Ályktun stjórnar SA um samskipti atvinnulífsins og fjármálafyrirtækja

Á fundi stjórnar Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

"Viðbrögð fjármálafyrirtækja við dómum Hæstaréttar um ólögmæt gengisbundin lán fyrirtækja og nú síðast um fjármögnunarleigusamninga valda vonbrigðum. Ekki er að mati Samtaka atvinnulífsins tekið tillit til skýrra fordæmisgefandi efnisdóma sem skyldi.

Það er brýn nauðsyn fyrir atvinnulífið, ekki síst  lítil og meðalstór fyrirtæki, að úr þessum vanda  sé leyst nú þegar.

SA hafa því ákveðið að kalla aftur eftir samstarfi við þá aðila sem komu að átakinu "Beina brautin" til að þrýsta á  að gengið sé frá leiðréttingu vegna þessara fjármálagjörninga eins fljótt og verða má.

Þátttökuaðilar auk SA, þ.e. Viðskiptaráð, Samtök fjármálafyrirtækja, Samkeppniseftirlitið og  Efnahags- og viðskiptaráðuneytið þurfa nú að taka saman höndum að nýju og finna sameiginlega lausn á þessum vanda.

Samhliða  verði metinn árangur af "Beinu brautinni" og ekki síður öðrum aðgerðum, sem gripið hefur verið til af hálfu fjármálafyrirtækja varðandi skuldamál atvinnufyrirtækja og það m.a. skoðað hvort eftirfylgni sé ekki nauðsynleg til að tryggja að þessar aðgerðir nái tilgangi sínum.

Það er kominn tími til að láta af lögfræðiþrætum um orðalag lánasamninga og horfa fram á veginn með framtíðarhagsmuni alls atvinnulífsins og þar með talið fjármálafyrirtækjanna  í huga."