Aukið samstarf fyrirtækja og háskóla getur skapað verðmæt störf

Fjölmörg tækifæri felast í auknu samstarfi fyrirtækja og háskóla. Þetta sagði Daði Már Kristófersson, forstöðumaður þróunar og samstarfsverkefna við Háskóla Íslands, m.a. á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í gær. Daði segir mikilvægt að stuðla með virkum hætti að því að nýta þessi tækifæri til að bæta lífsskilyrði á Íslandi og gera landið að eftirsóttum stað til að búa á. Undir þetta taka Samtök atvinnulífsins en á næstu vikum og mánuðum verður unnið markvisst að því að tengja saman fyrirtæki, háskólanemendur og kennara sem munu leysa tiltekin verkefni sem miða að því að efla atvinnulífið.

Tvær meginhugmyndir eru nú til umræðu. Annars vegar að auka samstarf um nemendaverkefni sem verða unnin í samstarfi við fyrirtæki. Hins vegar að koma á samstarfi um þverfagleg nýsköpunarnámskeið þar sem breiður hópur fólks með ólíka þekkingu vinnur að því að leysa brýn viðfangsefni að mati atvinnulífsins.

Fjallað var um fundinn í sjónvarpsfréttum RÚV en þar sagði Daði m.a. að fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum komi til greina sem samstarfsaðilar og úr öllum greinum. Nefndi hann t.d. lítil ferðaþjónustufyrirtæki og söfn, sjávarútvegsfyrirtæki og orkufyrirtæki. Tækifærin séu alls staðar.

Fundurinn var hluti af verkefninu Uppfærum Ísland en markmið þess er m.a. að bæta samspil menntakerfisins og atvinnulífsins  þannig að hægt sé að skapa aukin verðmæti á Íslandi og búa til ný störf.

Félagsmenn Samtaka atvinnulífsins sem hafa áhuga á að vinna með Háskóla Íslands eru hvött til að hafa samband við Hörð Vilberg hjá SA í síma 591-0005 eða með tölvupósti á hordur@sa.is

Tengt efni:

Umfjöllun RÚV 26. Júní 2012 - smelltu til að horfa

Tillögur SA að uppfærslu Íslands (PDF)

Uppfærum Ísland - hugmyndavefur

Skráning - skreyting