Aukin verðmætaframleiðsla lausnin á efnahagsvanda Íslands

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi og formaður Samáls flutti erindi á fundi SA um skattamál atvinnulífsins þann 9. nóvember. Þar sagði hann m.a. að gott samstarf við stjórnvöld væri forsenda fyrir stöðugu rekstrarumhverfi sem fyrirtæki þurfi á að halda. Fjárfestingar í áliðnaði séu hugsaðar til áratuga og viðkvæmar fyrir breytingum. Því séu gerðir fjárfestingarsamningar til að lágmarka sveiflur í starfsskilyrðum. Skattkerfið skipti miklu í þeim efnum, en með breytingum á því sé grundvelli fjárfestinganna breytt. AGS hafi m.a. varað við breytingum á skattumhverfi orkufreks iðnaðar árið 2011. Magnús segir það vonbrigði að ekki sé hægt að treysta á skriflega samninga við stjórnvöld, m.a. um tímabundinn raforkuskatt sem renna átti út um áramótin en verður þess í stað framlengdur einhliða um 5 ár.

Magnús segir bestu leiðina út úr miklum efnahagsvanda Íslendinga sé að framleiða aukin verðmæti. Áætlað sé að rekstur álvers í Helguvík myndi t.d. skila einum milljarði króna á mánuði í bætttri afkomu ríkissjóðs en verkið fái lítinn framgang. Þá vinni skattahækkanir gegn því að hægt sé að nýta fjárfestingartækifæri á Íslandi, stækka kökuna og skapa auknar tekjur.

Magnús Þór Ásmundsson

"Við höfum tækifæri fyrir fjárfestingar á Íslandi, við eigum umhverfisvæna endurnýjanlega orkugjafa, en við erum ekki að nýta tækifærin og skattahækkanir vinna gegn þeim.  Við þurfum að velja á milli markvissrar uppbyggingar eða aukinnar skattheimtu.  Við megum ekki skattleggja okkur út úr samkeppnishæfu umhverfi."

Erindi Magnúsar er í heild  hér að neðan ásamt glærukynningu:

Stórar fjárfestingar - Fjárfestingarsamningar

Orkufrekur iðnaður á borð við áliðnaðinn krefst mikilla fjárfestinga.  Fjárfesting Alcoa í Fjarðaáli var 230 milljarðar ISK.  Fjárfestingarverkefni RTA í aukinni framleiðslugetu og nýjum framleiðsluferlum, sem nú er í gangi, er áætlað nærri 60 milljörðum króna.  Norðurál hefur jafnframt kynnt hugmyndir um stækkun hjá sér, fjárfesting upp á 10 milljarða króna.  Fjárfestingar í áliðnaðinum eru til langs tíma, áætlanir eru gerðar til áratuga, og þær eru verulega viðkvæmar fyrir breytingum.  Gerðir eru fjárfestingarsamningar til að ramma inn samstarfið milli ríkisins og fjárfestanna og er þeim m.a. ætlað að lágmarka sveiflur í starfsskilyrðum.

Gott samstarf við stjórnvöld, bæði um það sem er utan og innan fjárfestingarsamnings, er forsenda fyrir því stöðuga rekstrarumhverfi sem fyrirtækin þurfa nauðsynlega á að halda.  Það er erfið staða ef fyrirtækin þurfa stöðugt að verja sína samninga við stjórnvöld og þann skilning sem þau hafa á starfsumhverfi sínu.

Skattaumhverfið

Skattaumhverfið skiptir afar miklu máli varðandi arðsemi fjárfestingarinnar og er hluti af grundvelli fyrir henni.  Með breytingum á skattaumhverfi er grundvellinum breytt.

Í maí 2011 varaði AGS sérstaklega við breytingum í skattaumhverfi orkufreks iðnaðar á Íslandi;  "Avoid sudden measures to increase fiscal levies on energy-intensive industries; focus instead on securing fair market value for electricity sales".

Tímabundinn raforkuskattur

Skv. samkomulagi sem fyrirtæki í orkufrekum iðnaði gerðu árið 2009 við iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra var lagður raforkuskattur á fyrirtækin, tímabundið fyrir árin 2010 til 2012.  Jafnframt var samið um fyrirframgreiddan tekjuskatt fyrirtækjanna fyrir sama tímabil.  Fyrirtækin voru reiðubúin til að leggja sitt af mörkum við endurreisn fjárhags ríkissjóðs þrátt fyrir að álitamál væri hvort skatturinn væri í andstöðu við gildandi fjárfestingarsamninga.  Framlag fyrirtækjanna hefur skilað um 3 milljörðum króna á ári í tekjur á þessu tímabili og hafa fyrirtækin að öllu leyti staðið við sinn hluta samkomulagsins. 

Tillaga um kolefnisgjald

Haustið 2010 lögðu stjórnvöld drög að því að setja kolefnisgjald á iðnaðinn.  Þetta átti að gera þrátt fyrir að Ísland gangi nú inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir.  Þessu var snúið við, enda hefði verið um tvísköttun að ræða, en þetta er annað dæmi um það að fyrirtækin þurfa sífellt að að grípa til varna um sitt starfsumhverfi.

Glærur Magnúsar. Stöðugt skattumhverfi - hornsteinn fjárfestingar