Ban Ki-moon hvetur fyrirtæki til að skrifa undir Global Compact

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hvetur stjórnendur fyrirtækja til að skrifa undir Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact en alls eru 6.200 fyrirtæki aðilar að sáttmálanum í 130 löndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að 20 þúsund fyrirtæki hafi skrifað undir sáttmálann árið 2020 með það að markmiði að auka sjálbærni efnahagslífs heimsins.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur verið mikið rædd í kjölfar alþjóðlegu efnahagskreppunnar, bæði hér heima og erlendis. Byggja þarf upp traust á ný á mörgum sviðum en fyrirtæki vilja í auknum mæli sýna formlega fram á að rekstur þeirra sé ábyrgur. Það má t.d. gera með því að skrifa undir og virða sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð.

Sameinuðu þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum í júlí árið 2000 en um er að ræða 10 viðmið sem fyrirtæki setja sér að fara eftir. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu geta notað Global Compact til að gera viðskiptavinum sínum og birgjum grein fyrir samfélagsstefnu sinni. Mörg af öflugustu fyrirtækjum Norðurlanda hafa skrifað undir sáttmálann en mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hafa einnig tileinkað sér gildi hans.

Viðmið sáttmálans má nálgast hér að neðan en sjö aðilar hafa skrifað undir Global Compact á Íslandi og mun þeim væntanlega fjölga á árinu.

Fyrirtæki sem vilja kynna sér aðild að Global Compact eru hvött til að hafa samband við Hörð Vilberg á skrifstofu SA, í síma 591-0005 eða senda fyrirspurn í tölvupósti á hordur@sa.is

Sjá nánar:

Ákall Ban Ki-moon til fyrirtækja - myndskeið

Viðmið Global Compact

Vefur Global Compact

Vefur Global Compact aðila á Norðurlöndunum