Atvinnutryggingargjald verði lækkað

Samtök atvinnulífsins hafa sent Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra bréf þar sem þess er krafist að atvinnutryggingargjald verði lækkað um tæpt 1% í samræmi við lög þar sem gjaldið er nú of hátt. Tekjur Atvinnuleysistryggingarsjóðs af gjaldinu á þessu ári eru áætlaðar um sjö og hálfum milljarði króna hærri en útgjöld sjóðsins vegna atvinnuleysis. Lög um tryggingagjaldið kveða á um að við þær aðstæður beri fjármálaráðherra að flytja frumvarp um lækkun gjaldsins en það hefur ráðherrann ekki gert. Lækkun gjaldsins er sérstaklega mikilvægt hagsmunamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Í bréfi SA segir:

"Samkvæmt 2. gr. laga um tryggingagjald skal Atvinnuleysistryggingasjóður gefa fjármálaráðherra skýrslu um fjárhagslega stöðu sjóðsins þar sem gerð sé grein fyrir fyrirsjáanlegum útgjöldum á næsta fjárhagsári með hliðsjón af horfum um atvinnuleysi og öðrum atriðum sem áhrif hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta atvinnutryggingagjalds skal fjármálaráðherra flytja frumvarp þar að lútandi á Alþingi.

Atvinnutryggingagjald er nú 3,81%. Á grundvelli þjóðhagsspár Hagstofunnar frá því í nóvember eru tekjur af atvinnutryggingagjaldi áætlaðar 30.594 m.kr. árið 2011. Atvinnuleysi er áætlað 7,3% og gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs 23.057 m.kr. Tekjur af atvinnutryggingagjaldi eru því 7.538 m.kr. hærri en áætluð útgjöld sjóðsins eða sem svarar til 0,94% af gjaldstofni. Atvinnutryggingagjaldið ætti því að lækka í 2,87% og tryggingagjöld í heild úr 8,65% í 7,71%.

Fjármálaráðherra hefur ekki flutt frumvarp um lækkun atvinnutryggingagjalds eins og 2. gr. laga um tryggingagjald kveður á um. Samtök atvinnulífsins krefjast þess að gjaldið verði lækkað í 2,87% og tryggingagjöld í heild í 7,71%."

Sjá nánar:

Bréf SA til fjármálaráðherra 12. 1. 2011