Aukin þjónusta við atvinnuleitendur

Í dag var undirritað samkomulag milli Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar, um aukna þjónustu við atvinnuleitendur. Markmið verkefnisins er efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum sem auki líkur á að atvinnuleitendur fái störf að nýju á vinnumarkaði. Um er að ræða viðbót við núverandi þjónustu á sviði vinnumiðlunar og ráðgjafar.

Samkomulagið byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamninga SA og aðildarfélaga ASÍ. Er það mat SA og ASÍ að samstarf þeirra ásamt beinni þjónustu stéttarfélaga við félagsmenn sína og auknu samstarfi við atvinnurekendur muni bæta þjónustu við atvinnuleitendur, skapa öflugri virkniúrræði og virkari vinnumiðlun. Verkefnið er til þriggja ára og er stefnt að því að það hefjist 1. maí 2012.

Fagleg stýring verkefnisins verður í höndum félags sem SA og ASÍ munu stofna. Félagið mun hafa yfirumsjón með vinnumiðlun og ráðgjöf um vinnumarkaðsaðgerðir til félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem taka þátt í verkefninu og eru án atvinnu.

Jafnframt er miðað við að stéttarfélögin geti aðstoðað atvinnuleitendur við umsóknir um atvinnuleysisbætur, svo sem við öflun og frágang gagna auk þess að koma staðfestum umsóknum ásamt gögnum til næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun sér áfram um skráningu, greiðslu bóta og ákvarðanir er varða réttindi og skyldur viðkomandi einstaklinga. Þeir sem falla undir verkefnið snúa sér til stéttarfélagsins síns sem aðstoðar við öflun gagna og frágang umsókna um atvinnuleysisbætur auk þess að hjálpa viðkomandi einstaklingi að fá starf á vinnumarkaði að nýju. Áhersla er lögð á að viðkomandi stéttarfélag veiti atvinnuleitandanum heildstæða þjónustu.

Verkefnið nær til félagsmanna aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands á Austurlandi og félagsmanna Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerði og FIT - Félags iðn- og tæknigreina á Suðurnesjum.

Einnig tekur verkefnið til félagsmanna eftirtalinna stéttarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Verslunarmannafélags Reykjavíkur, FIT - Félags iðn- og tæknigreina og Fagfélagsins. Félagsmenn framangreindra stéttarfélaga eru samtals 26,5% atvinnuleitenda miðað við ársmeðaltal 2011.

Samkomulag Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar (PDF)