Arðbærar fjárfestingar forsenda nýrra starfa

Eitt brýnasta verkefnið í efnahagsmálum þjóðarinnar er að stuðla að því að störfum taki að fjölga á nýjan leik. Ljóst er að það gerist ekki nema með arðbærum fjárfestingum, einkum í útflutningsstarfsemi, og það er jafnframt forsenda þess að lífskjör geti batnað á nýjan leik. Efnahagslegur stöðugleiki, með lágri verðbólgu og vöxtum, er einnig mikilvæg forsenda fyrir jákvæðri þróun á vinnumarkaði því að við slíkar aðstæður verða fjárfestingar, framkvæmdavilji og fjölgun starfa meiri en ella. Þetta kemur fram nýrri greiningu SA á íslenskum vinnumarkaði.

Efnahagslægðin ekki náð botni enn
Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun var heldur minna á árinu 2009 en búist hafði verið við fyrirfram, en það var 8% eða sem svarar til rúmlega 13.000 fullra starfa. Útlit er fyrir að þær góðu fregnir séu skammgóður vermir þar sem botn efnahagslægðarinnar náist síðar en ráð var fyrir gert.  Opinberar spár standa til þess að atvinnuleysi  muni aukast í 10-11% á þessu ári, verði 9-10% árið 2011 og fari minnkandi eftir það. Sú þróun er þó háð því að áformuð fjárfestingarverkefni í iðnaði, netþjónabúum og orkumannvirkjum gangi eftir og að fjárfestingarumhverfið verði hagstætt og hvetjandi fyrir nýsköpun og framtak.

Störfum hefur fækkað um 11.000
Atvinnuleysið segir ekki alla söguna um þróunina á vinnumarkaðnum. Þannig fækkaði störfum samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar um 11.000 milli áranna 2008 og 2009, eða úr tæplega 179 þúsund í 168 þúsund. Meðalvinnutími styttist einnig umtalsvert, um tæpar tvær stundir á viku. Vinnustundum fækkaði því úr 7,4 milljónum í 6,7 eða um 10,5%. Fækkun heildarvinnumagns í efnahagslífinu er glöggur mælikvarði um minni verðmætasköpun af völdum efnahagskreppunnar og í bráð er brýnasta viðfangsefnið að þessi þróun gangi sem fyrst til baka.

Brottflutningur fólks mikil blóðtaka
Búferlaflutningar tóku miklum stakkaskiptum á árinu 2009. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2009 voru brottfluttir umfram aðflutta tæplega 2.700, þ.a. 2.050 karlar og rúmlega 600 konur. Á árunum 2004-2008 voru hins vegar aðfluttir umfram brottflutta 16.000, þ.a. 10.000 karlar og 6.000 konur. Að jafnaði fluttu því árlega 2.000 karlar og 1.200 konur til landsins á þessu tímabili.

Í ljósi þess að mannauðurinn er ein helsta auðlind landsins er brottflutningur fólks mikil blóðtaka, bæði fyrir efnahagslífið í bráð og á komandi árum, sem hefur hamlandi áhrif á hagvöxt og framþróun. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun íbúum landsins halda áfram að fækka á árinu 2010 og 2011. Eins og nú horfir er allt útlit fyrir að sú spá rætist.

Endurreisn efnahagslífsins dregst á langinn
Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var í lok júní 2009 milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda hafði það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir að spár um fjöldaatvinnuleysi og landflótta á komandi árum rættust. Með lækkun vaxta og styrkingu gengis yrðu sköpuð skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti,  nýrri sókn í atvinnumálum og grunnur lagður að bættum lífskjörum til framtíðar. Þá myndi ríkisstjórnin greiða götu stórframkvæmda  vegna álvera í Helguvík og Straumsvík og undirbúningsvinnu yrði hraðað vegna áforma um fjárfestingar í meðalstórum iðnaðarkostum.

Þessi áform hafa ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til og því blasir við að endurreisn íslensks efnahagslífs mun dragast á langinn, atvinnuleysi verða mikið á komandi misserum og hætta er á að áframhald verði á þeirri þróun að umtalsvert fleiri flytjist brott  af landinu en til þess. Ekkert getur komið í veg fyrir slíka þróun nema kröftugur hagvöxtur náist sem fyrst sem byggir að stórum hluta á fjárfestingum í útflutningsstarfsemi.