Efnahagsmál - 

30. Mars 2010

Atvinnuleysið má ekki festast í sessi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnuleysið má ekki festast í sessi

Ef hagvöxtur á Íslandi verður aðeins 1-2% á næstu árum verður hér viðvarandi 7-8% atvinnuleysi. "Það er ástand sem við höfum ekki kynnst á Íslandi og við hjá Samtökum atvinnulífsins viljum ekki sjá. Við munum berjast gegn því af fullum krafti." Þetta segir Grímur Sæmundsen, varaformaður SA. Hann bendir á að 5% árlegan hagvöxt þurfi næstu fimm árin til að hægt sé að vinna bug á atvinnuleysinu og skapa ný störf fyrir þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn.

Ef hagvöxtur á Íslandi verður aðeins 1-2% á næstu árum verður hér viðvarandi 7-8% atvinnuleysi. "Það er ástand sem við höfum ekki kynnst á Íslandi og við hjá Samtökum atvinnulífsins viljum ekki sjá. Við munum berjast gegn því af fullum krafti." Þetta segir Grímur Sæmundsen, varaformaður SA. Hann bendir á að 5% árlegan hagvöxt þurfi næstu fimm árin til að hægt sé að vinna bug á atvinnuleysinu og skapa ný störf fyrir þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn.

Þetta kom fram í viðtalsþættinum Hrafnaþingi á sjónvarpsstöðinni ÍNN þar sem atvinnumálin og stjórnmálin voru til umræðu, m.a. það mat Samtaka atvinnulífsins að ríkisstjórnin hafi með aðgerðum og aðgerðaleysi sínu vísað SA frá stöðugleikasáttmálanum sem undirritaður var 25. júní 2009. Nálgast má þáttinn hér að neðan ásamt ítarlegri aðgerðaráætlun SA í atvinnumálum sem miðar að því að koma Íslandi út úr kreppunni.

Ákvæði stöðugleikasáttmálans gengu ekki eftir
Grímur Sæmundsen segir að stöðugleikasáttmálanum hafi verið ætlað að skapa grunn að endurreisn efnahagslífsins. Það hafi því miður ekki gengið eftir. "Í þessum sáttmála voru ákvæði sem annað hvort hafa ekki gengið eftir eða hafa verið brotin," segir Grímur.

Það er mat hans að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi skrifað undir sáttmálann í góðri trú en því miður hafi einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni ekki talið sig vera bundna af honum, t.a.m. sjávarútvegsráðherra, félagsmálaráðherra og umhverfisráðherra auk þess sem skattaálögur  á fyrirtæki hafi verið stórauknar m.v. það sem gengið var út frá við gerð stöðugleikasáttmálans.

Þá hafi ekki verið staðið við fyrirheit um að greiða fyrir tilteknum framkvæmdum eins og samið hafi verið um heldur hið gagnstæða.  "Það er allt dregið og settur steinn í götu alls staðar."

Aðgerðaleysi í atvinnumálum óviðunandi
Breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun í síðastliðinni viku þvert á fyrirheit ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingar um að fara leið sátta í þeim efnum segir Grímur hafa verið kornið sem fyllti mælinn hvað varðaði aðkomu SA að stöðugleikasáttmálanum. "Menn sömdu um að setja þessi mál í ákveðinn farveg - við það var ekki staðið."

Grímur segir léttvægt að saka SA um að hafa sagt sig frá stöðugleikasáttmálanum vegna afmarkaðra hagsmuna útgerðarmanna - það sé ekki rétt - málið sé miklu stærra en svo.

"Samtök atvinnulífsins vilja endurreisa atvinnulífið og skapa vinnu fyrir fólk sem er atvinnulaust." Hann undrast raunar að stjórnvöld hafi ekki meiri áhyggjur af atvinnuleysi fólks. Þau skilaboð berist einna helst frá stjórnvöldum að úr því atvinnuleysi fólks sé ekki eins mikið og búist var við þurfi ekki að ræða það frekar. "Við teljum einmitt vegna þessa fólks þurfi að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Aðgerðaleysið er það sem okkur finnst verst."

Varaformaður SA undirstrikar að það sem raunverulega hafi gert það að verkum að brestir komu í samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda undir merkjum stöðugleikasáttmálans hafi verið aðgerðaleysi sem hafi gert atvinnulífinu erfiðara fyrir að leggja grunn að endurreisn efnahagslífsins.

Sjá nánar:

Smellið hér til að horfa á Hrafnaþing 26. mars

Atvinna fyrir alla - aðgerðaráætlun SA 2010 (PDF)

Samtök atvinnulífsins