Atvinnuleysi áfram mikið ef ekkert verður gert

Markmið um að störfum taki að fjölga á nýjan leik á þessu ári eftir áfall síðasta árs hafa ekki gengið eftir. Störfum getur ekki fjölgað nema með auknum fjárfestingum í varanlegri og samkeppnishæfri atvinnustarfsemi og þær hafa látið á sér standa. Efnahagslegur stöðugleiki, með lágri verðbólgu og vöxtum, og sæmileg vissa um starfsskilyrði fyrirtækja á komandi árum er forsenda fyrir viðsnúningi í efnahagslífinu  því að öðrum kosti verður lítill vilji til fjárfestinga og framkvæmda.

Horfur á miklum samdrætti á þessu ári

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar um þjóðarbúskapinn á þriðja ársfjórðungi nam vöxtur landsframleiðslu 1,2% milli annars og þriðja fjórðungs þessa árs. Þar með tekur nú hagvöxtur við af tímabili samdráttar frá 4. ársfjórðungi 2008, eða í 7 ársfjórðunga samfellt. Þessi mæling er mikilli óvissu háð, eins og Hagstofan bendir á í frétt um niðurstöðurnar, vegna þeirra miklu umbrotatíma sem nú standa yfir. Skemmst er að minnast að fyrr á þessu ári var talið að landsframleiðslan hefði vaxið bæði á 4. ársfjórðungi 2009 og á 1. ársfjórðungi 2010 en við endurskoðun sl. haust  kom í ljós að samdrátturinn hafi numið 3% samtals á þessum tveimur ársfjórðungum.

Þessi áætlun um hagvöxt á þriðja fjórðungi ársins gefur ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni. Vöxturinn byggir nánast eingöngu á aukningu einkaneyslu en útflutningur er svo til óbreyttur milli fjórðunga og fjárfestingar, einkum atvinnuveganna, dragast enn saman. Reynast þessar tölur réttar og að hagvöxtur verði áfram um 1% á síðasta fjórðungi ársins verður samdráttur landsframleiðslu á þessu ári rúmlega 4% sem er töluvert meira en sá 3% samdráttur sem Hagstofan spáði í lok nóvember og sá 2,6% samdráttur sem Seðlabankinn spáði í byrjun þess mánaðar. Haldi fram sem horfir mun einkaneyslan standa nokkurn veginn í stað á árinu en samneyslan og fjárfestingar minnka meira en spáð hefur verið. Á móti mun innflutningur aukast nokkuð meira en gert hefur verið ráð fyrir.

Það stefnir því ekki í að aukin einkaneysla ráðist af fjárfestingum eða auknum útflutningi. Þvert á móti byggir sú takmarkaða aukning einkaneyslu sem stefnir í á því að heimilin gangi á sparnað sinn, bæði almennan sparnað og lífeyrissparnað í séreign. Spár um að aukin einkaneysla muni standa að baki þeim afar takmarkaða hagvexti sem spáð er á næstu árum eru sama marki brenndar, því vandséð er að fjárfestingar aukist að marki í bráð, og aukinn útflutningur eru ekki í augsýn á næstu misserum.

Atvinnuleysi áfram mikið

Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun í október síðastliðnum nam 7,5% af mannafla sem samsvarar 12.100 fullum störfum. Þar sem hluti þeirra sem skráðir eru atvinnulausir þiggja bætur vegna hlutastarfa er fjöldi atvinnulausra umfram framangreindan fjölda og í byrjun þessa mánaðar voru 14.250 á atvinnuleysisskrá. Í nóvember og desember er búist við að atvinnuleysi muni nema u.þ.b. 8% og verður atvinnuleysi ársins í heild líklega 8,2% sem samsvarar 13.200 fullum störfum. Samkvæmt  opinberum spám mun draga úr atvinnuleysi á næsta ári og það verði rúmlega 7% eða sem svarar 11.600 fullum störfum.  Það er þó alls óvíst að sá takmarkaði árangur náist þar sem horfur um fjárfestingar, hagvöxt og þar með sköpun starfa eru mjög óvissar og því eins líklegt að atvinnuleysi minnki ekki að óbreyttum horfum.

Störfum fækkar enn

Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fyrstu þrjá fjórðunga ársins og áætlun fyrir þann fjórða bendir til að störfum á landinu hafi fækkað um 500-1.000 á árinu og verði um 167.000 að jafnaði á árinu. Þessi fækkun bætist við þau 11.000 störf sem töpuðust  árið 2009. Störfin skiptast í 127 þúsund full störf og 40 þúsund hlutastörf. Vinnutími virðist hafa staðið nokkurn veginn í stað á árinu 2010. Af því má álykta að dregið hafi úr framleiðni vinnuafls á árinu þar sem að samdráttur landsframleiðslu virðist hafa verið mun meiri en á vinnumarkaði. Þessu var öfugt farið á síðasta ári þegar samdráttur á vinnumarkaði var mun meiri en samdráttur landsframleiðslunnar.

Brottflutningur frá landinu heldur áfram

Á síðasta ári voru brottfluttir umfram aðflutta 4.800 sem skiptist jafn á milli íslenskra og erlendra ríkisborgara. Í lok 3. ársfjórðungs 2010 bjuggu 318.200 manns á Íslandi, þ.a. 296.700 íslenskir ríkisborgarar og 21.500 erlendir ríkisborgarar. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru brottfluttir umfram aðflutta 1.600 og þar af rúmlega 1.500 Íslendingar  og tæplega 100 erlendir ríkisborgarar. Brottfluttir umfram aðflutta á landsbyggðinni voru tæplega 1.200 en 400 á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þess að á höfuðborgarsvæðinu búa rúmlega 200 þúsund manns og 116 þúsund á landsbyggðinni þá hafa 1% íbúa á landsbyggðinni flutt af landi brott nettó á fyrstu níu mánuðum ársins.

Nauðsyn öflugs hagvaxtar

Endurreisn íslensks efnahagslífs hefur dregist á langinn og hætt er við að vítahringur  atvinnuleysi og brottflutnings af landinu haldi áfram. Einungis öflugur hagvöxtur byggður á arðbærum fjárfestingum getur snúið þjóðarbúskapnum af þeirri braut.