Anna Björk horfir úr mastrinu

Á aðalfundi SA 2013 brá Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs Símans og stjórnarformaður Festu, sér upp í fjarskiptamastur og horfði yfir landið og miðin. Hún fjallaði um tækifærin sem felast í því þegar tækni, fólk og hugvit kemur saman. Hún vakti athygli á því að í dag geta neytendur valið úr rúmlega tveimur milljónum snjallsímaforrita í sjö þekktustu app-verslununum. Snjallsímaforrit  Apple  hafi skapað forriturunum sem bjuggu þau til þriggja milljarða dollara tekjur.

Anna Björk Bjarnadóttir á aðalfundi SA 2013

Hægt er að horfa á upptöku af erindi Önnu Bjarkar hér að neðan ásamt því að nálgast glærur hennar frá fundinum. Anna benti á að þjóðhagsleg áhrif háhraðatenginga væru veruleg. Í OECD löndunum gefi tvöföldun á hraða tenginganna af sér 0,3% aukningu í þjóðarframleiðslu.  "Sá vöxtur jafngildir 126 milljörðum bandaríkadala, sem aftur jafngildir 14% af árlegum meðalvexti síðasta áratugar."

Anna benti á að á Íslandi hafi innanríkisráðuneytið gefið út að 1.000 nýjar háhraðatengingar leiði til um 80 nýrra starfa. "Fjölgi breiðbandstengingum um 10% þá leiðir það að sama skapi til eins prósentu aukningar í þjóðarframleiðslu. Þrefaldist tengingarhraðinn eykst þjóðarframleiðslan um 0,6%." Veldisaukning og sprenging sé í flestu sem viðkomi tengingu við internetið og öllu því sem það hafi upp á að bjóða.

Anna Björk segir að góður aðgangur að internetinu hafi gríðarleg áhrif á getu einstaklinga og fyrirtækja - ekki síst á landsbyggðinni - til að starfa og markaðssetja sig til jafns við aðra á markaði. Hvort sem sá markaður er á Íslandi eða hvar sem er í heiminum. "Öflug tenging við internetið ásamt hugviti getur keppt á hvaða markaði sem er, eins og dæmið um menntskælinginn á Akureyri sem rekur alþjóðlegt fyrirtæki af heimavistinni sannar svo um munar. Eða frumkvöðulinn á Vestfjörðum sem hefur lengi rekið dúkkulísufyrirtæki í gegnum veraldarvefinn með frábærum árangri."

Anna Björk Bjarnadóttir á aðalfundi SA 2013

Anna segir ljóst að hægt sé að nýta miklu fleiri tækifæri á sviði fjarskipta á Íslandi en gert er í dag.

"Við getum aukið virðissköpun af tækninni enn frekar með réttum áherslum. Nú er einmitt tíminn til að nýta alla möguleika sem innviðirnir gefa okkur, en til þess þurfum við fyrst og fremst að auka tæknimenntun, hlúa að hugvitinu og frábæru framtaki íslenskra sprotafyrirtækja, eins og til dæmis Skemu sem opnar heim forritunar fyrir krakka þegar á grunnskólaaldri. Tæknin snýst um hugvit og tæknin snýst um fólk."

Anna Björk hvatti fyrirtæki til að sýna í verki ábyrga starfshætti og leggja áherslu á samfélagsábyrgð - áherslu á að skila meiru til samfélagsins sem það starfar í en það tekur frá því. Samfélagsábyrgð geti skapað ný viðskiptatækifæri, aukið nýsköpun, aukið aðgreiningu og styrkt samkeppnishæfni.

"Okkar viðskiptavinir á fyrirtækjamarkaði spyrja Símann um stefnu og áherslur í samfélagsábyrgð þegar farið er í útboð, það skiptir Símann máli hvort okkar stóru erlendu birgjar eru að vinna af heiðarleika og með siðferði í fyrirrúmi. Fjárfestar leggja sífellt meiri áherslu á að veita sínu fjármagni í samfélagslega ábyrg fyrirtæki. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er góður bisness."

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA GLÆRUR