Atvinnuleysi hverfur með 5% meðalhagvexti 2011-2015

Ef það tekst að ná 5% meðalhagvexti á Íslandi á árunum 2011-2015 mun atvinnuleysi hverfa og landsmenn endurheimta lífskjör sín. Með slíkum vexti verður hægt að greiða niður skuldir ríkisins og sækja fram í velferðarmálum. Með 2% meðalvexti á sama tíma mun atvinnuleysi hins vegar verða svipað og nú, ríkisfjármálin í vanda og velferðarkerfinu hraka.

Ef 3,5% meðalvöxtur næst á árunum 2011-2015 mun atvinnuleysi minnka, lífskjör heldur batna, ríkisfjármálin verða viðráðanlegri en velferðarkerfið mun hins vegar staðna. Þetta kom m.a. fram í máli Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, sem flutti erindi á ráðstefnu Sóknaráætlunar 20/20 og fram fór á Hótel Sögu 28. janúar 2010.

Vilhjálmur sagði að 11% samdrætti væri spáð í íslensku efnahagslífi samanlagt árin 2009 og 2010 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna minnki um meira en fjórðung á sama tíma. Útlit er fyrir að atvinnuleysi verði á bilinu 9-10% og ríkissjóður þurfi að greiða 120 milljarða króna nýjan vaxtareikning. Við þessar aðstæður væri rétt að spyrja að því hvert beri að stefna til ársins 2015 eða 2020.

Svar Vilhjálms er einfalt: Til þess að endurheimta lífskjör Íslendinga er nauðsynlegt að leggja höfuðáherslu á hagvöxt og sköpun nýrra starfa ásamt því að auka og efla framleiðslu til að afla frekari útflutningstekna. "Atvinnulífið skapar störfin," sagði Vilhjálmur og benti á að það gerist aðeins með fjárfestingum, sparnaði og nægilegu lánsfé á viðráðanlegum kjörum, auk þess að fyrirtæki séu sátt við starfsumhverfi sitt og hafi trú á framtíðina.

"Til að atvinnulífið geti sótt fram á nýjan leik verður íslenskt atvinnulíf að búa við samkeppnishæf starfsskilyrði - það er algjört frumskilyrði."

Hvað varðar möguleika Íslands til að sækja fram benti Vilhjálmur á að ekki sé hægt að skipta um í einni hendingu fólki í forystu 20 þúsund fyrirtækja stórra sem smárra. Fólk þurfi að gefa hvort öðru starfsfrið og í uppgjöri við það sem liðið er megi ekki hlekkja niður möguleika lands og þjóðar til þess að efla samkeppnishæfni landsins til framtíðar.