Atvinna fyrir alla - aðgerðaáætlun 2010

Samtök atvinnulífsins hafa sett fram markmið um að þjóðin hafi endurheimt fyrra atvinnustig og lífskjör á árinu 2015. Þetta er hægt með því að setja atvinnusköpun í forgang, sérstaklega með fjárfestingum og vexti í útflutningsgreinum. Núverandi spár gera ráð fyrir 2% árlegum hagvexti en það er of lítið til þess að nógu mörg störf skapist til að það dragi úr atvinnuleysinu. Náist 3,5% hagvöxtur á næstu árum er árangur samt ekki nægur til að eyða atvinnuleysi. Það þarf að setja djarfari hagvaxtarmarkmið og stilla saman strengi til þess að ná þeim. Um 5% árlegan hagvöxt þarf til.

Ýmislegt gengur betur en reiknað var með. Þannig hefur útflutningur verið kraftmeiri en búist var við og opinberar spár um aukningu útflutnings á þessu ári eru of varfærnar. Atvinnuleysi mun ekki ná þeim hæðum sem ætlað var. Þannig er hæpið að spá Seðlabankans um 3% - 4% samdrátt landsframleiðslu eða spá Alþýðusambandsins um 5% samdrátt rætist þótt ekki verði úr stórframkvæmdum sem miðað er við í þjóðhagsáætlun, þ.e. í Straumsvík og Helguvík og tilheyrandi orkuöflun. Nær lagi er að samdrátturinn verði 1% - 2% þótt stórframkvæmdir hefjist ekki, því auk sóknar í útflutningsgreinum og ferðaþjónustu auka fyrirtæki sem keppa við innflutning á heimamarkaði markaðshlutdeild sína.

Það er óásættanlegt að kreppan sé framlengd þegar henni gæti verið að ljúka og 1% - 2% hagvöxtur í sjónmáli, fjöldi nýrra starfa innan seilingar og atvinnuleysi gæti verið stöðugt eða jafnvel heldur á niðurleið. Það er hægt að tryggja hagvöxt þegar á þessu ári með því að koma stórframkvæmdum í atvinnulífinu í gang og lækka vexti til að stuðla að fjárfestingum fjölmargra minni og meðalstórra fyrirtækja sem hafa áhuga og burði til fjárfestinga ef þau búa við eðlilegan fjármagnskostnað. Auknar fjárfestingar í atvinnulífinu skapa atvinnu meðan á uppbyggingu stendur og varanleg störf til lengri tíma.

Í stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009 hét ríkisstjórnin því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir þeim stórframkvæmdum sem þá lágu fyrir. Nú, þegar komið er fram í marsmánuð 2010, liggur fyrir að engar hindranir eru í vegi framleiðsluaukningar í álverinu í Straumsvík. Hins vegar eru ennþá verulegar hindranir í vegi orkuöflunar til álversins í Helguvík. HS orka hefur ekki enn fengið virkjanaleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar, Hafnarfjörður og Grindavík hafa ekki lokið skipulagsvinnu vegna virkjana í Krísuvík og Eldvörpum og nefnd um erlendar fjárfestingar hefur enn ekki skilað af sér áliti vegna innkomu erlends aðila í HS Orku. Orkuveita Reykjavíkur hefur í bili a.m.k. ráðstafað rafmagni frá Hverahlíðarvirkjun til annars verkefnis sem áður var ætlað til Helguvíkur. Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að selja ekki rafmagn til álversins í Helguvík. Þá er ekki séð fyrir endann á fjármögnun orkuframkvæmda hjá Landsvirkjun og Orkuveitunni en hins vegar mun HS Orka hafa nægan aðgang að fjármagni ef eigendamálin fá viðunandi lausn.

Allar þessar hindranir eru yfirstíganlegar og dráttur á málum er ekki eingöngu ríkisstjórninni að kenna en það hefur skort mikið á forystu og röggsemi af hennar hálfu. Ennfremur hafa misvísandi skilaboð úr stjórnarliðinu valdið miklum truflunum, s.s. ákvarðanir umhverfisráðherra vegna Suðvesturlínu og skipulagsmála vegna virkjana í Neðri-Þjórsá. Því stendur upp á ríkisstjórnina að leiða þau mál til lykta sem að henni snúa og hafa forystu um að önnur vandamál leysist samhliða. Þá dugar ekki að annað en að ríkisstjórnin tali einum rómi um málin.

Vextir á Íslandi eru alltof háir miðað við ástand efnahagslífsins. Það er ótrúlegt að Seðlabankinn skuli halda 8% - 9% vaxtamun gagnvart evrusvæðinu þrátt fyrir að Ísland sé í djúpri kreppu. Háir vextir á Íslandi eru mjög skaðlegir og stuðla að áframhaldandi stöðnun, ekki síst meðan aðgangur að erlendu lánsfé er lokaður. Aukning útflutnings og markaðshlutdeildar fyrirtækja í samkeppni við innflutning  sem fall krónunnar hefur stuðlað að getur smám saman stöðvast vegna þess að sífellt fleiri fyrirtæki komast að endamörkum þess sem þau geta framleitt eða afgreitt án nýrra fjárfestinga. Þrátt fyrir góða afkomu í útflutningi er ekki fýsilegt að fjárfesta með dýru lánsfé í íslenskum krónum. Fyrir útflutningsfyrirtæki er almennt ódýrara og áhættuminna að notast við erlent lánsfé en það er hins vegar ekki nema að litlu leyti í boði nú.

Hinir háu vextir bitna einnig á þokkalega stæðum fyrirtækjum sem komust frá kreppunni án meiri háttar áfalla. Það eru fyrirtækin sem gætu verið að sækja fram og leggja af mörkum til nýrrar atvinnusköpunar og betri lífskjara. Þótt stórframkvæmdirnar í atvinnulífinu séu nauðsynlegar þá verða þær aldrei nema tiltölulega afmarkaður þáttur í endurreisn atvinnulífsins. Meginframlagið til sköpunar nýrra starfa og hagvaxtar kemur frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem sjá sér hag í að sækja fram. Á slíkri sókn þarf Ísland að halda og þess vegna verður að tryggja að hún verði að veruleika. Þar skiptir aðgangur að lánsfé á eðlilegum kjörum höfuðmáli.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í mars 2010