Atvinnulífið vill berjast

Ný könnun SA meðal aðildarfyrirtækja sinna leiðir í ljós að íslensk fyrirtæki vilja berjast áfram og ekki gefast upp þrátt fyrir erfið starfsskilyrði. 17% fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki en 30% vilja fækka og 53% stefna á óbreyttan starfsmannafjölda. Reikna má með því að atvinnuleysi verði á bilinu 18.000 til 19.000 manns í maí. Samdrátturinn framundan í atvinnulífinu er staðreynd sem horfast þarf í augu við. 

Í könnun SA voru fyrirtækin beðin um að koma á framfæri skilaboðum til stjórnvalda um brýnustu úrlausnarefnin.  Langflestir svarenda höfðu skilaboð fram að færa sem er óvenjulegt í könnun sem þessari. Mörg atriði komu þar fram sem forráðamenn íslensks atvinnulífs telja að þurfi að laga til þess að bæta starfsskilyrðin.

Lækkun vaxta og fjármagnskostnaðar er afgerandi og hávær krafa fyrirtækjanna. Núverandi vaxtastig er greinilega að sliga mörg þeirra ekki síst vegna þess að fjármagnsmarkaðurinn er bæði lokaður gagnvart útlöndum og innlend fjármálaþjónusta hefur ekki komist í eðlilegt horf.

Hækkun gengis krónunnar, gengisstöðugleiki og afnám gjaldeyrishafta eru líka mjög áberandi í skilaboðum fyrirtækjanna. Mörg þeirra hafa greinilega orðið fyrir miklu höggi af lækkun krónunnar og eiga í erfiðleikum með að stunda eðlileg viðskipti við útlönd. 

Þá er áberandi hve mörg fyrirtæki kvarta undan því að bankastarfsemin sé ekki komin í ásættanlegt horf.  Það skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið að fjármálaþjónustan virki. Greinilegt er að enn er töluvert í land með að bankakerfið geti þjónað viðskiptavinum sínum eðlilega og þá er ekki bara verið að tala um fáa og stóra aðila.

Að öðru leyti endurspegla svör fyrirtækjanna þá umræðu sem verið hefur í gangi og greinilegt er að málflutningur Samtaka atvinnulífsins á undanförnum mánuðum hefur að flestu leyti verið í takt við það sem forráðamenn fyrirtækjanna eru að hugsa. Það er styrkur fyrir atvinnulífið og samtök þess að finna slíkan samhljóm og vonandi ná þessar raddir eyrum stjórnvalda við þá endurskipulagningu á samfélaginu sem blasir við.

Taka þarf mikilvægar ákvarðanir um endurskipulagningu bankakerfisins og eignarhald á fjölmörgum fyrirtækjum sem þarf að endurfjármagna. Samtök atvinnulífsins hafa bent á það að ekki er vænlegt að ríkið eignist stóru bankana þrjá heldur verði að fá erlenda aðila úr hópi kröfuhafa sem eigendur að þeim.  Það snýst um aðgang hinna nýju banka að erlendum fjármagnsmörkuðum og þar með aðgang viðskiptavina bankanna að erlendu lánsfé. Bankarnir þurfa eigendur sem hafa sterkari stöðu en íslenska ríkið á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.

Ennfremur hafa verið kynntar tillögur um sérstakt félag á vegum ríkisins um eignarhald á fyrirtækjum. Samtök atvinnulífsins hafa bent á að æskilegt sé að bankarnir hafi sérstök opin umsýslu- eða eignarhaldsfélög á sínum vegum til þess að fara með eignarhluti í fyrirtækjum sem lenda í þeirra höndum. Þetta sjónarmið Samtaka atvinnulífsins er ítrekað því að mikil hætta er á spillingu, gerræðislegum ákvörðunum og tortryggni og vandamálum vegna heilbrigðrar samkeppni ef stofna á eitt eignarhaldsfélag á vegum ríkisins til þess að eiga og reka mörg af helstu fyrirtækjum landsins.

Samtök atvinnulífsins sendu nýlega frá sér viðamikla stefnumörkun um hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu. Þessi stefnumörkun hefur vakið mikla athygli og ekkert rit SA hefur náð jafn mikilli útbreiðslu í dreifðum prentuðum eintökum og niðurhali á netinu. Augljóst er að málflutningur SA á sér mikinn hljómgrunn hvort heldur er í atvinnulífinu eða samfélaginu öllu. Eftir stendur því stóra spurningin. Ætla stjórnvöld að vinna með atvinnulífinu og taka ákvarðanir sem styðja við uppbyggingu þess til skemmri og lengri tíma? Eða ætla stjórnvöld að sitja auðum höndum eða taka rangar ákvarðanir sem lengja og dýpka niðursveifluna í efnahagslífinu og gera atvinnulífinu og heimilunum í landinu erfiðar fyrir?

Vilhjálmur Egilsson