Baltasar segir hægt að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi

Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi, segir að Ísland hafi mikla möguleika sem kvikmyndaland enda hafi það sýnt sig að stór verkefni hafi verið að koma til landsins. "Íslensk kvikmyndagerð á framtíðina fyrir sér, það er mikil gróska og mikið í gangi," segir hann en staðan er viðkvæm og það getur brugðið til beggja vona. "Menn verða að gera sér grein fyrir því að 20% skattaafslátturinn sem veittur er af framleiðslukostnaði á Íslandi, hann er algjör grunnforsenda þess að greinin haldi áfram að vaxa."

Rætt er við Baltasar í nýju tímariti SA, Fleiri störf - Betri störf, en einnig er hægt að horfa á viðtal við Baltasar í SA-TV.

Baltasar við tökur á Contraband

Baltasar segir ekki tilviljun að erlend kvikmyndafyrirtæki og kvikmyndastjörnur hafi valið Ísland sem tökustað.  "Þegar svona ákvarðanir eru teknar þá eru skattamálin eitt af grundvallaratriðunum. Ég er t.d. með nokkur stór verkefni sem ég hef haft áhuga á að koma með til Íslands. Eitt heitir Everest og á að gerast á samnefndu fjalli og er risamynd sem Universal og Working Title eru að gera. Eitt af stóru málunum er að það sé á hreinu að skattaafslátturinn verði til staðar annars koma þeir ekki hingað. Það sama á við um fleiri.

Ef við tökum afsláttinn af og teljum okkur trú um að við getum grætt meira á greininni þá fara verkefnin bara eitthvað annað. Það er víða boðið upp á afslátt sem þennan, t.d. í New Orleans er 40% afsláttur þannig að við erum í erfiðri samkeppnisaðstöðu. Staðan er viðkvæm og þetta getur farið í einni svipan. Það er nú bara þannig."

Í viðtalinu við Baltasar er m.a. rætt um velgengni Djúpsins, möguleika til að framleiða og frumsýna 10-12 íslenskar bíómyndir á ári og að skapa fleiri og betri störf í íslenskri kvikmyndagerð. Einnig segir Baltasar frá samstarfinu við Denzel Washington og Mark Wahlberg og síðast en ekki síst frá spennandi þáttaröð fyrir HBO sem gerist í Austur-Þýskalandi um amerískan trúboða sem hjálpar fólki að komast yfir Berlínarmúrinn.
 

Horfðu á viðtal SA-TV við Baltasar:

Smelltu hér til að sjá Quick-Time útgáfu

Tengt efni - viðtalið við Baltasar er á bls. 28-29.