Aukinn kaupmáttur næst með aukinni vinnu

Besta kaupmáttaraukningin sem hægt er að ná er að fólk sem er án atvinnu fái vinnu. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir ekkert slá út slíkri kaupmáttaraukningu en um 14.000 manns eru nú á atvinnuleysisskrá og hefur Vinnumálstofnun spáð því að atvinnuleysi fari vaxandi í mánuðinum. AGS hefur sagt að það sé eitt helsta verkefni Íslendinga að ná atvinnuleysinu niður. Samtök atvinnulífsins telja atvinnuleysið mikið áhyggjuefni og tímabært sé að bregðast við með nýrri atvinnusókn.

SA hafa boðað til opins fundar í Reykjanesbæ mánudaginn 24. janúar í Stapa kl. 17-19 um stöðuna á vinnumarkaðnum. Fundurinn er öllum opinn en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér á vef SA.

Smellið hér til að skrá þátttöku á fund SA í Reykjanesbæ

Rætt var við Vilhjálm Egilsson í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni á föstudaginn um stöðu atvinnumála og yfirstandandi kjarasamninga.

Í þættinum kom m.a. fram að kaupmáttur fólks jókst um 2% á síðasta ári samkvæmt Hagstofunni. Vihjálmur segir að það hafi komið á óvart en verðbólga hafi verið á niðurleið. Verkefnið framundan sé að auka kaupmátt enn frekar með því að halda verðbólgu lágri og hækka laun hóflega. Líklegast sé að ná auknum kaupmætti með því að gera kjarasamninga til þriggja ára sem byggi á samræmdri launastefnu.

Vilhjálmur segir þó ekki nóg  að halda verðbólgu lágri og hækka laun til að auka kaupmáttinn. Auka verði atvinnu í landinu og umsvifin í efnahagslífinu þannig að þeir sem vilji geti unnið meira og þeir sem hafi þurft að minnka við sig vinnu vegna niðurskurðar geti fengið fulla vinnu á ný.

Um kröfur einstakra verkalýðsfélaga um að hækka laun um tugi prósenta segir Vilhjálmur það ævintýramennsku og afleiðingarnar af því séu þekktar. SA vilji heldur fara þá leið að halda verðlagi í skefjum, hækka laun hóflega og koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Vilhjálm í heild sinni á vef Vísis:

Smellið hér til að hlusta