalda að bæta möguleikana til þess að komast yfir erfiðleikanna. Mikil ábyrgð hvílir jafnframt á Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni vegna kjarasamninga og þróunar á vinnumarkaði. Miklar viðræður hafa staðið yfir milli SA og Alþýðusambandsins um kjaramálin og nú hafa opinberir starfsmenn og viðsemjendur þeirra bæst í hópinn.

Það viðhorf er ríkjandi í þessum viðræðum að miklu máli skipti að ná almennri samstöðu á vinnumarkaðnum um þróun kjaramálanna á næstu tveimur árum. Aðilar voru sammála um það á fundi í morgun að gera alvarlega atrennu að því að ná niðurstöðu í málin strax í byrjun næsta árs. Mikilvægt er að niðurstaða fáist fyrir 15. febrúar því að annars verður stærsti hluti vinnumarkaðarins með opna samninga og mikil óvissa framundan sem eitt og sér hefur í för með sér hættu á frekari samdrætti og atvinnuleysi.

Ríkisstjórnin hefur nú kynnt áform sín til að minnka hallarekstur ríkissjóðs miðað við það sem annars yrði án nokkurra aðgerða. Ljóst er að enginn kostur er góður í þessum efnum. Þjóðin hefur ekki efni á 215 milljarða halla eins og í stefndi. Ríkisstjórnin leggur til blandaða leið af lækkun útgjalda og skattahækkunum. Í svona stöðu þarf að gæta sem mest að stöðu atvinnulífsins sem er grunnurinn undir skatttekjum ríkisins. Því þarf megináherslan að vera á að lækka útgjöld til rekstrar og tilfærslna.

Nú þegar jól og áramót fara í hönd er tími uppgjörs við árið sem er að líða og tími áætlanagerða fyrir komandi ár. Næsta ár verður mikið baráttuár í öllum skilningi fyrir íslenskt atvinnulíf. Við tökumst á við mikla og margvíslega erfiðleika. Réttar ákvarðanir í lykilmálum atvinnulífsins verða ráðandi um hvernig okkur gengur. Ef vel tekst til verður kreppan ekki eins djúp og við óttumst.

Samtök atvinnulífsins óska landsmönnum gleðilegra jóla og góðs árangurs á hinu erfiða ári sem framundan er. 

Vilhjálmur Egilsson