Átak á sviði starfsmennta

Samtök atvinnulífsins leggja þunga áherslu á fræðslu- og menntamál. Að mörgu leyti eru fræðslumálin undirstaða þess þekkingar- og tækniþjóðfélags sem við lifum í og viljum halda áfram að efla. Á vinnumarkaði skipta þá starfsmenntir og starfsþjálfun miklu máli. Staða fræðslumála á vinnumarkaði hefur úrslitaáhrif á samkeppnishæfni þjóðfélagsins, þróunarmöguleika þess og þau lífskjör sem atvinnulífið getur boðið. Starfsferill, framamöguleikar og lífskjör einstaklinganna byggjast líka að verulegu leyti á þeirri menntun, skólagöngu og starfsþjálfun sem þeir búa yfir.

Hagsmunaaðilar á vinnumarkaði hafa með sér margvíslegt samstarf og sameiginlegar stofnanir á sviði fræðslumála. Einnig er virkt samstarf við fulltrúa skólakerfisins. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra eru mjög virkur forystuaðili í þessu starfi. Innan Samtaka atvinnulífsins starfa hópar að þessum málaflokki, og Samtök atvinnulífsins hafa samþykkt ítarlegar ályktanir um þessi mál.

Athygli að málefnum ófaglærðra
Á síðustu árum hefur vaxandi athygli beinst að málefnum ófaglærðra á vinnumarkaði, að aðstöðu þeirra sem hafa litla skólagöngu að baki og hafa ekki lokið neinu starfstengdu námi. Almennir fræðslusjóðir hafa tekið til starfa með stuðningi og aðild Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra. Nú nýlega var Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf stofnuð til þess að verða samstarfsvettvangur um alhliða starfsfræðsluátak á íslenskum vinnumarkaði, einkum fyrir fólk sem hefur litla skólagöngu að baki, og um önnur sambærileg fræðsluverkefni með víðtæka þjóðfélagslega skírskotun.

Í þessu efni skiptir mestu máli að um 42% fólks á íslenskum vinnumarkaði hafa mjög takmarkaða menntun, aðeins grunnskóla eða mjög stutt starfsnámskeið umfram það. Framboð á menntun og starfsfræðslu fyrir allt þetta fólk er risavaxið langtímaverkefni sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf er ætlað að hafa forgöngu um.

Víðtækt samkomulag
Samtök atvinnulífsins fagna því að tekist hefur víðtækt samkomulag um þetta starfsfræðslu- og menntaátak Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins ehf. Mjög miklu máli skiptir, bæði fyrir einstaklingana og allt atvinnulífið, að góður árangur náist. Á því leikur ekki vafi að framfarir á þessu sviði eru undirstaða almennrar framþróunar í íslensku þjóðfélagi framvegis sem hingað til.