Auknar kröfur til fyrirtækja innan EES

Fjallað var um nýja efnalöggjöf ESB á fundi Samtaka atvinnulífins, s.k. REACH löggjöf, en Bryndís Skúladóttir, efnaverkfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, flutti þar yfirgripsmikið erindi um löggjöfina og hverju hún breytir fyrir íslensk fyrirtæki. REACH löggjöfin tekur gildi 1. júní 2007 og mun gilda í allri Evrópu og á Evrópska efnahagssvæðinu en hún leysir af hólmi 40 ólíka lagabálka. Löggjöfin felur m.a. í sér almenna skyldu fyrir framleiðendur og innflytjendur að skrá öll efni, hrein eða í efnablöndum, sem eru framleidd eða flutt inn í meira magni en einu tonni á ári af viðkomandi aðila. Reglugerðin verður samhljóða í öllum löndunum EES og engar breytingar verða gerðar í innleiðingarferli hennar í einstaka löndum. Upplýsingum skal skilað til Efnastofnunar Evrópu sem metur gögnin og óskar eftir frekari upplýsingum ef þarf. Markaðssetning óskráðra efna verður óheimil.

Atvinnulíf og umhverfi 5. fundur

Undirbúningur mikilvægur

Á fundinum kom fram að mikilvægt væri fyrir íslensk fyrirtæki að kynna sér hvað REACH löggjöfin hafi í för með sér en allir framleiðendur og innflytjendur verða að taka þátt í svokallaðri forskráningu á efnum sem hefst í júní 2008 og á að vera lokið fyrir nóvemberlok 2008. Það er forsenda fyrir því að fá að nota efnin áfram en endanleg skráning efna fer fram á árunum 2010-2018. Strangari kröfur eru gerðar til þeirra sem flytja inn efni eða framleiða vörur í miklu magni en leyfisveiting fyrir sérlega hættuleg efni verður óháð magni. REACH löggjöfin gerir ennfremur kröfur til dreifingaraðila og aðila neðar í framleiðslukeðju og því full ástæða fyrir fyrirtæki að vera með stöðu sína á hreinu áður en löggjöfin tekur gildi. Beinn kostnaður getur hlotist af skráningum, rannsóknum og umsýslu í fyrirtækjum en fyrirtæki gætu einnig þurft að bera óbeinan kostnað vegna efna sem hverfa af markaði og nýrra krafna um aukinn viðbúnað á vinnustöðum.

Kynningarefni frá fundi

Hér að neðan má nálgast glærur Bryndísar þar sem farið er ítarlega yfir þær breytingar sem REACH efnalöggjöfin hefur í för með sér ásamt kynningarefni sem lagt var fram á fundinum og nýtist fyrirtækjum við að undirbúa sig fyrir breytingarnar. Fundurinn var hluti af fundaröð SA, Atvinnulíf og umhverfi, og var sá fimmti í röðinni.

Bryndís Skúladóttir

Glærur Bryndísar (PPT-skjal)

Spurningar og svör um REACH (PDF-skjal)

Gátlistar fyrirtækja vegna undirbúnings fyrir REACH (PDF-skjal)

Sjá einnig umfjöllun á vef SI um REACH