Ályktun Iðnþings 2014

"Atvinnulífið þarf að öðlast trú á að afnám hafta sé forgangsmál íslenskra stjórnvalda. Skoða ber strax afnám haftanna á lágum greiðslum og einföldun allrar stjórnsýslu þeirra. Viðurkenndur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfni fyrirtækja sem geta ekki búið við það háa vaxtastig sem hér er." Þetta segir m.a. í ályktun Iðnþings Samtaka iðnaðarins sem fór nýverið fram.

Ályktunina í heild má lesa hér

Iðnþing kallar eftir samstilltri sókn um að hámarka framleiðni, verðmætasköpun og gjaldeyristekjur.

"Íslenskur iðnaður er fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og drifkrafta hans verður að virkja til fulls. Skapa þarf samstarf og einurð í landinu um að keppa markvisst að því að koma Íslandi í fremstu röð. Við eigum í harðri samkeppni við lönd sem fylgja skýrri framfarastefnu og sækja hart fram til að laða til sín bestu starfskraftana og fyrirtækin. Eina svarið er að efla samkeppnishæfni Íslands og þá þarf mikið að breytast.

Til þess þarf langtímahugsun í stað kollsteypa í stjórnarframkvæmd. Fram verður að koma heildstæð framtíðarsýn og markvissar aðgerðir sem endurreisa þá umgjörð sem allt atvinnulíf verður að njóta til að sækja fram. Þar ber hæst stöðugleika í hagstjórn, heilbrigða markaði, framúrskarandi starfsskilyrði og opinn markaðsaðgang."

Þá vilja SI efna nýsköpun með skattalegum hvötum og eflingu samkeppnissjóða.

Allt efni Iðþings má nálgast á vef SI, en þar má einnig horfa á upptöku frá þinginu.