Atvinnuleysi eykst með 17% stýrivöxtum

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands um 1 prósentustig vera ótrúlega litla lækkun. "Þetta er miklu minni lækkun heldur en eðlilegt var að reikna með" segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. Í ljósi þeirra forsendna sem fyrir liggja þá komi svo lítil lækkun verulega á óvart. "Það er engin verðbólga í gangi í hagkerfinu. Það er engin eftirspurnarþrýstingur. Það er mikið atvinnuleysi og fer vaxandi. Staða fyrirtækja og atvinnulífsins er ekki með þeim hætti að einhver rekstur standi undir þessu vaxtastigi."

Vilhjálmur segir á mbl.is að Samtök atvinnulífsins telji eðlilegt að stýrivextir hefðu verið lækkaðir í 10% og síðan færu þeir hratt lækkandi áfram. Þannig að vaxtamunurinn á milli Íslands og evrusvæðisins yrði kominn undir 3% á mjög stuttum tíma. Hann segir að SA hafi ítrekað rætt við stjórnvöld um þessi mál og haldið verði áfram að krefjast lækkunar stýrivaxta. Hins vegar hafi ekki verið hlustað á þau sjónarmið hingað til.

Í samtali við Vísi.is segir Vilhjálmur að atvinnuleysi aukist með 17% stýrivöxtum og segist gáttaður á ákvörðun Seðlabankans: "Til hvers var verið að breyta lögum um Seðlabankann og fá seðlabankastjóra erlendis frá til þess að taka jafn vitlausa ákvörðun. Ég sé nú ekki að það hafi verið neinn tilgangur í því ."  Vilhjálmur segir að ekki hafi þurft að setja upp heila peningastefnunefnd til að breyta ekki um stefnu.  "Miðað við stöðuna í atvinnulífinu og horfurnar varðandi verðbólguna og eftirspurnina þá er engin ástæða til þess að halda vöxtum svona háum."

Fjallað var um málið í hádegisfréttum RÚV þar sem leitað var viðbragða Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ auk Vilhjálms. Hlusta má á fréttina með því að smella á tengil hér  að neðan. Þar segir Gylfi m.a. að heimili og fyrirtæki séu í andaslitrunum vegna hinna háu vaxta.

Sjá nánar:

Frétt RÚV

Frétt mbl.is

Frétt á Vísi