18. október 2022

Árangur án áhuga?

Menntamál

Menntamál

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Árangur án áhuga?

Mikilvægt er að allir fái áskoranir við hæfi í skólunum okkar

Enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju.  Leggja ætti áherslu á að skima eftir styrkleikum einstaklinga fremur en veikleikum og næra þá. 

Mikilvægt verkefni stjórnenda í atvinnulífinu er að skapa áhugaverð störf og vinnuumhverfi. Það er eftirsóknarvert fyrir atvinnurekendur að starfsmenn finni ánægju og tilgang í vinnunni sem ræðst m.a. af áhuga starfsmanns, viðfangsefnum við hæfi og trú á eigin getu. Það má ætla að hið sama gildi um forsendur árangurs í menntakerfinu okkar.

Umræða um áskoranir í menntakerfinu hefur snúist um kennslutækni, árangur í samanburði við önnur lönd, aðferðafræði í lestrarkennslu og fleiri kennslutæknileg atriði. Frávikagreiningar eru umfangsmiklar en þó aðeins í aðra áttina þar sem lítill eða enginn gaumur er gefinn að nemendum sem gætu flokkast sem framúrskarandi nemendur á tilteknu sviði. Hópur afreksnemenda í íslensku menntakerfi er lítt þekktur og lítið ræktaður.

En öll vitum við af óásættanlegum fjölda nemenda sem ekki getur lesið sér til gagns, áhugaleysi stórra nemendahópa og svo því sem verst er að nemendum, sér í lagi drengjum, líður ekki nógu vel í skólunum okkar.

Hvað er til ráða?

SA eru þátttakandi í verkefninu kveikjum neistann í Vestmannaeyjum. Líkt og yfirskriftin ber með sér er markmiðið að rækta áhuga og gróskuhugarfar hjá nemendum. Samhliða þessu er markmiðið að nálgast þjálfun í grunnfærni, til að mynda í lestri, öðru vísi en nú er gert. Markmiðið er að auka færni, áhuga og vellíðan nemenda.

Hugmyndafræðin snýr að innihaldi námsefnis en þó aðallega að umgjörð og skipulagi skólastarfsins. Breytt skipulag skóladagsins er stór liður í að ná framangreindum markmiðum. Þannig byrja allir skóladagar á einhverskonar hreyfingu enda vitum við að hreyfing skapar betri einbeitingu, fókus og vellíðan auk þess að hafa jákvæð áhrif á sjálfsmynd nemenda. Mikil áhersla er á að sérhver nemandi fái viðfangsefni við hæfi. Allir nemendur eru skimaðir í upphafi skólagöngu og tryggt að þeir sem þegar hafa tiltekna þekkingu geti haldið áfram frá þeim stað. Það má sjá í hendi sér leiða sem getur skapast svo ekki sé minnst á sóunina sem á sér stað þegar barni er kennt eitthvað sem það þegar kann. Byggt á þessum skimunum er nemendum skipt í hópa í sérstökum þjálfunartímum þar sem kennsla miðast við færni. Skóladagurinn endar svo á ástríðutíma þar sem nemendur velja viðfangsefni sem mest höfðar til þeirra en markmiðið er að börnin finni ástríðu sína og fái tækifæri til að þróa hana.

Þau atriði sem nefnd eru hér að ofan eru aðeins brot af því sem einkennir verkefnið kveikjum neistann en lagt er upp með að skólastarfið allt litist af virðingu, tillitssemi og hugarfari grósku.

Íslenskt atvinnulíf byggir á öflugum mannauði og framtíðar þróun þess byggir á því að menntakerfið skili af sér einstaklingum sem hafa virkjað áhugahvöt og þróað færni og þekkingu til samræmis við hana. Enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju. Leggja ætti áherslu á að skima eftir styrkleikum einstaklinga fremur en veikleikum og næra þá. Vellíðan allra er grundvallaratriði sem og mikilvægi þess að allir fái áskoranir við hæfi. Til þess þarf nýja hugsun og nýjar leiðir líkt og unnið er með í Vestmannaeyjum. Við náum síður árangri án áhuga, það á við í menntakerfinu líkt og atvinnulífinu.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins