Ályktun stjórnar SA um skattamál

Á fundi stjórnar Samtaka atvinnulífsins þann 10. nóvember 2011 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

"Stjórn Samtaka atvinnulífsins mótmælir framkomnum áformum ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir.  Ríkisstjórnin virðist hafa gefist upp á verkefni sínu.  Hún reynir þess í stað að afla sér stundarvinsælda með hækkunum skatta á þann hluta atvinnulífsins sem er henni ekki pólitískt þóknanlegur ásamt hækkunum á auðlegðarskatti sem að miklum hluta eru farnar að snúast um eignaupptöku.

Auðlegðarskattur ríkisstjórnarinnar hefur skapað margvísleg vandræði fyrir fjölda fyrirtækja og dregur úr fjárfestingargetu atvinnulífsins svo um munar.  Forsætisráðherra elur sífellt á tortryggni í garð fjármálafyrirtækja og því er fylgt eftir með nýjum skatti á launakostnað þeirra sem mun að lang mestu leyti bitna á starfsfólki og viðskiptavinunum.  Herferð ríkisstjórnarinnar gegn sjávarútveginum er haldið áfram og nú á enn að hækka veiðigjald.  Gengið er á samninga um skattamál stóriðjufyrirtækja og boðað hækkað og útvíkkað kolefnisgjald á þau á sama tíma og þeim verður íþyngt með greiðslum fyrir losunarheimildir.  Þá telur ríkisstjórnin nauðsynlegt að draga úr lífeyrissparnaði í séreignasjóði á sama tíma og fjárfestingar eru í lágmarki og lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna er í ólestri og stendur ekki undir þeim umframréttindum sem þar eru veitt.    

Skattaáformin sýna  að ríkisstjórnin hefur ekki þann styrk að geta sigrast á pólitískum erfiðleikum innan sinna eigin raða.  Fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxtur hefðu getað gert sérstakar skattahækkanir meira eða minna óþarfar en uppbygging atvinnulífsins hefur setið á hakanum hjá ríkisstjórninni.  Nauðsynlegt er að breyta um stefnu, auka fjárfestingar, fjölga störfum, hækka tekjur og stækka þannig skattstofnana sem skila hærri skatttekjum þrátt fyrir lækkandi álögur."