Ávarp forsætisráðherra á Ársfundi atvinnulífsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Ársfund atvinnulífsins sem SA efndu til 3. apríl. Í ræðu sinni vék forsætisráðherra meðal annars að samkeppnisstöðu, Íslands afnámi fjármagnshafta, jákvæðum árangri sem þegar gefur náðst og þeirri efnahagsstefnu sem fylgja þurfi til að áfram megi byggja á honum.

,,Hið stóra efnahagslega plan felst í því að trúa á Ísland, í því að virkja þann kraft sem býr í fólkinu, landinu og miðunum, trúa á okkur sjálf og þau tækifæri sem okkur bjóðast, hafa aga til að takast á við góða sem slæma tíma og ráða sjálf yfir okkar auðlindum. Stóra planið byggist á tveimur grunnstoðum; annars vegar virkum alþjóðasamskiptum og hins vegar agaðri hagstjórn."

Forsætisráðherra sagði tímabært að segja skilið við hugarfar afturhalds, neikvæðni og niðurrifs. Hann benti á að horfa yrði til stöðunnar eins og hún væri í raun og veru nú þegar áhrifin af breyttri stefnu við stjórn landsins eru farin að koma fram. Forsætisráðherra nefndi meðal annars að:

 • Hagvöxtur tók óvæntan kipp á síðasta ársfjórðungi 2013 og nú er útlit fyrir mikinn áframhaldandi hagvöxt, jafnvel þann mesta í Evrópu.

 • Hagvöxturinn er fyrst og fremst knúinn áfram af öflugum útflutningi en ekki af einkaneyslu. Útflutningur sem hlutfall af landsframleiðslu hefur aldrei mælst hærri síðan mælingar hófust en nú.

 • Afgangur af viðskiptajöfnuði er mikill sem gefur þjóðarbúinu færi á að grynnka á skuldum sínum.

 • Fjárfesting er að aukast eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki í nokkur ár.

 • Slakinn í þjóðarbúskapnum er óðum að hverfa sem þýðir að hagkerfið er að framleiða verðmæti í samræmi við getu.

 • Vöxtur í einstökum atvinnugreinum er gríðarlega mikill, svo sem ferðaþjónustu.

 • Jákvæðar breytingar eru að eiga sér stað í hefðbundnum frumframleiðslugreinum. Þannig er bylting að eiga sér stað í fullvinnslu sjávarafurða og margar nýjungar í annarri matvælaframleiðslu.

 • Tugir fjárfestingarverkefna, stór sem smá, eru til skoðunar í iðnaði.

 • Erlendir bankar eru farnir að sækja til landsins í leit að nýjum verkefnum í stað þess að krefjast uppgreiðslu á hinum gömlu.

 • Nýsköpun og þróun í skapandi greinum ber frumkvöðlahugsun Íslendinga gott vitni.

 • Atvinnuleysi fer minnkandi og 4.000 ný störf hafa orðið til, nettó, frá því að ný ríkisstjórn tók við.

 • Kjarasamningar sem gerðir hafa verið gefa fyrirheit um aukinn stöðugleika á næstu árum og aukinn kaupmátt.

 • Skuldaleiðréttingar munu lækka húsnæðisskuldir landsmanna og auka ráðstöfunarfé heimilanna.

 • Verðbólga er undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og ekkert í farvatninu sem bendir til að verðbólga muni aukast á næstunni.

 • Gert er ráð fyrir afgangi á fjárlögum í fyrsta skipti í mörg ár.

 • Bjartsýni bæði almennings og stjórnenda fyrirtækja er að aukast, og skyldi engan undra.

Forsætisráðherra benti á að þrátt fyrir jákvæðan árangur blasi við mörg verkefni á sviði hagstjórnar. Gæta þurfi þess að hagkerfið ofhitni ekki við þessar aðstæður. ,,Losun fjármagnshafta er þó engu að síður stærsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. ... Í gær kynnti sérfræðihópur sem unnið hefur að því að meta stöðuna og möguleikana á afléttingu hafta niðurstöður sínar fyrir forsætis og fjármálaráðherra. Hópurinn skilaði afar góðu verki og ég er bjartsýnn á að við munum sjá hreyfingu á þessum málum áður en langt um líður."

Ávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar má lesa í heild á vef forsætisráðuneytisins.

Hægt er að horfa á ávarpið hér að neðan: