Átak SA og Blóðbankans gengur vel

Samtök atvinnulífsins og Blóðbankinn hafa undanfarnar vikur hvatt stjórnendur fyrirtækja og starfsfólk þeirra til að bretta upp ermar og gefa blóð. Markmið átaksins er að fjölga blóðgjöfum sem koma reglubundið í Blóðbankann og auðvelda starfsfólki að gefa blóð á vinnutíma. Það tekur aðeins stutta stund og getur bjargað mannslífum.

Átakið hefur gengið vel og segir Blóðbankinn að greinileg vitundarvakning hafi orðið í atvinnulífinu en átakið hófst 3. mars. Fyrirtæki bæði stór og smá hafa í auknum mæli óskað eftir því að fá Blóðbankabílinn til sín og búið er að bæta við dögum sem bíllinn er á ferðinni til að mæta aukinni eftirspurn.

Fyrirtækin Marel, Já og Rio Tinto Alcan á Íslandi styðja átak Blóðbankans og SA. Forstjórar fyrirtækjanna hafa sýnt gott fordæmi með því að hvetja starfsfólk sitt til blóðgjafar á vinnutíma.

Starfsmenn Marel við blóðgjöf í Blóðbankabílnum

Mynd: Óskar Páll Sveinsson


Mikil aukning varð í blóðgjöf dagana eftir að átakið hófst en flæðið hefur síðan orðið jafnara. Nú er mögulegt að bóka tíma í blóðgjöf og mun Blóðbankinn í auknum mæli óska eftir að blóðgjafar geri það. Með því móti má stytta biðtíma og ná betra jafnvægi í innkomu blóðgjafa, lagerhaldi og mönnun.

SA hvetja fleiri til að bætast í hópinn og bretta upp ermar en fyrirtækjum sem vilja taka þátt í átakinu er bent á að hafa samband beint við Blóðbankann.

Tengt efni:

Umfjöllun um upphaf átaksins Brettum upp ermar - gefum blóð

Vefur Blóðbankans