Andri Þór Guðmundsson á aðalfundi SA

Það er atvinnulífið sem skapar störfin og það er þörf ábending nú rétt fyrir kosningar þegar stjórnmálamenn keppast við að bjóða sem flest störf, eins og þeir stundi hér stórframleiðslu á alls kyns störfum. Þetta sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar á aðalfundi SA. Hann sagði íslenskt atvinnulíf ekki þurfa á því að halda að fara 60 ár aftur í tímann með höftum, neyslustýringu, pólitískum klíkuskap og spillingu. Íslenskt atvinnulíf þyrfti ennfremur ekki á því að halda að stofnað sé ríkishlutafélag til að endurskipuleggja þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar

Erindi Andra má lesa hér að neðan:

"Atvinnulífið skapar störfin" er yfirskrift þessa aðalfundar Samtaka atvinnulífsins. Þörf ábending nú rétt fyrir kosningar þegar pólitíkusar keppast við að bjóða sem flest störf, eins og þeir stundi hér stórframleiðslu á allskyns störfum.

Mér fannst sérstaklega athyglisvert að lesa frétt í Fréttablaðinu frá 9. apríl með fyrirsögninni "Vaxtarmöguleikar í vanræktum greinum". Þetta var semsagt mat Vinstri Grænna á horfunum í atvinnumálum þjóðarinnar. Þar taldi formaðurinn mögulegt að skapa 16.900 til 18.700 ný störf á næstu árum. Greinilega mikil nákvæmnisvinna hjá flokknum þar að baki. Formaðurinn lagði reyndar áherslu á að flokkurinn væri ekki að skapa eða lofa störfum heldur leggja til leiðir!  Athyglisvert. 

Og í hverju felast leiðirnar?

  • Jú aukin framlög til atvinnuþróunarfélaga.

  • Aukin  framlög til Byggðastofnunar.

  • Aukin framlög til opinberra sjóða ásamt skattívilnunum.

Frábært - er þetta málið? 

Þetta hlýtur að kóróna vonleysið og ráðaleysið sem hrjáir íslenskir stjórnamálamenn. Yfirlýsingarnar hljóma vel en sagan svíður. Eru þau mörg farsælu fyrirtækin sem opinberir sjóðir hafa aðstoðað við að koma á laggirnar?

Það eru nefnilega ekki stjórnvöld sem skapa störfin - það er atvinnulífið. Til þess að uppskeran verði góð þurfa stjórnvöld að skapa svigrúm til athafna. Ekki leggja til hömlur og afskipti. 

Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að fara 60 ár aftur í tímann með höftum, neyslustýringu, pólitískum klíkuskap og spillingu. Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að stofnað sé ríkis-hlutafélag í til að endurskipuleggja þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki.

Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að ríkisbankar stundi kennitöluflakk. Vilji menn góða uppskeru þarf stöðugleika.

  • Stöðugan gjaldmiðil.

  • Stöðugt verðlag.

  • Og vexti í samræmi við okkar helstu samkeppnislönd.

Vatn

Ein af vonarstjörnunum fyrir íslenskt atvinnulíf, samkvæmt sumum stjórnmálaflokkum er útflutningur á vatni.  Megum við eiga von á því að Byggðastofnun, atvinnuþróunarfélög og opinberir sjóðir fari að moka peningum í glórulausar fjárfestingar í útflutning á íslensku vatni? Vita menn um hvað þeir eru að tala?

Fjárfesting í vélbúnaði og húsnæði hverrar verksmiðju er ekki undir 2 milljörðum.

Miðað við núverandi vaxtastig er árlegur fjármagnskostnaður um 400 milljónir og afskriftir tækja um 200 milljónir. Útflutningurinn þarf því að standa undir þeirri upphæð að viðbættum rekstrarkostnaði og afborgunum lána. Til að standa undir þessu öllu þarf að selja 60 milljón flöskur af vatni eða u.þ.b. 3000 gáma!

Þau tvö fyrirtæki sem flytja íslenskt vatn til Bandaríkjanna seldu samtals um 12 milljónir lítra eða til einföldunar 24 milljónir flaskna. Ölgerðin hefur stundað útflutning á vatni til Bandaríkjanna síðan 2002 þegar við keyptum gjaldþrota fyrirtæki sem hafði stundað útflutning á vatni í rúman áratug. Á síðustu 20 árum hafa a.m.k. 13 fyrirtæki orðið gjaldþrota í vatnsútflutningi. 13 fyrirtæki á 20 árum. Og þetta segja stjórnmálamenn að sé framtíðin!

Það þarf meira en gott vatn eða gott hráefni til að ná árangri og fótfestu á erlendum markaði og hagnaði í rekstri.  Það skiptir töluverðu máli hvort við fáum 60 krónur fyrir dollarann eða 130 krónur.

Ég ætla rétt að vona að stjórnvöld og opinberir aðilar haldi sig víðs fjarri þegar skapa á ný störf við vatnsútflutning - vatnið er glópagull.

Vextir

Þegar vextir hækka þá hækkar  ávöxtunarkrafan til fjárfestinga sem oft leiðir til hærra verðs.  Þetta er hagfræði 101  - algert grunnatriði - en samt má aldrei ræða þessi órjúfanlegu bönd vaxta og verðlags.

Það er algjört tabú að rökstyðja nauðsynlegar verðhækkanir á vörum með hækkandi vöxtum. Fyrirtæki eins og Ölgerðin er með mikið fjármagn bundið í vélum og húsnæði.  Nauðsynlegur vélbúnaður til framleiðslunnar kostar ekki undir 2 milljörðum. 6% vaxtahækkun eins og sú í nóvember á síðasta ári kostar því um 120 milljónir króna. Segjum að við framleiðum um 30 milljónir lítra þá þyrfti að hækka lítraverðið um 4 krónur sem er um 2,5% hækkun.

Mér er í fersku minni þegar "Verðlagsnefnd búvara" tilkynnti allnokkra hækkun á mjólkurvörum á síðasta ári - aldrei þessu vant voru vextir notaðir sem rökstuðningur. Alþingismaðurinn Helgi Hjörvar fordæmdi þessa hækkun og hafnaði því alfarið að almenningur í landinu þyrfti að gjalda þess að bændur væru skuldsettir!  Þetta er misskilningur á hagfræði - það skiptir auðvitað engu máli hvernig greinin er fjármögnuð - með lánsfé eða hlutafé - eigendur fjármagns vilja eðlilega ávöxtun síns fjármagns umfram áhættulausa vexti Ríkisins.

Það er gangverk hagkerfisins - að ávöxtun og áhætta fara saman. Stjórnmálamenn og almenningur verða að skilja að hærri vextir þýða hærra verðlag.

Glötuð tækifæri

Það eru ekki bara háir vextir sem standa í vegi fyrir því að við hjá Ölgerðinni sköpum mun meiri útflutningstekjur en við gerum í dag. Þar er annar sökudólgur sem er óstöðugur gjaldmiðill. 

Ölgerðin fór á mis við stórkostlegt tækifæri fyrir nokkrum vikum þegar ekki náðust samningar um verð á íslenskum bjór fyrir Bretlandsmarkað. Um var að ræða allt að 8 milljónir lítra eða um 40% af heildarmarkaði fyrir bjór á Íslandi. Hefðum við  haft þokkalega stöðugan gjaldmiðil og lægri vexti þá fullyrði ég að þessi  samningur hefði náðst í gegn.

En hvernig er það mögulegt að verðleggja vöru í pundum  þegar við vitum ekki hvort pundið gefur 130 krónur eða 200 krónur?  Í útflutningi skipta  örfá prósent í verðlagningu oft úrslitum. En til að mæta óvissunni erum við neyddir til að bæta við áhættuálagi sem er að minnsta kosti um 20%.

Hver hér inni vill skrifa upp á samning um að framleiða 24 milljón einingar af vöru - en samþykkja að verð á hverja einingu  rjúki upp eða niður um 50%?  Slík plön kallast ekki rekstur og viðskipti. Þetta er fjárhættuspil. Það er ekki mönnum bjóðandi að þurfa að stunda fjárhættuspil til að stunda atvinnurekstur á Íslandi!

Lokaorð

Atvinnulífið þarf á stjórnmálamönnum að halda - en ekki til að hlutast til um rekstur fyrirtækja eða dæla peningum í misvitur verkefni heldur til að skapa stöðugleika, trú og festu. Við megum ekki fara 60 ára aftur í tímann með haftastefnu og hækkun skatta. Forsendur stöðugleika og þess að íslenskt þjóðfélag nái sér hratt á strik er innganga í Evrópusambandið. Við þurfum að ganga til viðræðna við Evrópusambandið án tafar.

  • Við erum búin að fá nóg af fjárhættuspili

  • Við erum búin að fá nóg af verðbólgu og ofurvöxtum

  • Það er tími til kominn að taka á málum

  • ÁFRAM ÍSLAND!

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.