Bankastjóri Arionbanka segir gjaldeyrishöftin hrekja fyrirtæki og störf úr landi

"Það er mikil áskorun fyrir bankann að halda í viðskiptavini sem hafa tekjur erlendis." Þetta segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arionbanka í viðtali í nýju tímariti SA. "Það eru þó nokkur dæmi um fyrirtæki - stór og smá - sem hafa flutt erlendis eða eru að fara. Einnig höfum við dæmi um stór fyrirtæki sem hefur verið skipt í innlendan og erlendan hluta. Sprotafyrirtæki sem náð hafa fótfestu erlendis flytja viðskipti sín til erlendra banka. Ein versta afleiðing haftanna er að missa verðmæt viðskipti. Gjaldeyrishöftin verða til þess að viðskipti bankanna skreppa saman því þeir geta ekki þjónustað þessi fyrirtæki eða einstaklinga lengur. Framtíð bankanna verður ekki björt nema efnahagslífið dafni vel. Gjaldeyrishöftin eru ógn við efnahagslífið."

Höskuldur segir gjaldeyrishöftin stuðla að vissum stöðugleika til skamms tíma en að þau séu skaðleg til lengri tíma. Ákveðnir aðilar hagnast verulega á höftunum vegna tvöfalds gengis. Þetta skekkir aðstæður og verðmyndun. Mikil viðskipti eru t.d. með dýrar íbúðir miðsvæðis í Reykjavík sem keyptar eru fyrir erlent fé með milligöngu Seðlabankans.

Í viðtali við Höskuld sem birtist tímariti SA Fleiri störf - Betri störf fjallar hann um stöðu bankans sem hann segir góða. Hann segir meirihluta viðskiptavina bankans standa vel. Hann telur að starfsmönnum í fjármálakerfinu hér á landi muni fækka á næstu árum. Hann bendir á að engin lausn felist í því að skipta bönkum upp í fjárfestingabanka og viðskiptabanka. Það sé ekki síður áhætta fólgin í því að lána til viðskiptavina sem ólíklegt er að standi í skilum. Hefðbundnir viðskiptabankar hafi farið á hausinn á undanförnum árum og Íbúðalánasjóður eigi í vandræðum þótt ekki stundi hann fjárfestingabankastarfsemi.

Hægt er að lesa tímarit SA hér að neðan, viðtalið við Höskuld er á bls. 44-45.

Smellið á blaðið til að lesa.