Ávarp formanns SA á kynningarfundi um skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands og ESB

"Í september síðastliðnum ákváðu Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands að standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum. Samtökin telja öll æskilegt að aðildarviðræðum við ESB verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í  þjóðaratkvæðagreiðslu." Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, í upphafi ávarps á kynningarfundi á skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Fundurinn stendur nú yfir en ávarp formanns SA má lesa hér á vefnum.

Björgólfur Jóhannsson, formaður SA.

"Upphaflega var óskað eftir samstarfi við ríkisstjórnina um gerð úttektarinnar. Stjórnvöld ákváðu hins vegar að fara eigin leiðir í því efni. Samtökin töldu þrátt fyrir það rétt að fá fram hlutlæga og greinargóða úttekt og að það sé lykilforsenda þess að hægt sé að meta hvaða valkostir séu best til fallnir að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma og um leið skapa best lífskjör heimilanna í landinu.

Ákveðið var að semja við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um að gera þessa úttekt og svara þeim spurningum sem samtökin telja mikilvægastar. Alþjóðamálastofnun fékk síðan sérfræðinga til að fjalla hvert málefni fyrir sig og leitaði víða fanga til að fá sem gleggstar upplýsingar um einstök atriði úttektarinnar.

Samtökin lögðu áherslu á að varpa ljósi á þróun ESB frá því aðildarviðræður hófust árið 2009 og að beint yrði sérstakri athygli að gjaldmiðilssamstarfinu og þróun þess í ljósi efnahagsörðugleika undanfarinna ára. Fjallað yrði um samstarf aðildarríkjanna varðandi ríkisfjármál og aðhald að starfsemi fjármálafyrirtækja, m.a. áhrifa þess á fjármögnun íslenskra fjármálafyrirtækja á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Liður í úttektinni verði einnig að kanna kosti og galla þeirra leiða sem koma til greina til að tryggja hér á landi til langframa stöðugleika í gengis- og peningamálum, verðlagi, og festu í stjórn efnahagsmála og um leið hvernig unnt sé að skapa umgjörð fyrir öflugt atvinnulíf og búa heimilunum lífskjör í fremstu röð. Einnig yrði lagt mat á stöðu EES - samningsins og möguleikum og takmörkunum sem í honum felast.

Leggja átti mat á stöðu viðræðna um einstaka samningskafla og draga fram hvar eru helstu tækifæri, fyrirvarar og álitaefni. Einnig yrði svarað hvort haldið verði áfram þar sem frá var horfið eða hvort taka þurfi upp að nýju mál sem þegar hefur verið lokið eða samningsafstaða Íslands lögð fram.

Óskað var eftir því að ítarlega yrði fjallað um samningskafla um efnahags- og peningamál og frjálsa fjármagnsflutninga, sjávarútvegsmál ásamt staðfestu- og þjónustufrelsi og um landbúnað og dreifbýlisþróun ásamt matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði.

Samtökin telja nauðsynlegt að varpað sé ljósi á alla helstu valkosti sem í boði eru áður en teknar eru ákvarðanir sem varða efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar til lengri tíma.  Þar er aðild að Evrópusambandinu og myntsamstarfinu einn mikilvægra kosta sem leggja þarf mat á. Þess vegna verður að liggja fyrir, eins nákvæmlega og unnt er, hvað í aðild felist og hverjar niðurstöður gætu orðið um helstu hagsmunamál Íslands.

Það getur einungis verið af hinu góða að varpa ljósi á alla möguleika sem bjóðast og draga fram hvað felst í mismunandi leiðum t.d. um hvernig best sé að haga gjaldmiðilsmálum til lengri tíma og hvort unnt sé að tryggja stjórn Íslendinga á eigin auðlindum við aðild að ESB. Þegar allir möguleikar liggja fyrir, og unnt er að leggja mat á þá samhliða, má draga fram hvar í hverju raunverulegur ágreiningur liggur.

Besta leiðin hlýtur að vera sú sem best tryggir samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs, tryggir mesta verðmætasköpun, eykur alþjóðaviðskipti, tryggir hagvöxt og bestan hag fólks og fyrirtækja til lengri tíma.

Að lokum er rétt að taka fram að samtökin sem stóðu að úttektinni hafa engin afskipti haft af efnistökum skýrslunnar önnur en þau að óska eftir svörum við tilteknum spurningum. Ábyrgð á efni skýrslunnar er öll Alþjóðamálastofnunar og höfunda einstakra kafla.

Fyrir hönd Alþýðusambands Íslands, Félags atvinnurekenda, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands þakka ég Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og þeim fjölmörgu einstaklingum sem lagt hafa hönd á plóg við gerð skýrslunnar sem nú liggur fyrir."

Tengt efni:

Aðildarviðræður Íslands við ESB. Úttekt Alþjóðamálastfonunar HÍ. Unnin fyrir Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins,Viðskiptaráð Íslands og Félag atvinnurekenda.

Smelltu til að sækja skýrsluna.