Vinnumarkaður - 

22. Maí 2012

Atvinnuleysið er þjóðinni dýrkeypt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnuleysið er þjóðinni dýrkeypt

Samtök atvinnulífsins hafa barist ötullega fyrir því á undanförnum misserum að atvinnulífinu verði sköpuð hagstæð rekstrarskilyrði svo fyrirtækin í landinu geti sótt fram, ráðið til sín fólk og þar með minnkað atvinnuleysið sem er þjóðinni dýrkeypt. Í úttekt Morgunblaðsins í dag kemur fram að greiddar atvinnuleysisbætur frá hruni stefni í 100 milljarða króna en Samtök atvinnulífsins telja kostnaðinn enn meiri fyrir samfélagið.

Samtök atvinnulífsins hafa barist ötullega fyrir því á undanförnum misserum að atvinnulífinu verði sköpuð hagstæð rekstrarskilyrði svo fyrirtækin í landinu geti sótt fram, ráðið til sín fólk og þar með minnkað atvinnuleysið sem er þjóðinni dýrkeypt. Í úttekt Morgunblaðsins í dag kemur fram að greiddar atvinnuleysisbætur frá hruni stefni í 100 milljarða króna en Samtök atvinnulífsins telja kostnaðinn enn meiri fyrir samfélagið.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að samfélagslega tapið af atvinnuleysinu sé miklu meira en greiddar atvinnuleysisbætur.

"Það þarf að líta á kostnaðinn í heild; tapaða framleiðslu, tapaðar atvinnutekjur fólks sem er án vinnu og tapaðar skatttekjur. Tapið er því ekki eingöngu á útgjaldahlið ríkissjóðs. Þannig að tjónið af atvinnuleysinu er miklu, miklu meira en aðeins bæturnar."

Samtök atvinnulífsins hafa bent á fjölmargar leiðir og sent frá sér ítarlegar tillögur í efnahags- og atvinnumálum til að ná fram nauðsynlegum efnahagsbata.Tæplega 11 þúsund manns eru nú án vinnu en SA bentu á það haustið 2011 á opnum fundi um atvinnumál að hægt væri að bæta þjóðarhag um 46 milljarða króna á ári með því að útrýma atvinnuleysinu en þá voru rúmlega 11 þúsund manns án vinnu. Grímur Sæmundsen, varaformaður SA, sagði lausnina á efnahagsvanda Íslendinga þannig blasa við.

"Í dag [september 2011] eru rúmlega 11 þúsund manns án vinnu en með því að koma þeim til starfa er hægt að bæta hag ríkis og sveitarfélaga um 26 milljarða króna á ári. Atvinnuleysi 11 þúsund manna og kvenna kostar einnig launagreiðendur um 20 milljarða króna á ári en atvinnulífið fjármagnar atvinnuleysistryggingarsjóð. Þessir fjármunir gætu nýst til nýsköpunar, vöruþróunar og fjárfestinga í fyrirtækjunum og til að bæta stöðu okkar á samkeppnismarkaði."

Í nóvember 2011 gáfu SA út rit, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara þar sem er að finna tillögur SA að sókn í atvinnumálum. Ritið má nálgast hér að neðan ásamt samantekt frá opnum fundi um atvinnumál 11. nóvember 2011. Þar sagði formaður SA, Vilmundur Jósefsson, rauða ljósið hafa logað of lengi á Íslandi.

Í Morgunblaðinu í dag er ítarlega fjallað um áform ríkisstjórnarinnar og fyrirheit um auknar fjárfestingar frá árinu 2009 sem hafa því miður ekki gengið eftir. Vilhjálmur Egilsson, fjallaði í apríl um tjón þjóðarinnar af töpuðum fjárfestingum í leiðara fréttabréfs SA þar sem hann sagði að útlit væri fyrir að landsframleiðsla á næsta ári verði um 100 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir þegar efnahagsáætlun þáverandi ríkisstjórnar og AGS var samþykkt haustið 2008.

"Þetta þýðir að störf á Íslandi verða líklega um 10 þúsundum færri en ella. Fólk hefði ekki þurft að flytja úr landi eins og raun hefur verið og atvinnuleysi hefði getað verið komið undir 3% í stað þess að verða um og yfir 6% á næsta ári eins og áætlað er."

Tengt efni:

Samantekt frá fundi SA um atvinnumál 26. september 2011

Samantekt frá fundi SA um atvinnumál 11. nóvember 2011

Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Rit SA í nóvember 2011 (PDF)

Útgáfusíða SA

Samtök atvinnulífsins