Atvinnuleysið ekki ásættanlegt – atvinnu fyrir alla

Fyrirliggjandi efnahagsspár gera ráð fyrir um 2% árlegum hagvexti á næstu árum. Þetta er of lítið til þess að efnahagslífið nái sér á strik og fyrirtæki ráði fólk í ný störf þannig að atvinnuleysi minnki og lífskjör batni. Svo lítill hagvöxtur mun einnig kalla á áframhaldandi vandræði í ríkisbúskapnum og veikingu velferðarkerfis þjóðarinnar. Slík framtíðarsýn er ekki ásættanleg að neinu leyti.

Reynsla undanfarinna áratuga sýnir að við hverja prósentu hagvaxtar fjölgar störfum um rétt innan við ½%. Gangi spár um 2% meðalhagvöxt eftir mun fjölgun starfa ekki halda í við fjölgun fólks á vinnumarkaði og atvinnuleysi aukast enn. Af þeirri ástæðu verður að koma í veg fyrir að þessar spár rætist og stuðla að meiri hagvexti og um leið fleiri störfum.

Seðlabankinn spáir því að efnahagslífið dragist saman um 3% - 4% á þessu ári og að kreppan haldi áfram. Þetta eru döpur tíðindi í ljósi þess að allir möguleikar eiga að vera til þess að Ísland komist upp úr kreppunni í ár og grunnur verði lagður að endurheimt starfa og lífskjara. Útflutningur á vörum og þjónustu ætti að geta aukist mun meira en Seðlabankinn miðar við og fjárfestingar í atvinnulífinu ættu að geta hleypt nýjum krafti í efnahagslífið.

Leiðin út úr kreppunni hlýtur að vera sú að atvinnulífið fjárfesti, fyrst og fremst í útflutningsgreinum. Þannig verða til ný störf á uppbyggingartímanum og varanleg störf til lengri tíma. Mikilvægt er að skapa ný störf við útflutning vöru og þjónustu sem þola að greiða samkeppnishæf laun til framtíðar þannig að núverandi ástand með skert lífskjör og atvinnuleysi verði tímabundið.

Hagvöxtur þarf að vera 5% á ári að meðaltali á árunum 2011 - 2015 til þess að atvinnuleysi hverfi og ný störf verði til fyrir þá sem koma inn á vinnumarkaðinn. Þá myndu skapast 15-17 þúsund ný störf á tímabilinu og komið yrði í veg fyrir stórfelldan brottflutning fólks af landinu. Þetta er æskilegasta markmiðið fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs og þýðir að það muni samt taka Íslendinga sjö ár að ná fyrri lífskjörum og velferð.

5% árlegur hagvöxtur er mögulegur ef stjórnvöld og allir aðrir aðilar sem að málum koma eru samstíga. Lykilatriðið er að hvetja atvinnulífið til fjárfestinga í nýjum störfum í útflutningsgreinum. Útflutningur þarf að vaxa um 60 - 70 milljarða á ári fram til 2015 og það gerist aðeins með því að sá vöxtur verði á öllum sviðum útflutnings vöru og þjónustu.

Til þess að koma fjárfestingum í atvinnulífinu af stað á ný eru lægri vextir nauðsynlegir sem og greiður aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum. Landið þarf að vera opið bæði fyrir erlendum fjárfestingum og lánsfé. Fjármagnskostnaður atvinnulífsins þarf að lækka og þar skipta vaxtaákvarðanir Seðlabankans mestu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa ekki og munu ekki hafa aðgang að erlendu lánsfé. Eins þarf að tryggja að íslenska bankakerfið verði hagkvæmt og geti veitt atvinnulífinu eðlilega þjónustu með samkeppnishæfum kjörum.

Afnám gjaldeyrishafta er nauðsynlegt til þess að tryggja eðlilegt fjárflæði inn og út úr landinu og skapa skilyrði fyrir hækkun gengis krónunnar og endurnýjaðs trausts á henni og íslensku efnahagslífi. Gjaldeyrishöftin festa lágt gengi krónunnar í sessi og skapa hættu á því að verðbólga verði viðvarandi vandamál á Íslandi. Best er að gengi krónunnar hækki á nýjan leik og að lífskjör þjóðarinnar batni samfara lágri verðbólgu.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram víðtæka stefnumörkun undir heitinu "Atvinna fyrir alla - aðgerðaáætlun 2010". Bág staða atvinnulífsins, hallærisrekstur fjölmargra fyrirtækja, afturför í velferðarmálum, fækkun starfa og 10% atvinnuleysi eru ekki ásættanleg framtíðarsýn að mati Samtaka atvinnulífsins. Þess vegna verður að grípa til aðgerða.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA í febrúar 2010