Ávarp Björgólfs Jóhannssonar á Ársfundi atvinnulífsins

Fíllinn í herberginu er oft og iðulega notað um stórt og mikið vandamál sem allir vita af en enginn vill ræða eða horfast í augu við. Að mati Samtaka atvinnulífsins er fíllinn í herberginu þögnin um peningastefnu Íslands. Peningastefnan er lykilþáttur góðrar efnahagsstjórnar sem felur í sér almannagæði og getur borið ríkulegan ávöxt fyrir heimili og fyrirtæki. Vextir verða lægri en ella, rekstrarumhverfi stöðugra og lífskjör batna hraðar. Ísland vermir nú botnsætin þegar litið er til samkeppnishæfni ríkja við stjórn efnahagsmála. Þá er sama hvort minnst er á vexti, peningastefnu, krónuna eða erlenda fjárfestingu.

 

Skattaskjól og erlendar fjárfestingar
Við komum saman til ársfundar Samtaka atvinnulífsins á umrótstímum í íslensku samfélagi. Áður en ég vík að umræðuefni fundarins, langar mig til að fjalla almennt um málefni sem hafa verið mjög til umfjöllunar undanfarna daga; skattaskjól og aflandseyjar. Vart hafa önnur umræðuefni borið hærra að undanförnu í fjölmiðlum og meðal almennings en umræðan hefur einnig haft áhrif á stöðu stjórnmála og stjórnmálamanna á Íslandi og jafnvel víðar.

Í grófum dráttum má segja að á slíkum stöðum sé boðið upp á tvenns konar sérstöðu þegar kemur að því að veita fjármálaþjónustu: Annars vegar mikla leynd og hins vegar skattleysi eða mjög lága skatta. Tilgangur þess að koma eignum fyrir í aflandsfélagi er því í flestum tilvikum annað hvort að dylja eignarhaldið og koma í veg fyrir að utanaðkomandi geti komist að því hverjir eigi félagið. Aflandsfélagið sýslar þá með eignir en eigendurnir koma ekki fram fyrir þess hönd. Hins vegar getur tilgangurinn verið sá að komast hjá því að greiða skatta og skyldur samkvæmt lögum og reglum heimalandsins. Og í sumum tilvikum nýta aðilar sér bæði leynd og skattleysið.

Það hefur komið fram að íslensku bankarnir höfðu frumkvæði að stofnun mikils fjölda aflandsfélaga fyrir viðskiptavini sína á árunum fyrir bankahrunið 2008. Væntanlega hefur þessum félögum fækkað verulega síðustu ár og vonandi hafa margir flutt eignir sínar annað þar sem eðlilegar viðskiptareglur gilda um rekstur og skattskyldu félaga.

Það er eðlilegt að Íslendingar fjárfesti erlendis þótt það sé miklum takmörkunum háð frá því sett voru höft á fjármagnsflutninga. Fjölmörg fyrirtæki hafa byggt upp mikil umsvif erlendis þar sem þau nýta styrkleika sína og geta náð fótfestu vegna þeirra. Einstaklingar gátu einnig fjárfest erlendis hvort sem var í verðbréfum eða tilteknum rekstri þar sem þeir hafa komið auga á möguleika til að auka verðmæti fjárfestingarinnar. Á sama hátt fjárfesta erlendir aðilar hér á landi enda er frjálst flæði fjármagns lykilþáttur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar verður að gera skýran greinarmun á eðlilegu flæði fjármagns þar sem allt er uppi á borðum gagnvart yfirvöldum og því sem tengist skattaskjólum. Það verður að hafa í huga að það er ekki óeðlilegt að einstaklingar og fyrirtæki nýti sér reglur í skattalögum um að fresta skattgreiðslum svo fremi að það sé innan ramma laganna. En það er óásættanlegt að menn láti sér ekki nægja eðlilegan arð af fjárfestingunni heldur séu að reyna að koma sér undan því að greiða skatta og skyldur eins og þeim ber.

Óásættanlegt að brjóta lög og reglur
Samtök atvinnulífsins hafa fylgst með starfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París til að draga úr möguleikum þess að reka félög í skattaskjólum. Smám saman hefur verið að myndast alþjóðleg samstaða um að hvergi verði staðir til að fela sig í þessu skyni. Það er vel.

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja og stjórnenda þeirra stunda rekstur sinn af kostgæfni, hófsemd, þrautseigju og heiðarleika eins og almennt tíðkast í daglegu lífi fólks. Ítrekað hefur komið fram í könnunum að flestir eru jákvæðir í garð íslenskra fyrirtækja og að næstum allir eru jákvæðir í garð síns vinnuveitanda.

Við viljum að á Íslandi sé rekið arðbært og ábyrgt atvinnulíf sem bætir lífskjör allra. Í kjölfar hrunsins beittu Samtök atvinnulífsins sér fyrir endurskoðun reglna um stjórnarhætti fyrirtækja. Samtökin hafa endurskoðað verklag sitt við tilnefningu fólks í stjórnir sjóða og stofnana og sett viðmið um hvernig þessar stjórnir skulu starfa. Samtökin hafa tekið einarða afstöðu gegn svartri atvinnustarfsemi og lagt sitt af mörkum til að berjast gegn henni. Það er óásættanlegt ef fyrirtæki og stjórnendur ganga á svig við lög og reglur og greiða ekki til samfélagsins til jafns við aðra. Það má aldrei líðast.

Óstöðugt gengi krónunnar er mein
Rithöfundurinn Mark Twain sagðist halda mjög upp á þá kenningu „að enginn atburður sé einn og einstakur heldur einfaldlega endurtekning einhvers sem hafi gerst áður, jafnvel oft“. Með öðrum orðum að sagan endurtaki sig.

Gengi íslensku krónunnar hefur reglulega breyst mikið á skömmum tíma. Alla síðustu öld var ákvörðun um gengisskráningu í höndum ríkisstjórna. Þær héldu jafnan genginu föstu allt of lengi uns þær sáu sig knúnar til þess að fella það vegna þess að útflutningsfyrirtækin stefndu í þrot. Stundum var ákveðið að láta gengið síga til að komast hjá því að tilkynna gengisfellingu. Snemma á níunda áratug síðustu aldar varð viðskiptaráðherrann frægur fyrir að hafna gengisfellingu því gengið „yrði látið síga í einu stökki“.

Gengisfellingarnar bættu hag útflutningsatvinnuveganna um stundarsakir því launakostnaður minnkaði. En tilheyrandi verðbólga og kjararýrnun stuðlaði að kröfum um kjarabætur sem leiddu til kjarasamninga um launahækkanir sem fyrirtækin gátu ekki staðið undir. Þar með var komið tilefni til næstu gengisfellingar. Ytri aðstæður, einkum aflabrögð og viðskiptakjör, höfðu áhrif. Þegar vel áraði leið lengri tími milli kollsteypa en við ytri áföll varð tíminn styttri. Árferðið hafði einnig áhrif á stjórnmálamenn sem juku opinber útgjöld þegar skatttekjur jukust í góðæri en drógu saman seglin þegar illa áraði.

Gengisbreytingarnar endurspeglast vel í verðbólgutölum síðustu áratuga. En hvort kom á undan eggið eða hænan? Á vísindavefnum er spurningunni svarað þannig að í almennum þróunarfræðilegum skilningi hafi eggið komið á undan. En hvort gengisfelling teljist hæna eða egg skal ósagt látið.

Verðbólga hefur verið viðvarandi
Fyrir 1980 hafði verðbólgan þau áhrif að allar innstæður í bönkum og skuldir heimila og fyrirtækja rýrnuðu. Þeir sem skulduðu voru lánsamir. Arðsemi fjárfestinga réðst ekki fyrst og fremst af fjárfestingunni sjálfri heldur hversu mikið verðbólgan rýrði lánin. Með svokölluðum Ólafslögum sem sett voru 1979, var veitt heimild til að binda fjárskuldbindingar við vísitölu, og smám saman urðu langflest lán bundin lánskjaravísitölu. Og með húsbréfakerfinu sem tekið var upp 1989 urðu verðtryggð húsnæðislán til 40 ára almenn.

Í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna 1990 hjaðnaði verðbólgan og varð minni en hún hafði verið frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Jafnvægi ríkti í þjóðarbúskapnum. Hóflegar launabreytingar og lítið launaskrið gerðu kleift að taka upp stefnu fastgengis á tímabilinu 1993 til 2001. Undir lok tíunda áratugarins var tölvuverð þensla í efnahagslífinu vegna byggingar orku- og iðjuvera sem stuðlaði að miklu launaskriði og kaupmáttaraukningu. Afleiðingin birtist í viðskiptahalla af áður óþekktri stærð sem hrakti stjórnvöld frá fastgengisstefnunni. Gengið var sett á flot sem leiddi til 20% lækkunar þess. Að þessu loknu hófst samfelld hækkun gengis krónunnar fram til ársins 2007 sem knúið var af vaxtamunarviðskiptum erlendra aðila sem hagnýttu sér mun hærri vexti á Íslandi en í öðrum ríkjum með sambærilegt lánstraust.

Á árunum 1992 til 2007 var verðbólga 5% eða minni að frátöldum tveimur árum þegar hún var 7%. Nánast allan tímann hækkuðu laun umfram verðbólgu og friður ríkti á almennum vinnumarkaði. Undir lok tímabilsins var enn komin mikil þensla í þjóðfélaginu, gríðarlegar framkvæmdir við virkjanir, iðjuver, íbúðir og verslunarhúsnæði. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fengu sendingu af himnum og seldu lóðir fyrir ómælt fé. Fyrir framkvæmdunum stóðu einkafyrirtæki, ríkið, sveitarfélög og almenningur. Allir lögðust á eitt. Launaskrið varð margfalt meira en umsamdar hækkanir í kjarasamningum og allt þanið til hins ítrasta.

Þegar leið að lokum ársins 2007 fór gengi krónunnar að gefa eftir og þegar upp var staðið í árslok 2008 hafði það lækkað um 50%. Bólan var sprungin.

Tjón almennings kemur fram í þrennu
Fyrir almenning í landinu komu afleiðingarnar fram í þrennu. Í fyrsta lagi minnkaði atvinna mikið og atvinnuleysi varð meira en um áratugi. Í öðru lagi dróst kaupmáttur snarlega saman í kjölfar gengishrunsins og verðbólgunnar í kjölfarið og í þriðja lagi jókst greiðslubyrði allra verðtryggðra lána um tugi prósenta. Breytingin frá tímum gengisfellinga síðustu aldar var sú að nánast öll heimili greiddu afborganir og vexti af verðtryggðum lánum. Þess vegna urðu áhrifin á þau mun verri en áður.

Spænsk – bandaríski heimspekingurinn George Santayana sagði að þeir sem ekki geta lært af sögunni eru dæmdir til að endurtaka mistök sín.

Engir munu vilja bera ábyrgð á enn einni stórri gengisfellingu á næstu árum. Á því er þó töluverð hætta því íslenskt samfélag skilur enn ekki ástæður gengishrunsins árið 2008. Þeim skýringum er haldið á lofti að gengið hafi fallið vegna aðgerða eða aðgerðaleysis banka, stjórnvalda eða eftirlitsaðila. Það er háskalegt að flestum Íslendingum sé hulin hin augljósa ástæða gengisfallsins. Gengið var orðið allt of sterkt meðal annars vegna þess að árlegar launahækkanir höfðu um langa hríð verið tvöfalt til þrefalt meiri en í viðskiptalöndunum. Útflutningsgreinarnar voru ekki samkeppnishæfar.  Viðskiptahallinn var orðinn óviðráðanlegur. Það var einungis tímaspursmál hvenær gengið félli. Fall gengisins var óháð falli bankanna, þótt óábyrgt og glæfralegt framferði þeirra hafi haft áhrif á tímasetningu og umfang þess.

Það er hægt að koma í veg fyrir kollsteypur 
Þrír meginþættir verða að stefna í sömu átt til að koma í veg fyrir efnahagslegar kollsteypur í framtíðinni. Í fyrsta lagi verður að halda böndum á rekstri ríkis og sveitarfélaga og gæta þess að útgjöld og fjárfestingar séu í samræmi við stöðu efnahagsmála. Í öðru lagi verður að gera endurbætur á peningastefnunni þannig að vaxtamunarviðskipti og innstreymi erlends gjaldeyris knýi ekki fram hækkun gengis krónunnar og geri atvinnugreinar í alþjóðlegri samkeppni ósjálfbærar. Í þriðja lagi verða aðilar vinnumarkaðarins að semja um launahækkanir í samræmi við getu alþjóðageirans.

 

Góðæri og betri hagur
Nú er enn eitt góðærið brostið á í landinu. Þar leggst margt á eitt og góðum hagvexti er spáð á þessu ári og þeim næstu. Sjávarafurðir seljast við góðu verði og olían er ódýrari en í 15 ár. Hingað streymir svo mikill fjöldi ferðamanna að furðu sætir og stefnir í að þeir verði tvær milljónir á næsta ári. Það kallar á miklar fjárfestingar í gistirými og aðstöðu um allt land. Mikil áform eru um íbúðabyggingar á næstu árum. Þá hafa vaxtamunarviðskipti verið að aukast að nýju þar sem erlendir fjárfestar nýta sér háa vexti hér. Gengi krónunnar hefur verið að styrkjast og raungengið er orðið svipað og eftir leiðréttinguna árið 2006. Kjarasamningar hafa tryggt launafólki miklar kjarabætur. Þannig hefur hagur almennings batnað jafnt og þétt að undanförnu. Hagkerfið er mun heilbrigðara en áður. Fyrirtækin skulda  minna og það á líka við um heimilin. Almennt búast fyrirtækin við aukinni eftirspurn, auknum hagnaði og telja aðstæður góðar. Búist er við fjölgun starfa og mest í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Allt þetta gerir auðveldara en ella að takast á við áskoranirnar sem bíða.

Margs er að gæta
Samt er margs að gæta. Eins og jafnan er framtíðin óljós. Enginn veit hversu lengi olíuverðið helst lágt. Hætta er á launaskriði þegar eftirspurn er jafnmikil eftir starfsfólki og nú er raunin en það gerir fyrirtækin viðkvæmari en ella ef ytri aðstæður breytast til hins verra.

Fyrirtækin verða að haga rekstri sínum þannig að ekki fjúki allt um koll þótt á móti blási. Þau geta ekki treyst á að gengisfellingar komi þeim til bjargar ef til dæmis olíuverð hækkar um tugi prósenta og eftirspurn minnki eða kostnaður hækki.

Til þess að koma í veg fyrir kollsteypur verður að hafa bönd á vaxtamunarviðskiptum þannig að þau leiði ekki til þess að gengi krónunnar hækki enn. Í sama skyni er nauðsynlegt að lífeyrissjóðir og aðrir ráðist í fjárfestingar erlendis. Þannig má auka eftirspurn eftir gjaldeyri og draga úr hættu á frekari gengishækkun. Losun hafta á fjárfestingar erlendis styður við útflutningsgreinarnar og hagstæðan vöruskiptajöfnuð.

Nauðsynlegt er að ríki og sveitarfélög hagi fjárfestingum sínum þannig að þær virki ekki eins og olía á eld efnahagslífsins. Mörg verðug verkefni bíða; nýtt hátæknisjúkrahús, uppbygging og viðhald vega og gatna, hjúkrunarheimili, skólar og menningarstofnanir. Brýn þörf er á styrkingu flutningskerfis raforku og virkjunum til að mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku. Ekki má gleyma framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og í öðrum innviðum ferðaþjónustunnar. Rétt er samt að horfa á framkvæmdir ríkisins í heild og að þær bíði að verulegu leyti á meðan mestu framkvæmdirnar eiga sér stað í atvinnulífinu í stað þess að auka enn á þenslu.

Samtök atvinnulífsins lögðu á það áherslu í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 að ríkið leitaðist við að auka fjárfestingar sínar með útboðum verkefna, einkaframkvæmdum og ýmsum aðgerðum. Þess í stað voru allar fjárfestingar skornar við nögl og viðhaldi slegið á frest og kreppan varð dýpri en ella. Nú er hættan sú að ríkið magni enn sveiflur með því að ráðast í miklar framkvæmdir sem auka þenslu, samkeppni um starfsfólk og almennt launaskrið. Afleiðingarnar eru þekktar og var lýst hér á undan.

Ný aðferð við kjarasamninga
Kjarasamningarnir, sem undirritaðir voru í janúar tryggja frið á vinnumarkaði til ársins 2019. Þeir byggja á svokölluðu SALEK – samkomulagi og eiga að tryggja öllu launafólki sambærilegar launahækkanir á samningstímanum og koma í veg fyrir svokallað höfrungahlaup þar sem allir hópar keppast við að tryggja sér meiri launahækkanir en aðrir hafa áður fengið. Áformað er að breyta vinnubrögðum við gerð kjarasamninga og að launahækkanir ráðist af getu atvinnugreina í alþjóðlegri samkeppni til að taka á sig aukinn kostnað. Það svigrúm ræðst af aukinni framleiðni en einnig af samkeppnisstöðu atvinnulífsins gagnvart alþjóðamarkaði, það er gengi krónunnar, vöxtum og almennri innlendri efnahagsþróun.

Til að lífskjör heimila batni til lengri tíma verður að ríkja efnahagslegur stöðugleiki og rekstrarumhverfi fyrirtækjanna verður að vera fyrirsjáanlegt. Þetta næst ekki nema allir helstu kraftar efnahagsmálanna stefni í sömu átt. Vonir standa til að innan tíðar verði stigin jákvæð skref með stofnun svokallaðs þjóðhagsráð þar sem ríkisstjórn, Seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðarins koma saman með því markmiði að samhæfa opinber fjármál, peningastefnu og kjaramál.

Ábyrgðin er mikil
Engir ábyrgir aðilar munu vilja né geta axlað þá ábyrgð að leiða enn eina efnahags- og gengiskollsteypuna yfir þjóðina. Það á við um stjórnmálamenn, þá sem stýra peningamálum, leiðtoga verkalýðsfélaga og forystumenn atvinnulífsins. Það á reynslan frá hruninu 2008 að hafa kennt. Engar stundarvinsældir eða ávinningur til skamms tíma getur verið þess virði.

Við efnahagslegan stöðugleika og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi geta fyrirtækin einbeitt sér að því að skapa aukin verðmæti með fjárfestingum, rannsóknum, nýsköpun og markaðssókn. Það leggur einnig grunn að batnandi hag fólksins í landinu.

Það hvílir mikil ábyrgð á stjórnmálamönnum landsins ekki síst á tímum pólitískrar óvissu að tryggja farsæld við stjórn landsins, stöðugleika í efnahagsmálum og að leita frekar samstöðu en ágreinings um helstu mál. Það er þá sem reynir á að stjórnmálamenn sýni ábyrgð og láti ekki eigin hag eða flokkshagsmuni ganga framar þjóðarhag.

Í ritsafni Davíðs Stefánssonar, frá Fagraskógi Mælt mál er að finna grein sem nefnist Hismið og kjarninn þar sem skáldið kemst svo að orði:

„Undirrót heilbrigðs fjárhags er að vekja hjá fólkinu viljann til sjálfsbjargar, viljann til hollra framkvæmda, vilja til að neyta og njóta sinna eigin krafta, andlegra og líkamlegra.“ Skáldið lagði áherslu á að menn ræktu sinn innri mann og sagði: „Þar má rækta samúð, skilning og kærleika, sem auka víðsýni og vit, stækka manninn sjálfan og veröld hans. Því fleiri sem þetta gera, því traustari verður sá grundvöllur, sem þjóðfélagið er reist á, lög þess gerð af meiri spekt og um leið betur búið að æskunni sem landið erfir.“

Undir þetta skal tekið.