Efnahagsmál - 

14. maí 2009

Bandaríkin gegna lykilhlutverki í loftslagsmálunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bandaríkin gegna lykilhlutverki í loftslagsmálunum

Um þessar mundir stendur yfir samningaferli þar sem aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna freista þess að komast að niðurstöðu um hvernig skuli draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá 2013. Á árinu 2012 lýkur tímabili Kyoto-bókunarinnar sem hófst á síðasta ári en samkvæmt henni var gert ráð fyrir að útstreymi frá iðnríkjum verði 5% minna á tímabilinu borið saman við árið 1990. Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna gegnir lykilhlutverki í þessum samningum. Nýlega hefur aðalsamningamaður Bandaríkjanna lagt línurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og felast skilaboðin í 10 meginþáttum.

Um þessar mundir stendur yfir samningaferli þar sem aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna freista þess að komast að niðurstöðu um hvernig skuli draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá 2013. Á árinu 2012 lýkur tímabili Kyoto-bókunarinnar sem hófst á síðasta ári en samkvæmt henni var gert ráð fyrir að útstreymi frá iðnríkjum verði 5% minna á tímabilinu borið saman við árið 1990. Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna gegnir lykilhlutverki í þessum samningum. Nýlega hefur aðalsamningamaður Bandaríkjanna lagt línurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og felast skilaboðin í 10 meginþáttum.

Samningaferlið fer eftir umboði sem samþykkt var á aðildarríkjaráðstefnu loftslagssamningsins á Bali í árslok 2007 og vonast er til að því ljúki í desember á þessu ári.  Samningsferlið fer eftir tveimur brautum. Annars vegar er rætt um frekari skuldbindingar iðnríkja frá 2013 og hins vegar almennar skuldbindingar allra aðildarríkjanna til lengri tíma.

Bandaríkin hafa ekki staðfest aðild að Kyoto-bókuninni og bera þannig engar formlegar skuldbindingar samkvæmt henni. Þar hefur til skamms tíma verið mest útstreymi gróðurhúsalofttegunda þótt Kína hafi nýlega farið fram úr Bandaríkjunum.

Áherslumál Bandaríkjastjórnar í þeim alþjóðlegu samningaviðræðum sem nú standa yfir eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi þurfi að taka mið af niðurstöðum vísinda og setja markmið til langs tíma. Út frá því megi svo leggja línur til skemmri tíma. Einn af göllum á Kyoto-bókuninni hafi einmitt verið hve skamman tíma hún gildir og hve erfið hún hefði orðið í framkvæmd og árangur takmarkaður. Bent er á að hingað til hafi spár vísindamanna um hlýnun ekki gengið eftir. Þess vegna verði að endurskoða markmiðin eftir því sem ný þekking kemur í ljós.

Í öðru lagi viðurkenni Bandaríkin ábyrgð og muni því gegna leiðandi hlutverki til að ná alþjóðlegu samkomulagi. Einnig verði gerðar ráðstafanir til að draga úr útstreymi í Bandaríkjunum meðal annars með viðskiptakerfi ("cap and trade"), aukinni áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og útstreymisstaðla fyrir bíla og ýmis tæki. Rannsóknir á þessu sviði verða efldar.

Í þriðja lagi vilja Bandaríkin ná samkomulagi í Kaupmannahöfn sem byggir á aðgerðum þeirra heima fyrir og tekur mið af aðgerðum allra helstu hagkerfa heims til að draga úr útstreymi. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á þær aðgerðir sem hagkvæmastar eru. Bandaríkin munu ásamt öðrum leggja verulegt fé til þróunarríkja sem bæði hjálpi til við aðlögun að loftslagsbreytingum og til að draga úr útstreymi.

Í fjórða lagi verði að taka tillit til sjónarmiða þróunarríkja um að bæta lífsskilyrði en þau verði að fara aðra leið en iðnríkin á sínum tíma sem m.a. byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í fimmta lagi er nauðsyn að helstu þróunarríki dragi verulega úr útstreymi. Ef draga á úr því um 80% til ársins 2050 gerist það ekki nema þróunarríkin grípi til verulegs átaks heima fyrir.

Í sjötta lagi kemur niðurstaðan til með að ráðast af pólitík sem er list hins mögulega. Ef ekki er tekið mið af þessu er allt ferlið í hættu. Þess hefur til dæmis verið krafist að Bandaríkin dragi úr útstreymi um 25 - 40% til ársins 2020 frá 1990. Það mun hins vegar ekki njóta stuðnings. Forsetinn styður markmið um að stefnt verði að því að útstreymið árið 2020 verði svipað og árið 1990 en það felur í sér samdrátt um 15% frá 2005.

Í sjöunda lagi mun þeim farnast vel sem grípa til ákveðinna aðgerða snemma en hinum síður sem streitast við og berjast gegn straumnum. Því fyrr sem endurnýjanlegir orkugjafar taka við af kolefnisríkum orkugjöfum því minni hætta fyrir hagkerfi viðkomandi ríkis þegar til lengri tíma er litið.

Í áttunda lagi verður einkageirinn að vera virkur þátttakandi í öllum aðgerðum. Fjárfesting og nýsköpun eru lykilþættir til lausnar loftslagsvandanum.  Stjórnvöld hafa ekki yfir að ráða nýsköpun, athafnavilja, sköpunarkrafti og getu sem er að finna í einkageiranum. En stjórnvöld geta stutt við þessa þætti og tryggt að rannsóknir og nýsköpun eigi greiða leið út á markaðinn.

Í níunda lagi verða leiðtogar stærstu hagkerfa heims að taka frumkvæði og móta tillögur um orku- og loftslagsmál. Þetta ferli hófst 2007 og nauðsynlegt er að gæða það innihaldi til að aukar líkur á samkomulagi í Kaupmannahöfn. Í tíunda lagi verða öll ríki heims að róa í sömu átt og leggja af hefðbundnar þrætur milli þróunarríkja og iðnríkja.

Enginn vafi er á að þessi viðhorf Bandaríkjanna muni hafa veruleg áhrif á þá niðurstöðu sem búast má við af samningaferlinu um loftslagsmál.

Samtök atvinnulífsins