Bætt aðgengi að opinberum upplýsingum

Alþingi hefur samþykkt ný lög um endurnotkun opinberra upplýsinga. Lögin eru byggð á tilskipun Evrópusambandsins um sama efni en ganga þó lengra að nokkru leyti. Markmið laganna er að auka möguleika fyrirtækja og einstaklinga á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og stuðla þannig að hagvexti og atvinnusköpun en miklir hagnýtingarmöguleikar geta verið fólgnir í að skapa ný verðmæti úr upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda.

Með lögunum er fyrirtækjum og einstaklingum tryggður aðgangur að upplýsingum á kostnaðargrundvelli. Mun ríkið þannig ekki taka gjald vegna höfundarréttar síns á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Almenningur mun því einungis greiða þjónustugjald fyrir aðgang að upplýsingum sem má ekki vera hærra en sem nemur kostnaðinum við að veita aðganginn. Endurnot á opinberum upplýsingum mega þó ekki brjóta í bága við lög og geta þarf uppruna upplýsinganna og hver ber ábyrgð á vinnslu þeirra. 

Sjá nánar á vef Alþingis.