Aukum kaupmáttinn og kjósum lægra matarverð

SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu benda um þessar mundir á leiðir til að lækka matarverð á Íslandi og auka kaupmátt landsmanna. SVÞ leggja til að gamaldags tollar verði aflagðir og með einföldum breytingum sé hægt að minnka matarútgjöld hvers íslensks heimilis um tugi þúsunda. Þá vilja samtökin afnema flókin og ósanngjörn vörugjöld og gera samhliða breytingar á virðisaukaskatti. Með því sé hægt að lækka vöruverð án tekjutaps hins opinbera. Einnig leggja SVÞ áherslu á að afnema innflutningshöft, m.a. á kjúklingi og svínakjöti. Með auknu frelsi í innflutningi batni hagur íslenskra heimila og verðbólga lækki.

SVÞ skora á stjórnmálaflokkana að setja aukinn kaupmátt heimilanna á dagskrá og hvetja jafnframt verðandi þingmenn til að afnema gamaldags tolla, flókin vörugjöld og úrelt innflutningshöft eftir kosningar til Alþingis í vor.

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, ræddi þessi mál m.a. á aðalfundi SVÞ sem fór nýlega fram. Hún sagði það lykilforsendu að fjölga þeim krónum sem fólk á eftir í launaumslaginu þegar greitt hafi verið fyrir lífsnauðsynjar. Til að ná fram auknum kaupmætti og ná tökum á verðbólgunni verði m.a. að horfa til vöruverðs í landinu. 

"Í byrjun árs fengum við nokkra félagsmenn - bæði innflytjendur og smásöluaðila til að setjast yfir hvaða verðlækkanir gætu verið í  boði fyrir íslensk heimili ef dregið yrði úr innflutningshöftum og viðskiptafrelsi aukið. 

Dæmin um verðlækkun eru sláandi eins og þið sjáið og tækifærin til kaupmáttaraukningar 130.000 heimila stórkostlegur:

  • Alifuglakjöt 35-40%

  • Brauðostar, smjör og jógúrt 30-40%

  • Ís - rjómaís - frostpinnar 30-35%

  • Nautakjöt 25-30%

  • Unnar kjötvörur 30-40%

  • Franskar kartöflur 35%

  • Kartöflusnakk 25-30%

  • Pizzur og skyndiréttir 15%


Ef við náum að lækka meðaltalsmatarreikning hvers heimilis um 10% kæmu um 16 milljarðar í vasa landsmanna, sem þeir gætu nýtt til að borga niður skuldir eða til kaupa á annarri vöru og þjónustu. Þetta er ástæða þess að við stöndum í þessari baráttu - þetta er lífsnauðsynlegt fyrir heimilin í landinu."

Í ræðu sinni gagnrýndi Margrét harðlega vinnuaðferðir við kjarasamninga. "Íslendingar verða að komast út úr því að einblína á prósentuhækkanir en horfa í staðinn á kaupmáttinn," sagði  Margrét og telur að næstu kjarasamningar þurfi að vera grundvallaðir á innistæðu í stað óskhyggju.

"Á meðan gerðir eru samningar sem ekki er innstæða fyrir, lagðar eru á auknar skattheimtur á borgara og gjaldmiðillinn heldur verðgildi sínu verr en Matadorpeningur þá verða afleiðingarnar alltaf verðhækkanir, sem aftur grafa undan öllum kjarasamningum sem gerðir eru."

Ræða formanns SVÞ - Margrét Kristmannsdóttir

Ítarlega er fjallað um aðalfund SVÞ á vef samtakanna