Efnahagsmál - 

02. október 2008

Ályktun SI um stöðu efnahagsmála

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ályktun SI um stöðu efnahagsmála

Stjórn Samtaka iðnaðarins (SI) kallar eftir að ríkisstjórn og Seðlabanki marki sér stefnu til langs tíma í efnahagsmálum, tali skýrt og grípi þegar í stað til ráðstafana til þess að greiða úr alvarlegum lausafjárskorti, koma jafnvægi á gengi krónunnar og dragi þannig úr neikvæðum áhrifum niðursveiflu efnahagslífsins.

Stjórn Samtaka iðnaðarins (SI) kallar eftir að ríkisstjórn og Seðlabanki marki sér stefnu til langs tíma í efnahagsmálum, tali skýrt og grípi þegar í stað til ráðstafana til þess að greiða úr alvarlegum lausafjárskorti, koma jafnvægi á gengi krónunnar og dragi þannig úr neikvæðum áhrifum niðursveiflu efnahagslífsins.

Í ályktun stjórnar SI sem fylgir hér á eftir segir enn fremur:

Seðlabanki og ríkisstjórn tryggi eðlilega bankastarfsemi

Brýnt er að tryggja eðlilegt flæði gjaldeyris á markaði með öllum tiltækum ráðum, s.s. gjaldeyrisskiptasamningum. Það er nauðsynlegt til þess að koma fjármagni inn á uppþornaðan íslenskan lánamarkað. Seðlabankar um allan heim keppast við að smyrja hjól atvinnulífsins með lausafé. Það ætti íslenski Seðlabankinn líka að gera.

Lækkun vaxta þegar í stað

Þegar í stað á að hefja snarpt vaxtalækkunarferli. Atvinnulífið rís ekki undir þessu vaxtastigi. Enn ein verðbólguholskefla mun ríða yfir að óbreyttu gengi hvað sem vaxtastigi líður. Hratt minnkandi spenna í atvinnulífinu réttlætir myndarlega lækkun.

Maastricht-skilyrðin

Þegar í stað á að gefa út yfirlýsingu um að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi sett sér að uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði innan tiltekins tíma, t.d. þriggja ára. Það gefur fyrirheit um stöðugleika.

Samtök iðnaðarins hafa mótað þá stefnu að ganga eigi í ESB og taka upp evru en uppfylling Maastricht-skilyrðanna er eðlilegur og sjálfsagður millileikur.

Jöklabréf

Ríkisstjórn og Seðlabanki verða að gera grein fyrir hvernig á að bregðast við gjalddögum jöklabréfa svo nemur tugum eða hundruðum milljarða á næstu mánuðum.

Samvinna

Ríkisstjórnin á að hafa forgöngu að því að kalla án tafar saman samtök atvinnu­rekenda, launþega, fjármálafyrirtækja og seðlabankann til þess að vinna að því að greiða sameiginlega úr þeim grafalvarlega vanda sem fyrirtæki og allur almenningur stendur frammi fyrir.

Samtök atvinnulífsins