Auka þarf útflutning um 7-8% á ári

Á Útflutningsþingi sem fór nýverið fram sagði Grímur Sæmundsen, varaformaður SA, nauðsynlegt að setja markmið um að auka útflutning frá Íslandi um 7-8% á ári og að vöxturinn verði 1-2% umfram árlega aukningu alþjóðaviðskipta. Með markvissum og samhæfðum aðgerðum er hægt að auka útflutning um 60-70 milljarða á ári sagði Grímur. "Til þess að það verði unnt, verður ríkisvaldið að taka höndum saman við atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og sveitarfélög um nauðsynlegar aðgerðir og nýja endurreisnaráætlun, sem komið getur atvinnulífinu á réttan kjöl. Innihaldslausar yfirlýsingar eins og gefnar voru við gerð stöðugleikasáttmálans sáluga síðastliðið sumar duga ekki í þeim efnum."

Ræðu Gríms má nálgast hér að neðan en hann sagði að með öflugu og samstilltu átaki fyrirtækja, stjórnvalda og fleiri aðila sé hægt að lyfta grettistaki. Til þess verði þó skilyrði til atvinnurekstrar að vera eins og best verður á kosið. "Háir vextir, gjaldeyrishöft, Icesave deilur við nágrannaríkin, pólitísk óvissa, óstöðugt skattaumhverfi og ótti stjórnvalda við erlendar fjárfestingar eru þó ekki gott veganesti til að styrkja útflutning, auka fjárfestingar og efla þar með hagvöxt."

"Það er lykilatriði, að stjórnvöld hafi hin einföldu grunnatriði árangursríkrar hagstjórnar um aukningu útflutnings, fjárfestingar og afleiddan hagvöxt í algerum forgangi. Beri þau gæfu til þess mun okkur takast að vinna bug á efnahagsörðugleikunum á skemmri tíma en okkur órar nú fyrir," sagði Grímur Sæmundsen, varaformaður SA.

Sjá nánar:

Ræða Gríms Sæmundsen á Útflutningsþingi 2010

Umfjöllun um Útflutningsþing á vef Útflutningsráðs