Aukin fjárfesting lykilatriði

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag númer eitt, tvö og þrjú að örva fjárfestingar á Íslandi. "Við rísum ekki öðruvísi upp úr þessum öldudal. Fjárfestingar eru enn í sögulegu lágmarki." Hann segir auknar álögur hafa haft umtalsverð neikvæð áhrif. "Atvinnulífið er með 60 milljarða hærri skattbyrði í dag en fyrir fjórum árum. Það vegur þungt þegar við áætlum að það vanti 100-150 milljarða í fjárfestingu á einu ári."

Þorsteinn segir fleiri þætti hafa neikvæð áhrif á fjárfestingarstigið.

"Fyrst má þar nefna gjaldeyrishöftin sem virðast vera farin að hafa þar umtalsverð áhrif, þá má einnig nefna að fyrirtækin eru enn mjög skuldsett og áherslan virðist fremur á niðurgreiðslu skulda en fjárfestingu enda er ládeyða í hagkerfum í kringum okkur og fjárfestingartækifærin ekki á hverju strái."

Baráttan við verðbólguna er mikilvæg.

"Við þurfum ásamt ríkisstjórninni og Seðlabankanum að taka höndum saman um að ná niður verðbólgu. Við verðum að sjá lægri vexti. Vaxtastigið hamlar fjárfestingu þegar þörf er á að örva hana."

Því þurfi að fara að varlega í launahækkanir, enda megi þær ekki stuðla að aukinni verðbólgu.

"Þegar hagvöxtur er lítill og fjárfesting í lágmarki er það skýrasta merkið um að svigrúm atvinnulífs til launabreytinga er lítið sem ekkert."

Nánar er fjallað um stöðu efnahagsmála og vinnumarkaðinn í Morgunblaðinu í dag, 15. ágúst 2013.